Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 23:50:48 (3239)

2003-12-11 23:50:48# 130. lþ. 48.19 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[23:50]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Hæstv. forseti. Ég vona að ég sé að tala undir því dagskrármáli sem ég ætlaði að tala undir áðan. Nú er vel liðið á kvöld þannig að það verður að afsaka það. Svona mistök geta átt sér stað.

Eins og fram kom hjá framsögumanni nefndarinnar skrifum við í stjórnarandstöðunni undir þetta álit með fyrirvara sem ég ætla að gera nánari grein fyrir.

Það varð mikil umræða um þetta mál þegar það kom til 1. umr. og ærin ástæða til. Þær breytingar sem fram komu í 1. gr. þessa frv. höfðu sætt mikilli gagnrýni af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni og þeirra sem við þessar breytingar eiga að búa, þ.e. Samtaka fiskvinnslustöðva og Starfsgreinasambandsins. Það var full ástæða til þess að hæstv. ráðherra leitaði samkomulags í málinu áður en það kæmi til 2. umr. Hæstv. ráðherra gerði það og er ástæða til að þakka hæstv. ráðherra fyrir. Hann hvattur til þess að af okkur við 1. umr. málsins. Við töldum farsælast fyrir framgang málsins að slíkt yrði gert.

Lagasetningin frá 1995 var til komin til að höggva á hnút sem í kjaradeilu við fiskvinnslufólk og viðsemjendur þeirra á því ári. Þess vegna gekk auðvitað ekki að hæstv. ráðherra eða ríkisstjórnin ætlaði sér með þessu frv. að breyta einhliða samningum sem þá voru gerðir með valdboði.

Eftir að hæstv. ráðherra náði samkomulagi við Samtök fiskvinnslustöðva og fulltrúa frá Starfsgreinasambandinu er ljóst að það er bærileg sátt í málinu. Það er þó ekki þannig úr garði gert að við í stjórnarandstöðunni, a.m.k. fulltrúar Samf., treystum okkur til að skrifa undir það fyrirvaralaust. Ágreiningsatriðin voru aðallega varðandi heildardagafjöldann á ári sem greitt er fyrir, þ.e. mismuninn á atvinnuleysisbótum og launum fiskvinnslufólks. Hugmyndin var sú að það færi úr 60 dögum í 30 daga og síðan að fyrirtækin tækju á sig að greiða laun til fiskvinnslufólks í hráefnisstoppi fyrstu fjóra dagana í stað tveggja.

Að vísu náðist ekki samkomulag um að breyta þriðja atriðinu, um að vinnslustopp gæti varað samfellt í 20 daga í stað 30 daga. Við heyrðum það hjá fulltrúa Starfsgreinasambandsins, sem mætti á fund nefndarinnar eftir að samkomulagið var í höfn, að hann hefði einnig viljað sjá breytingar á því ákvæði.

Varðandi ákvæðin í 2. og 3. gr. frv., um að auka eftirlit með framkvæmdinni, bæta hana, auka skilvirkni og koma í veg fyrir misnotkun, sem menn telja að sé fyrir hendi, á þessu fyrirkomulagi sem tryggt hefur bærilegt atvinnuöryggi og kjör fiskvinnslufólks á síðustu árum, þá hygg ég að segja megi að enginn mótmæli því að framkvæmdin verði sérstaklega skoðuð. Það verður bara til góðs að auka eftirlit og skilvirkni og bæta framkvæmdina þannig að við gerum ekki ágreining um það.

Spurningin snýst um hvort þær breytingar, sem hér eru gerðar og við styðjum í framhaldi af því samkomulagi sem gert var, dugi til að skerða ekki kjör fiskvinnslufólks. Þar hef ég miklar efasemdir. Reyndar kom fram á fundi efh.- og viðskn. hjá fulltrúa Starfsgreinasambandsins að eftir sem áður, þrátt fyrir þessar lagfæringar, geti þetta þýtt kjaraskerðingu fyrir einhverja. Mér skilst á fulltrúum Starfsgreinasambandsins að þeir treysti mjög á tvennt, þ.e. að þessi mál verði tekin upp í kjarasamningum og að menn skoði kauptrygginguna betur.

Það er ákveðin hætta á því, sem menn óttast nokkuð, að fiskvinnslustöðvar fari í auknum mæli að beita svokallaðri fjögurra vikna reglu. Samkvæmt henni er hægt að senda fiskvinnslufólk heim með fjögurra vikna fyrirvara. Reynslan er sú að þegar það hefur verið gert þá er það oft ekki í stuttan tíma heldur til lengri tíma og allt upp undir ár. Ég heyrði á fulltrúum Starfsgreinasambandsins að þeir vilja fá betri tryggingu fyrir þessu og munu væntanlega taka það upp í kjarasamningum. Það var hluti af þessu samkomulagi sem komist var að en í því segir orðrétt:

,,Jafnframt munu þeir beita sér fyrir því að unnið verði að framkvæmd í kjarasamningi um kauptryggingar sem byggi á ofangreindum lögum.``

Þetta er hluti af þessu samkomulagi, ef ég skil málið rétt. Það eru sem sagt Samtök fiskvinnslustöðva og Starfsgreinasambandið sem hafa væntanlega sett þetta á blað. Það er treyst verulega á að í kjarasamningum verði sest yfir þann möguleika sem enn virðist á að kjör og atvinnuöryggi fiskvinnslufólks skerðist og honum lokað alveg sérstaklega.

