Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 10:30:20 (3251)

2003-12-12 10:30:20# 130. lþ. 49.11 fundur 454. mál: #A rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma# skýrsl, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[10:30]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur farið vel yfir málið af hálfu okkar samfylkingarmanna og benti á það að hér hefur orðið sýnilegur árangur af Ríó-fundinum og vinnunni undir stjórn Gro Harlem Brundtland og benti á það að Samfylkingin hefur margoft talað fyrir vinnubrögðum eins og hér hefur verið beitt og lagði áherslu á það að beina sjónum sínum að kortum sem hafa sem minnst umhverfisrask eða umhverfisáhrif.

Herra forseti. Náðst hefur frábær árangur með þessum niðurstöðum í 1. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, því hér er komin aðferðafræði eða tæki til að vinna með til að raða nýtingunni. Þarna er ekki á ferðinni endanlegt mat á verndargildi eða áhrifum virkjunar, heldur er hér um röðun að ræða og ef einn kostur fer út úr röðinni, þarf að vinna áætlunina að nýju þannig að röðunin breytist. En tækið til þess er hér komið og ég fagna því. Það er mjög mikilvægt.

Við höfum í fyrsta sinn nú með þessari rammaáætlun tök á að ná heildarsýn yfir þessi mál. Við auðveldum með því stefnumótun og undirbúning á náttúruverndaráætlun eins og hæstv. ráðherra benti hér á. En spurningin er auðvitað þessi: Hver verður staða þessarar rammaáætlunar, hvaða stöðu á hún að hafa? Það er auðvitað pólitísk spurning. Noregur fór þessa leið fyrir 20 árum og í kjölfar þess friðuðu þeir ár sem röðuðust þannig. En nú er umræðan um að ýmsar áætlanir um framkvæmdir fari í umhverfismat og í ljósi þess ætti þá ekki þessi rammaáætlun að fara í umhverfismat? Væri það ekki eðlilegt? Hér erum við bara með 1. hluta áætlunarinnar og vinnunni er alls ekki lokið eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir benti á. En aðferðafræðin er fyrir hendi og ætti ekki að nota sams konar aðferðafræði, þ.e. að fá tölulegar niðurstöður við t.d. að meta umhverfisáhrif? Þetta er mjög athyglisverð aðferð og ástæða til þess að kanna hvort við getum ekki notað þessa sömu aðferð til þess að meta umhverfisáhrif.

Herra forseti. Tími minn er senn á þrotum, en ég vil ljúka máli mínu á því að þakka þessum stóra hópi sem vann þetta góða verk kærlega fyrir þeirra störf og ítreka það að hér erum við komin með mjög mikilvægt tæki. En pólitíska spurningin er: Hvaða stöðu á þessi rammaáætlun að hafa?