Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 23:39:44 (3234)

2003-12-11 23:39:44# 130. lþ. 48.17 fundur 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv. 149/2003, Frsm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[23:39]

Frsm. sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Eins og heyra má hefur ríkt allgóð samstaða um afgreiðslu þessa máls líkt og hins fyrra sem ég mælti fyrir áðan. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka nefndarmönnum í sjútvn. fyrir samstarfið. Ég tel að það hafi gengið afar vel í haust og skilað m.a. ágætum nefndarálitum í þessum málum.

Ég vek athygli á að í þessum nýja sjóði eru gerðar breytingar, einkum tvær sem mér finnst ástæða til að taka sérstaklega fram. Í fyrsta lagi er bætt við nýju sviði varðandi ráðstöfun fjárins. Það mun ekki lengur takmarkast við hafrannsóknir og eftirlit eins og verið hefur, heldur bætist við nýsköpun á sviði sjávarútvegs.

Í öðru lagi mun fé úr sjóðnum ekki einvörðungu renna til Hafrannsóknastofnunar heldur er opið fyrir aðra vísindamenn að sækja um fé úr sjóðnum til að standa straum af rannsóknum sínum. Það er ákaflega þýðingarmikið að við opnum farveg fyrir vísindamenn og fræðimenn á þessu sviði sem starfa utan Hafrannsóknastofnunar. Ég tel sérstaka ástæða til að vekja athygli á þessu og fagna þessum breytingum.

Hinu er ekki að neita að það fé sem hefur verið til ráðstöfunar undanfarið rúmt ár hefur runnið í verulegum mæli til Hafrannsóknastofnunar og fjármagnað ákveðna þætti í starfsemi hennar. Ég tel að breytingar á ráðstöfun fjárins megi ekki gera það hratt að veigamikil verkefni hjá Hafrannsóknastofnun líði fyrir. Allt verður þetta að gerast með eðlilegum hætti þannig að skiptin gerist farsællega.

Þetta vildi ég taka fram, herra forseti, vegna þess sem hér kom fram í máli hv. þingmanna sem gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum, sem ég tek undir. Ég hygg að allgóð samstaða ríki um þau í nefndinni.