Annað atriði leggja fulltrúar Starfsgreinasambandsins einnig mikla áherslu á og það kemur fram í nál. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega um það. Í nál. félmn. segir:

,,Nefndin leggur áherslu á að fram fari vinna við endurskoðun laga nr. 19/1979 og þá helst 3. gr. þeirra í samstarfi félagsmálaráðuneytis, Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka fiskvinnslustöðva.``

Verkalýðshreyfingunni og Starfsgreinasambandinu er þessi grein verulegur þyrnir í augum. Þetta er gamalt ákvæði sem fyrst kom inn árið 1957 eða 1958 og er enn í endurskoðaðri löggjöf frá 1979, þ.e. um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Fulltrúi Starfsgreinasambandsins leggur mikla áherslu á að ákvæði sem þar er inni, varðandi hráefnisskort, fari út. Við í stjórnarandstöðunni tökum undir það með honum að þetta sé orðið úrelt ákvæði. Það er ekki hægt að jafna því við önnur ákvæði í 3. gr. þar sem talað er um ófyrirsjáanleg áföll, svo sem vegna bruna eða skipstapa. Það er bara ekki hægt að bera bruna eða skipstapa saman við hráefnisskort og ætti ekki að setja undir sama hatt í þessari grein.

Það er lögð mikil áhersla á að þessi grein eða sá hluti sem lýtur að hráefnisskorti falli brott. Það er auðvitað mikið undir hæstv. ráðherra komið að farið verði í endurskoðun á þessum lögum með það að markmiði að reyna að ná samkomulagi um að ákvæðið um hráefnisskortinn falli út úr þessari grein. Ég held að það gangi ekki, virðulegi forseti, að hafa svona sérákvæði um fiskvinnslufólk og atvinnuöryggi þeirra.

Maður staldrar orðið við það, eins og maður gerir stundum þegar ríkisstjórnin kemur með frumvörp inn í þingið, hvort menn séu á jaðri stjórnarskrárinnar þegar þeir setja svona sérákvæði, sem eru í gildi núna 50 árum seinna, við allt aðrar aðstæður en uppi voru fyrir hálfri öld, að hafa slíkt sérákvæði inni fyrir fiskvinnslufólk.

[24:00]

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra að því: Er ekki alveg klárt að markmiðið með þessari endurskoðun, sem verið er að fara í á þessum lögum, sérstaklega 3. gr. hennar, miðist við það að tryggja atvinnuöryggi eða uppsagnarfrest fólks í fiskvinnslu með sama hætti og hjá öðrum launþegum þannig að þetta varðandi hráefnisskortinn falli brott?

Ég þarf út af fyrir sig, virðulegi forseti, ekki að hafa mörg fleiri orð um þetta frv. Ég gekk nokkuð eftir því og fékk greiðar upplýsingar um það í félmrn. hve mörg fyrirtæki væru stopp vegna hráefnisskorts sem færi yfir 45 daga, því að það er komið í brtt. að í stað 60 daga eru dagarnir 45. Það eru alls ekki mörg fyrirtæki miðað við reynsluna, þau voru 15 árið 2000, 14 árið 2002 og 7 fyrirtæki á fyrstu 11 mánuðum þessa árs. Að vísu er desember ekki liðinn og vantar þær tölur fyrir árið 2003 svo þar gæti fjölgað nokkuð, en það eru sem sagt örfá fyrirtæki sem hafa farið yfir þessa 45 daga, yfirleitt lítil fyrirtæki með 1--6 starfsmenn, en engu að síður er þetta fólk sem gæti þurft að búa við kjaraskerðingu ef ekki væri betur frá málum gengið en verið er að gera með þessum brtt.

Við fórum yfir það bæði við 1. umr. málsins og eins í nefndinni að kjaraskerðing getur orðið veruleg, eða kannski frá 130 þús. kr. niður í meðaltal sem greitt er vegna atvinnuleysisbóta, 65 þús. kr., við erum því að tala um helming. Einnig óttast menn svolítið að það verði farið í auknum mæli að beita fjögurra vikna reglunni.

