Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 23:36:34 (3233)

2003-12-11 23:36:34# 130. lþ. 48.17 fundur 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv. 149/2003, JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[23:36]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða nál. um frv. um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Ég er með fyrirvara á því líkt og í síðasta máli sem hér var á dagskrá. Verkefnasjóður sjávarútvegsins, sem í gætu safnast nokkur hundruð millj. kr., ætti að vistast utan ráðuneytis og vera með skýra stjórnsýslulega stöðu. Sú breyting sem gerð er á er til bóta, að hann fái stjórn og skýrar úthlutunarreglur og að þær verði kynntar sjútvn.

Ég tel einnig eðlilegt að hlutverk sjóðsins verði rýmkað, að hann geti komið að fleiri verkefnum en þeim sem unnin eru á vegum Hafrannsóknastofnunar. Mig minnir að þetta fyrirkomulag hafi aðeins verið við lýði í eitt ár þannig að þetta hefur sem slíkt ekki komið beint að rekstri Hafrannsóknastofnunar til langs tíma. Þetta hefur sjálfsagt fyrst og fremst farið í ákveðin verkefni. Það þarf að sjálfsögðu að huga vandlega að fjárhag Hafrannsóknastofnunar. Ég vil leggja áherslu á hversu skammt við erum komin í rannsóknum á notkun veiðarfæra og öðru sem lýtur að veiðum og nýtingu á fiski með mismunandi veiðiaðferðum. Við erum þar skammt á veg komin, sorglega skammt reyndar. Ég tel að þar sé verkefni sem mætti njóta viss forgangs.

Annars sjáum við bara hvernig þetta þróast. Ég ítreka að það þarf að fylgjast með því hvernig ákvæði um meðafla kemur til með að virka. Menn þurfa að fylgjast með löndun meðafla og skiptingu þess fjár, samsetningu aflans og hvernig þetta kemur út gagnvart flotanum. Eru allir með í þessu og þá með hvaða hætti? Mikilvægt er að nákvæm skráning á því fari fram. Þannig er hægt að nýta þetta sem stýritæki og meta hvort gera þurfi á þessu breytingar. Það er ekki hægt nema nákvæmar upplýsingar liggi fyrir um hvernig tekst til og framvindu málsins í framkvæmd.