Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 10:51:57 (3254)

2003-12-12 10:51:57# 130. lþ. 49.11 fundur 454. mál: #A rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma# skýrsl, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[10:51]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hefur verið einstaklega jákvæð. Það er mér mjög mikils virði að hv. þingmenn hafa tekið þessari skýrslu vel og þeirri vinnu sem lögð hefur verið fram af vísindamönnum okkar. Það segir okkur að við eigum mikilhæfa vísindamenn og ég er einstaklega þakklát því fólki sem hefur lagt á sig mikla vinnu til að niðurstaða hafi náðst og þá alveg sérstaklega vil ég nefna formann verkefnisstjórnar, Sveinbjörn Björnsson, fyrrverandi háskólarektor, sem hefur haldið utan um þetta starf. Þessi vinna er í raun einstök á heimsvísu og hún gefur okkur svo miklar upplýsingar sem nýtast á margan hátt eins og ég nefndi í ræðu minni áðan. Það að við getum farið út í svona vinnu frekar en aðrar þjóðir er vegna þess að við eigum svo margt og mikið óvirkjað. Norðmenn fóru í svipaða vinnu miklu síðar miðað við hvað þeir voru búnir að virkja. Þess vegna er það ekki alveg sambærilegt sem við höfum verið að gera og það sem gert var í Noregi.

En það er rétt sem fram hefur komið að sú vinna var mikið til umfjöllunar í þinginu og endaði með því að ákveðnir kostir voru í raun afskrifaðir sem virkjanakostir. En ég vil hins vegar taka undir með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur sem sagði að við ættum að láta framtíðinni eftir að meta kosti D--E og ég tel ekki að við sem sitjum á Alþingi núna eigum í rauninni að taka ákvörðun til allrar framtíðar hvað þessi mál varðar. Umhverfismál fá meiri athygli og lögð er meiri áhersla á þann málaflokk nú en áður og þannig mun það eflaust þróast áfram. En hins vegar verðum við Íslendingar alltaf að hafa það í huga að þetta er ein af okkar auðlindum sem hefur gert það að verkum að við erum sú þjóð sem er á meðal ríkustu þjóða heims og velmegun er hér mikil. Það er ein af ástæðum þess að okkur hefur tekist að byggja upp þjóðfélag okkar eins og raun ber vitni, okkur hefur lánast að nýta orkuauðlindir okkar.

Hvað er eftir óvirkjað? spurði hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og henni finnst það vera miklu minna en kannski mörgum öðrum. Þarna verður áfram ágreiningur. En hins vegar er sú skýrsla sem liggur fyrir grundvöllur að meiri sátt í sambandi við þennan viðkvæma málaflokk að mínu mati og ég held að við getum öll verið sammála um það vegna þess að þarna liggja fyrir gríðarlega miklar upplýsingar.

Hv. þm. nefndi vetnið og þá miklu möguleika sem við sjáum fyrir okkur í sambandi við vetnisvæðingu og nú er Ísland orðið á meðal þjóða sem eru að vinna að framtíðarmarkmiðum í þeim efnum og það er mikils virði. Þó að við séum að reisa núna Kárahnjúkavirkjun vegna ákveðinnar starfsemi er enginn kominn til með að segja það og fullyrða að við munum halda áfram að framleiða ál um alla framtíð. Það er ekki víst. Það má alveg hugsa sér að breytingar geti orðið þegar við horfum til áratuga í þá átt að ál verði ekki lengur framleitt á Íslandi, heldur verði sú orka sem fæst með Kárahnjúkavirkjun og mörgum öðrum virkjunum nýtt á allt annan hátt. Samningar sem gerðir eru við þau fyrirtæki sem framleiða ál eru tímabundnir og útiloka það svo sannarlega ekki að sú orka verði nýtt á annan hátt til framtíðar. Ég vil að það komi fram.

Þetta er tímamótaplagg sem hér liggur fyrir og gefur okkur gríðarlegar upplýsingar til að vinna úr til framtíðar og ég fór yfir það í ræðu minni áðan á hvern hátt það gæti verið m.a. og það skiptir ekki litlu máli.

Einnig var lögð áhersla á að vinna yrði hafin við næsta áfanga og það verður gert. Einnig á eftir að afla frekari upplýsinga í sambandi við þær virkjanir sem eru til meðferðar í þessari skýrslu eins og fram kemur, því það er gerður fyrirvari um ýmsar niðurstöður vegna þess að viðbótarupplýsingar þurfi til þess að kveða þar upp einhvern lokadóm. En ég þakka umræðuna.