Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 23:28:42 (3230)

2003-12-11 23:28:42# 130. lþ. 48.16 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv. 146/2003, Frsm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[23:28]

Frsm. sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Hér hafa þingmenn gert grein fyrir fyrirvörum sínum. Ég vil taka fram að mér finnast þeir fyrirvarar eðlilegir. Mér finnast þau sjónarmið sem hv. þm. Jón Bjarnason og Jón Gunnarsson gerðu grein fyrir vera eðlileg. Við tókum undir þau og gerðum þau að skoðun nefndarinnar. Segja má að um þetta ríki ekki mikill ágreiningur. Ráðherra lagði fram frv. þar sem hann breytir forminu yfir í formlegan sjóð, einmitt vegna þess að það þykir ekki eðlilegt fyrirkomulag að ráðstöfun fjár sé á hans hendi án þess að það sé með skýrum og formlegum hætti.

Nefndin bætti um betur og setti inn í frv. ákvæði um að stjórn skyldi vera yfir sjóðnum og að ráðherra setti henni reglur þar sem kveðið væri á um hvernig standa ætti að úthlutun, hversu margir stjórnarmenn væru o.s.frv.

Þá tókum við líka undir það sjónarmið sem fram kom í nefndinni frá hv. þingmönnum sem hér hafa talað, að rétt væri að kynna fyrir sjútvn. hugmyndir ráðherra um stjórn og úthlutun áður en þær taka gildi til að nefndarmönnum gefist kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um þau drög sem ráðherrann kemur til með að leggja fram.

Ég vildi, herra forseti, árétta þetta, að þau sjónarmið sem hér hefur verið gerð grein fyrir njóta stuðnings í nefndinni. Ég vænti þess að þau nái fram að ganga með góðu samstarfi allra.