Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 10:41:34 (3253)

2003-12-12 10:41:34# 130. lþ. 49.11 fundur 454. mál: #A rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma# skýrsl, KolH
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[10:41]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér fara fram og þá skýrslu sem hér hefur verið lögð fram um niðurstöður 1. áfanga rammaáætlunar og sú skýrsla hefur nú verið gefin út í þingskjali og er það vel. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum ævinlega hvatt til þess að fagmannlega sé staðið að vinnu við rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og ég fagna þeirri niðurstöðu sem hér liggur fyrir. Hún er afar vönduð og ég held að sú vinna sem unnin hefur verið við að finna upp þessa aðferðafræði sé ómetanleg. Og ég fagna því að hæstv. iðnrh. skuli hafa tekið hvatningu okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem fólst í því að óska eftir utandagskrárumræðu um málið um leið og við sáum að skýrslan var komin, þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa tekið þessari hvatningu og að hún skuli hafa lagt þetta fram í þinginu með þeim hætti sem hún hefur nú gert og fylgt þessu máli úr hlaði.

Vikið hefur verið að því að hér sé í raun og veru um að ræða ákveðið áframhald í vinnu stjórnvalda sem hefur leitt af stóru umhverfisverndarráðstefnunni sem haldin var í Ríó 1992 og það er alveg rétt, þetta er þáttur sem við getum ekki slitið frá því ferli, grundvallaratriði í því að búa til stefnumótun um sjálfbæra þróun í samfélagi okkar.

Það er kannski ekki allt gott sem hér er á ferðinni, því hvorki í ræðu hæstv. ráðherra né í þingskjalinu sem fylgir skýrslunni, þskj. 648, eru gefin fyrirheit um eiginlegan status þessarar vinnu, þ.e. formlega stöðu rammaáætlunar ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Það er ekki ljóst hvort niðurstöðurnar eru hugsaðar sem bindandi viðmiðanir fyrir stjórnvöld eða orkufyrirtæki, það virðist miklu frekar standa einhvers konar vilji til þess að rammaáætlunin verði leiðbeinandi plagg sem hafa megi til hliðsjónar þegar stjórnvöldum passar. Þessi afstaða er að mínu mati nokkur vonbrigði. Hér er búið að leggja gífurlega vinnu í að finna aðferðir til að meta virkjanakosti. Fjórir faghópar hafa lagt mikið af mörkum og án þess að rýrð sé kastað á nokkurn held ég að faghópur I sem mat náttúruverðmætin hafi unnið þarna þrekvirki og ég hef, eins og ég sagði áðan, lýst ánægju með það að hér hafi verið faglega unnið í alla staði.

En nú virðist stefna í það sem ég óttaðist að þær niðurstöður sem hér liggja fyrir eigi ekki að vera bindandi á nokkurn hátt fyrir stjórnvöld. Það er sannarlega ekki í samræmi við fyrirmyndina að þessari rammaáætlun en við höfum sótt fyrirmyndina til Noregs því þegar Norðmenn lögðu í þessa vinnu sína, að búa til rammaáætlun fyrir sig, þá fóru þeir aðra leið en hér virðist eiga að fara. Norðmenn gáfu sinni skýrslu og sínum niðurstöðum mikið vægi.

[10:45]

Niðurstöðurnar fengu afar vandaða og mikla umfjöllun í norska Stórþinginu. Þar var fjallað um niðurstöðurnar á afar vandaðan hátt og á endanum voru þær endanlega gerðar lagalega bindandi fyrir norsk stjórnvöld. Þar var niðurstöðunum skipt upp í fjóra flokka. Í fyrsta lagi flokk virkjanakosta sem mátti bjóða í sem talið var að væri ásættanlegt út frá öllum sjónarmiðum. Í öðru lagi flokkur sem var settur til hliðar vegna þess að ónóg gögn voru til staðar til að taka um það ákvarðanir. Í þriðja lagi kostur sem mögulega mætti virkja í fjarlægri framtíð en væri alls ekki til reiðu fyrr en gengið væri verulega á það sem var í flokki eitt. Loks var fjórði flokkurinn friðlýsingar.

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað sjá slíkt hér. Ég hefði viljað sjá það að við hefðum getað fylgt Norðmönnum alla leið. Því ef við gerum það ekki, þá sé ég ekki annað en ákveðin hætta sé á því að þessi rándýra, mikla, vandaða og mikilvæga vinna sé unnin fyrir gýg. Ég lýsi t.d. vonbrigðum mínum með að þegar hæstv. umhvrh. leggur fram náttúruverndaráætlunina sem kynnt var á umhverfisþingi nýverið, þá er okkur tilkynnt að lagt sé til að friðlýsa 14 svæði í nánustu framtíð samkvæmt þessari áætlun. Það vekur óneitanlega athygli að ekkert þeirra 14 svæða snertir á nokkurn hátt hagsmuni orkufyrirtækja. Ég spyr og tel að stjórnvöld þurfi að svara okkur því: Er ætlunin að rammaáætlun ríkisstjórnarinnar verði einungis höfð til hliðsjónar þegar það passar stjórnvöldum? Og ef það passar ekki stóriðjusinnuðum stjórnvöldum eins og nú ráða ríkjum á Íslandi, þá verður þetta plagg bara upp á punt. Ég bið, virðulegi forseti, um að svo verði ekki.

Eitt af því sem vekur sérstaka athygli þegar skýrslan er skoðuð er hversu fátæklegir kostir eru eftir til að virkja í vatnsaflinu. Ég nefndi stóriðjustefnu stjórnvalda rétt áðan og sannleikurinn er sá að stóriðjustefnan hefur orðið til þess að einungis tvö umtalsverð vatnsföll eru eftir á listanum yfir óvirkjaðar ár, þ.e. Jökulsá á Fjöllum og Hvítá í Árnessýslu. Ég spyr: Ætla menn að virkja þær? Ég sé ekki betur en hérna sé um að ræða talsvert minna magn, minna orkumagn í vatnsafli, en menn hafa talið hingað til. Við skulum fara aðeins yfir þetta. Við erum búin að virkja 7.000 gwst. í lok árs 2002. Við erum með á bls. 41 í skýrslunni samanburðarvirkjanir svokallaðar sem eru þær virkjanir sem nú eru í pípunum. Þær eru með orkugetu upp á 6.140 gwst. á ári og síðan erum við með metið í 1. áfanga á sömu blaðsíðu í skýrslunni, bls. 41, virkjanir upp á 10.474 gwst. á ári. Þetta gera samtals 23.614 gwst. Síðan er gert ráð fyrir að skoðað verði í 2. áfangaramma áætlunarinnar sem getið er um á bls. 73 í skýrslunni virkjanir upp á 7.000 gwst. og þá erum við að tala um í heildina 30.000 gwst. í virkjanlegu vatnsafli á Íslandi. Og má ég þá benda á að í þeim pakka er Jökulsá á Fjöllum með 4.000 gwst., Hvítá í Árnessýslu með 2.000 gwst., þannig að ef við drögum þær 6.000 gwst. frá þessum 30.000, þá eigum við bara eftir 24.000. Ef maður tekur síðan frá þessum 24.000 gwst. Jökulsá á Fjöllum og Hvítá í Árnessýslu, þá eru kannski í heildina eftir til ráðstöfunar mögulega 11.000 gwst. Þetta er miklu, miklu lægri tala en talað hefur verið um hingað til að væri eftir óráðstafað í vatnsafli. Við höfum hingað til talað um 20.000--30.000 gwst.

Ég sé ekki annað en þegar rýnt er í skýrsluna að það sé mikið ofmat bæði hjá hæstv. iðnrh. og hv. þm. formanni umhvn. sem hér talaði áðan, að umtalsvert magn sé eftir af óráðstöfuðu vatnsafli. Það er ekki svo. Eða hvaða ár eru þetta sem um er að ræða t.d. í 2. áfanganum ef á að skoða hann sérstaklega? Þá er verið að skrapa saman ám sem geta gefið okkur afl upp á um 60 gwst. á ári, 100, 270 er algengt. Þetta eru smáár og á þessum lista eru helstu laxveiðiár Íslands. Hérna er t.d. Selá í Vopnafirði. Hér er líka Eystri-Rangá, Vatnsdalsá í Forsæludal og Hvítá í Árnessýslu, bæði efri og neðri hluti. Ég spyr því, virðulegi forseti, hversu raunhæft er þetta afl sem hér er ævinlega talað um að við eigum eftir óvirkjað í vatnsaflinu? Og svo gengur hæstv. iðnrh. hér um og stærir sig af vetnisáætlun ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. Hjálmar Árnason gerir það bæði hér á landi og í útlöndum, talar um að fara að flytja út orku með jarðstreng. Hvar ætla menn að fá orkuna í þann útflutning? Hvað er það sem menn eru búnir að ráðstafa í stækkun álvers í Straumsvík, stækkun álvers á Grundartanga, stækkun járnblendiverksmiðju á Grundartanga? Nei, virðulegur forseti, hér er ekki allt sem sýnist.

Ég sé að tíma mínum er lokið en átti mjög margt eftir ósagt. Orkulindir okkar eru sannarlega ekki óþrjótandi, en það er samt þörf á að þakka þá vinnu sem framkvæmd hefur verið og hvetja hæstv. stjórnvöld til að taka það alvarlega sem hér stendur.