Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 23:34:05 (3232)

2003-12-11 23:34:05# 130. lþ. 48.17 fundur 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv. 149/2003, JGunn
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[23:34]

Jón Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Á sama hátt og ég gerði í fyrra máli vil ég gera stutta grein fyrir þeim fyrirvara sem fulltrúar Samf. í sjútvn. hafa við nál. sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson var að mæla fyrir.

Segja má að um sé að ræða sams konar fyrirvara og í hinu fyrra máli, þ.e. að við viljum sjá tillögur um með hvaða hætti stjórn Verkefnasjóðs sjávarútvegsins verður skipuð og hvaða reglur koma til með að gilda þar um úthlutun.

Það er ljóst að þegar hinn svokallaði hafróafli fer í þennan sjóð ásamt gjaldi fyrir ólögmætan afla verður um mikla fjármuni að ræða. Það má jafnvel ætla að árlega gætu runnið í þennan sjóð, miðað við óbreytt umfang, um 300 millj. kr. Með samþykkt þessa frv. munu fjármunir sem runnið hafa beint til Hafrannsóknastofnunar ekki gera það lengur. Því er alveg ljóst að fjármunir Hafrannsóknastofnunar munu dragast saman á ársgrundvelli.

Varðandi reglur sjóðsins viljum við sjá að Hafrannsóknastofnun geti sótt í þennan sjóð vegna rannsókna, hvort sem um er að ræða rannsóknir á loðnu í Norðurhöfum, sértækar veiðarfærarannsóknir eða rannsóknir á lífríki hafsins. Reglurnar gætu jafnvel verið með einhverjum þeim hætti að Hafró gæti átt forgang í einhvern hluta sjóðsins.

Það verður mikil breyting í sjálfu sér þegar 150--190 millj. kr. koma ekki lengur inn í sjóði Hafró í gegnum þetta gjald heldur fara beint inn í Verkefnasjóð sjávarútvegsins.

Eins og ég gat um í upphafi skrifum við undir nál. með fyrirvara og vonumst til að sú skýrsla sem við fáum um þetta mál þegar þar að kemur verði mjög ítarleg. Jafnframt vonumst við til að reglurnar sem sjútvrh. kemur til með að kynna okkur um úthlutun úr sjóðnum og skipan stjórnar hans verði skýrar og greinargóðar þannig að allt liggi fyrir áður en byrjað verður að úthluta úr sjóðnum.