Tollalög

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 11:06:19 (3256)

2003-12-12 11:06:19# 130. lþ. 49.22 fundur 460. mál: #A tollalög# (landbúnaðarhráefni) frv. 134/2003, Frsm. DrH
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[11:06]

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum, frá landbn.

1. gr. verði þannig, með leyfi forseta:

,,Við 1. mgr. 6. gr. laganna bætist nýr töluliður er verður 3. tölul., svohljóðandi, og breytist röð annarra töluliða samkvæmt því:

Af landbúnaðarvörum sem bera magntoll (A1-tollur) samkvæmt viðauka I við lög þessi og sendar eru tímabundið hingað til lands til aðvinnslu samkvæmt nánari skilyrðum þessa töluliðar. Vörurnar skulu endursendar úr landi að lokinni aðvinnslu eigi síðar en sex mánuðum eftir komudag flutningsfars til landsins.

Landbúnaðarráðherra getur veitt lögaðilum, sem stunda umfangsmikla fullvinnslu í atvinnuskyni á innfluttum landbúnaðarvörum til endurútflutnings, heimild til tímabundins innflutnings landbúnaðarvara samkvæmt þessum tölulið.

Verði vara ekki flutt úr landi innan tímafrests skv. 1. mgr. þessa töluliðar skal innflytjandi greiða toll af vörunni eins og mælt er fyrir um í viðauka I með lögum þessum.

Leyfishafi skal greiða kostnað við tolleftirlit með vörum sem fluttar eru tímabundið til landsins samkvæmt þessum tölulið.

Landbúnaðarráðherra skal afturkalla leyfi skv. 2. mgr. þessa töluliðar fari leyfishafi ekki að fyrirmælum um framkvæmdina.

Landbúnaðarráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um skilyrði tímabundins innflutnings til aðvinnslu samkvæmt þessum tölulið, m.a. um það hverjir geti sótt um undanþágu, aðgreiningu innflutts hráefnis til vinnslu fullunninna vara fyrir innanlandsmarkað og til útflutnings, nýtingarhlutfall hráefnis við vinnslu, lágmarkskröfur um bókhald leyfishafa og upplýsingagjöf leyfishafa til landbúnaðarráðherra og tollyfirvalda. Hann getur gert það að skilyrði lækkunar eða niðurfellingar að lögð sé fram fullnægjandi trygging fyrir greiðslu aðflutningsgjalda.``

2. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur komið upp sú krafa að erlent landbúnaðarhráefni sem ber magntoll, A1-toll, verði flutt til landsins til aðvinnslu eingöngu og að lokinni aðvinnslu verði varan, sem unnin hefur verið úr hráefninu, flutt úr landi. Tilgangur slíkrar starfsemi er að flytja inn hráefni til fullvinnslu og skapa þannig verðmætaaukningu með því að auka gæði vörunnar og viðskiptavirði. Starfsemi af þessu tagi mun ekki raska því kerfi sem starfrækt er á grundvelli laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum þar sem innflutningur fyrir innanlandsmarkað mun áfram verða háður gildandi reglum sem eiga að tryggja að jafnræði ríki í samkeppni milli innlendrar og innfluttrar framleiðslu. Þá er innflutningur landbúnaðarafurða samkvæmt frumvarpinu háður almennum reglum sem gilda á hverjum tíma um innflutning landbúnaðarafurða, svo sem reglum um varnir gegn dýrasjúkdómum og varnir gegn því að sýktar afurðir berist til landsins.

Við gerð frumvarpsins var höfð hliðsjón af ákvæðum í norskum tollskrárlögum um sama efni, sbr. c-lið 10. tölul. 14. gr. í almennum kafla tollskrárlaganna, nr. 2107 frá 1985 og reglugerð nr. 27 frá 1999.

Herra forseti. Með frumvarpinu er lagt til að tímabundinn innflutningur á hráefni og efnivörum sem flokkast sem landbúnaðarvörur og bera magntoll, A1-toll, til aðvinnslu verði heimilaður. Heimildin er bundin því skilyrði að hinar innfluttu landbúnaðarvörur verði fluttar úr landi að aðvinnslu lokinni. Í greininni er áskilið að endurútflutningur afurða, sem unnar hafa verið úr innfluttu hráefni samkvæmt þessari grein, skuli eiga sér stað innan sex mánaða frá komudegi flutningsfars til landsins. Gert er ráð fyrir að landbúnaðarráðherra veiti tilteknum lögaðilum leyfi til tímabundins innflutnings samkvæmt ákvæðinu, þ.e. þeim sem stunda í atvinnuskyni umfangmikla fullvinnslu á innfluttum landbúnaðarafurðum til endurútflutnings. Með þessu skilyrði er leitast við að tryggja að þeir sem njóti undanþágu samkvæmt ákvæðinu stundi stöðuga starfsemi og reglulegan útflutning. Leyfi samkvæmt ákvæðinu skal ekki veitt til tímabundins innflutnings stakra sendinga eða vegna tímabundinnar starfsemi.

Verði vara ekki flutt úr landi innan sex mánaða frá komudegi flutningsfars skal tollur greiddur af vörunni eins og mælt er fyrir um í viðauka I með tollalögum með sama hætti og að um innflutning eftir almennum reglum hafi verið að ræða. Málið snýst um að flytja vöruna inn og flytja hana aftur út innan tiltekins tímafrests sem er sex mánuðir. Eftir það taka við almennar reglur varðandi innflutning, þ.e. fullur tollur samkvæmt tollskrá.

Lagt er til að landbúnaðarráðherra verði veitt heimild til þess að afturkalla leyfi samkvæmt þessari grein fari leyfishafi ekki að fyrirmælum um framkvæmd leyfisins. Í greininni er veitt undanþága frá meginreglum um greiðslu tolls af innfluttum vörum og þess vegna ber að skýra skilyrði hennar þröngt.

Það er mælt fyrir um að landbúnaðarráðherra skuli með reglugerð kveða nánar á um skilyrði tímabundins innflutnings landbúnaðarhráefna til aðvinnslu og endurútflutnings. Skilyrðin lúta m.a. að aðgreiningu innflutts hráefnis fyrir innanlandsmarkað og hráefnis til útflutnings og lágmarkskröfum til bókhalds leyfishafa, m.a. með bókhaldslega aðgreiningu í huga, og upplýsingagjöf hans til landbúnaðarráðuneytis og tollyfirvalda. Þessi skilyrði miða að því að unnt verði að staðreyna það magn landbúnaðarhráefna sem flutt er inn tímabundið til aðvinnslu og það magn sem flutt er úr landi aftur. Það er einungis útflutt magn sem nýtur undanþágu að teknu tilliti til eðlilegs úrgangs sem fellur til við framleiðsluna. Þá skal landbúnaðarráðherra setja fram viðmiðunarreglur varðandi eðlilegt magn úrgangs miðað við hlutaðeigandi aðvinnslu. Í reglugerðinni skal einnig kveðið á um önnur framkvæmdaratriði við inn- og útflutning, svo sem viðeigandi skýrslugjöf til tollyfirvalda vegna inn- og útfluttra sendinga. Jafnframt er landbúnaðarráðherra veitt heimild til þess að setja það skilyrði fyrir lækkun eða niðurfellingu aðflutningsgjalda að lögð sé fram fullnægjandi trygging fyrir greiðslu þeirra. Þá er það gert að skilyrði leyfisveitingar að leyfishafi greiði kostnað af nauðsynlegu tolleftirliti vegna starfsemi hans.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr.