Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 10:21:43 (3250)

2003-12-12 10:21:43# 130. lþ. 49.11 fundur 454. mál: #A rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma# skýrsl, RG
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[10:21]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég er mjög ánægð með að við ræðum hér rammaáætlun um virkjun vatnsafls og jarðvarma og finnum til þess tíma mitt í jólaönninni í þinginu vegna þess að þetta er eitt af stóru málunum í mati á virkjunarkostum, en stóra málið er hvaða stöðu þessi skýrsla á að fá. Hvort ríkisstjórnin gefur henni það vægi í ákvarðanatöku sem er svo mikilvægt að hún fái. Það er stóra málið í umræðunni um þessa skýrslu.

Það eru ríkar ástæður til að fagna skýrslu um 1. áfanga rammaáætlunarinnar. Í fyrsta lagi vegna þess að með skýrslunni fæst í fyrsta sinn heildstætt yfirlit þar sem er að finna samanburð á mörgum virkjunarhugmyndum, þar sem bæði er litið til arðsemi, en fyrst og fremst til áhrifa á umhverfið. Yfirlit sem án efa mun stuðla að upplýstri umræðu um virkjanir og náttúruvernd og sem vonandi verður til þess að betri sátt geti náðst um val á virkjunarkostum í framtíðinni.

Í öðru lagi ber að fagna því að í þessari skýrslu er á vissan hátt sýnilegur árangur af leiðtogafundinum í Rio de Janeiro 1992, og jafnframt af störfum nefndar sem Gro Harlem Brundtland stýrði og skilaði skýrslu sem lagði grunninn að hugmyndum um sjálfbæra þróun. Í kjölfar ráðstefnunnar í Ríó, sem svo sannarlega markaði tímamót í umræðum um umhverfismál, voru settir á laggirnar fjölmargir starfshópar hér á landi, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, til að móta hugmyndir um aðgerðir til að ná þessum markmiðum. Meðal annars var nefnd sem umhvrh. skipaði 1993, sem ég tel að hafi verið formaður Samf. Össur Skarphéðinsson miðað við ártalið, og skilaði niðurstöðu árið 1995 þar sem hugmyndir um rammaáætlun litu fyrst dagsins ljós.

Í þriðja lagi vil ég lýsa ánægju minni vegna þess að vinna við rammaáætlun hefur leitt til þess að nú hefur með kerfisbundnum hætti verið leitast við að kortleggja íslenska náttúru og með þeim vinnubrögðum hefur náðst heildstæðari sýn á náttúrufar landsins. Og ég vil enn á ný minna á hve mikil áhersla var lögð á það á umhverfisþingi hér í haust að við ættum að leggja alla áherslu á kortlagningu landsins og kortagerð við vinnuna til framtíðar á öllum sviðum umhverfisstarfanna.

Samfylkingin hefur mörg undanfarin ár mælt fyrir vinnubrögðum af þessu tagi og þessi skýrsla bæði undirstrikar og staðfestir að sú stefna er farsæl. Það er vissulega margt óunnið í þessum efnum, en mér sýnist augljóst að nú verði ekki aftur snúið og með tíð og tíma eignumst við afar gagnlegt yfirlit yfir náttúru landsins.

Ég er líka ánægð með yfirlýsingu umhvrh. og iðnrh. um að eðlilegt sé að beina undirbúningi nýrra virkjana á næstu árum að þeim kostum sem samkvæmt niðurstöðum 1. áfanga rammaáætlunar hafa minnst umhverfisáhrif. Það er mjög mikilvægt. Ég ætlast til þess að orkufyrirtækin í landinu hafi þetta í huga þegar þau undirbúa frekari aukningu í rafvæðingu landsins.

Ég vil árétta að það verður að líta til fyrirvara sem gerðir eru í skýrslunni við virkjunarkosti eins og Skaftárveitu, Brennisteinsfjöll og Grændal. Við verðum að standa saman um að skoða þessa þætti sérstaklega.

Hæstv. ráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, nefndi það í umræðunni að ekki væri hægt að útiloka kosti í D og E matinu, en ég segi: Við verðum að láta framtíðinni það eftir að meta þá viðkvæmu kosti vegna þess að það er mjög breytt hugarfar í dag frá því fyrir 10 árum, fyrir 20 árum, og við í nútímanum megum ekki rasa um ráð fram.

Þó skýrsla um 1. áfanga sé vissulega gagnlegt skjal, er vinnu við rammaáætlun ekki lokið. Eins og fram kemur í skýrslunni þarf að afla betri upplýsinga um ýmsa kosti sem komi til skoðunar í þessu mati. Enn eru fjölmargir kostir sem ekki hafa verið metnir. Í ljósi reynslunnar af 1. áfanga tel ég augljóst að vinnu við verkefnið verði haldið áfram. Ég hvet því bæði iðnrh. og umhvrh. til að hefja þegar undirbúning að því að hægt verði að byrja rannsóknir og undirbúning sem eru forsenda þess að hægt verði að ljúka við 2. áfanga rammaáætlunarinnar. Og vinnu af því tagi sem hér er lýst á að sjálfsögðu að viðhafa jafnframt við mat á umhverfisáhrifum, en það er mál sem við erum með fyrir þingið núna og erum með til skoðunar í umhvn.

Við Íslendingar höfum lengi látið í veðri vaka að orkuauðlindir okkar væru svo að segja óþrjótandi. Vissulega sýnir skýrslan að verulegir möguleikar eru til að auka raforkuframleiðslu í landinu og jafnframt taka ríkt tillit til náttúruverndarsjónarmiða. Niðurstöður rammaáætlunar benda til þess að hugsanlega megi tvöfalda raforkuframleiðsluna án þess að gengið verði á þau svæði þar sem orkuvinnsla veldur mestum skaða á náttúruverðmætum og möguleikum til útivistar. En mér finnst skýrslan einnig leiða í ljós að jarðvarma- og vatnsorkuauðlindirnar eru ekki óþrjótandi. Það verður því að gæta varfærni og sýna hóf við nýtingu þeirra, eins og annarra takmarkaðra auðlinda. Ekki síst ef við viljum standa vörð um aðra og ekki síður mikilvæga auðlind þjóðarinnar, nefnilega lítt snortna náttúru og víðerni á hálendi landsins.

Skýrslan er ágætur vísir á virkjunarkosti sem líklega má nýta án þess að skaða náttúru og landslag og útivistarhagsmuni. Í mínum huga er skýrslan einnig vísir á svæði sem augljóslega eru svo verðmæt að þau ber að vernda frá framkvæmdum sem gætu spillt þeim. Á hálendinu beinir skýrslan athyglinni sérstaklega að verndargildi Jökulsár á Fjöllum, Markarfljóts og Torfajökulssvæðinu. Í grennd við höfuðborgina, í sjálfu landnámi Ingólfs, sýnist mér augljóst að taka verði til gaumgæfilegrar athugunar hvort ekki sé ástæða til að treysta verndun svæða eins og Brennisteinsfjalla og Grændals.

Virðulegi forseti. Að lokum sé ég ástæðu til að þakka þeim stóra hópi fólks sem í liðlega fjögur ár hefur lagt sig fram svo ljúka mætti þessum áfanga. Ekki síst vil ég þakka formanni verkefnisstjórnar, Sveinbirni Björnssyni, sem hefur stýrt þessu vandasama verkefni í höfn með svo ágætum árangri. Ekki má heldur gleyma hlutdeild Landverndar í þessu viðfangsefni, en samtökin hafa undanfarin fjögur ár skapað vettvang samráðs og umræðu um rammaáætlun, en það tel ég vera forsendu þess að hægt sé að ná sátt um verkefni af þessu tagi.

(Forseti (GÁS): Forseti vill geta þess að áformað er að atkvæðagreiðsla fari fram um kl. hálftvö.)