Ég óskaði eftir því að ráðuneytið upplýsti um það hve mörg fyrirtæki, sem væru í ráðningarsambandi við fiskvinnslufólk, hefðu beitt þessari fjögurra vikna reglu og um það fengust engar upplýsingar. Ráðuneytið telur að það þurfi að skoða það mál miklu betur og telur sig þurfa tíma til þess að skoða það. Það hefði auðvitað verið æskilegt að við hefðum eitthvert mat á því hve líkurnar væru miklar á því að þessari fjögurra vikna reglu væri beitt. En ég virði það alveg sem fram kom hjá fulltrúum ráðuneytisins að það taki tíma að skoða það. Ég vænti þess að þeirri vinnu verði haldið áfram vegna þess að ég held að það væri bæði gagnlegt fyrir ráðuneytið og Samtök fiskvinnslustöðva og Starfsgreinasambandið að það lægi fyrir, ekki síst ef menn eru að fara inn í kjarasamninga þar sem á að taka þetta frekar upp varðandi kauptrygginguna. Ég hvet því hæstv. ráðherra til þess að láta þá vinnu halda áfram í ráðuneytinu að skoða það þó að það taki einhvern smátíma og við munum ekki fá niðurstöðu áður en þetta frv. verður að lögum.

Ég vil líka segja það, virðulegi forseti, að mig undraði nokkuð þegar ég gekk eftir því við fulltrúa ráðuneytisins á fundi félmn. að það hafði engin athugun verið gerð á því í ráðuneytinu, áður en þetta frv. var lagt á borðið, hvaða áhrif þessar breytingar hefðu á kjör fiskvinnslufólks. Ég held að það sé afar mikilvægt að menn leggi mat á það þegar þeir eru að koma inn með þessar breytingar.

Einu furðaði ég mig líka á, að sparnaðurinn samkvæmt frv. átti að vera 65--70 millj. kr. miðað við að fyrri áform hæstv. félmrh. næðu fram að ganga, en eftir það samkomulag sem hæstv. ráðherra náði og þær breytingar sem voru gerðar til þess að draga úr þeim skerðingum sem fiskvinnslufólk getur orðið fyrir og til þess að tryggja betur atvinnuöryggi þess og líka til að draga úr kostnaði fyrirtækjanna, höfðu þessar breytingar einungis í för með sér að frv. sem spara átti 65--70 millj. kr. sparaði 52 millj. kr. eftir breytingarnar. Við erum því að tala um kannski 12--16 millj. kr.

Það var upplýst í nefndinni að skiptingin á sparnaðinum mundi í fyrsta lagi koma niður á skerðingu á kjörum fiskvinnslufólks, í öðru lagi er reiknað með einhverjum sparnaði vegna herts eftirlits og bættri framkvæmd og í þriðja lagi kom fram hjá fulltrúa Samtaka fiskvinnslunnar að tveir dagar, sem fyrirtæki ættu samkvæmt frv. að taka á sig bótalaust í hráefnisstoppi, að hver dagur þýddi 10 millj. kr. Nú er búið að fækka þessum dögum sem fyrirtækið tekur á sig niður í einn og það þýðir 10 millj. kr. hver dagur. Það standa þá einungis eftir 5--6 millj. kr. sem koma fram í minni sparnaði vegna þess að það átti frekar að tryggja það að fiskvinnslufólk yrði ekki fyrir skerðingu. Vera má að það séu það margir sem eru á tímabilinu 30--45 dagar, að það sé einhver skýring þar á.

Virðulegi forseti. Ég beindi spurningum til hæstv. ráðherra sem ég vænti þess að fá svör við. Ég vil líka segja það í lokin að ég fagna því að hæstv. ráðherra féll frá því að breyta atvinnuleysistryggingarlögunum, eins og til stóð, að skerða fyrstu þrjá dagana í atvinnuleysi. Það kom alveg glögglega fram hjá fulltrúa Starfsgreinasambandsins að sú yfirlýsing ráðherra átti sinn þátt í því að það náðist sátt í deilunni sem þar var uppi.

Ég vil nota tækifærið í lokin, af því að við erum að ræða kjör fiskvinnslufólks og við erum að ræða kjör atvinnulausra, að minna á, virðulegi forseti, að ég átti orðastað við hæstv. ráðherra hér í lok október, um fsp. sem ég beindi til ráðherra vegna þess að það hefur verið vinna í gangi í upp undir heilt ár á vegum ráðuneytis hans og forsrn. einnig, sem átti að leggja fram tillögur um úrbætur í málefnum fátækra. Þegar hæstv. ráðherra svaraði fsp. minni um mánaðamótin október/nóvember, upplýsti hæstv. ráðherra að tillögur ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í málefnum fátækra mundu liggja fyrir um miðjan nóvembermánuð. Nú er að koma miður desembermánuður og þingið að fara heim og þess vegna finnst mér ekki úr vegi í þessari umræðu að inna ráðherrann eftir því hvað dvelji að ekki sjáist þær tillögur sem hann boðaði til þess að bæta kjör atvinnulausra. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra upplýsi okkur við þessa umræðu um hvað líði því að leggja fram í þinginu skýrsluna sem þriggja eða fjögurra manna ráðherranefnd er að vinna að um stöðu fátækra og tillögum til úrbóta.