Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 11:54:16 (3265)

2003-12-12 11:54:16# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[11:54]

Kristján L. Möller (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum hér frv. til laga um stjórn fiskveiða og það línuívilnunarfrumvarp sem hér hefur verið á dagskrá. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, formaður sjútvn., hefur gert grein fyrir nál. meiri hluta nefndarinnar. Ég á eftir að ræða þetta mál í ræðu minni á eftir, en hér í stuttu andsvari langar mig til að spyrja hv. þm. út í nál. meiri hlutans, vegna þess að í því segir á einum stað, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt frumvarpinu takmarkast ívilnunin við dagróðrabáta sem beita línu í landi og er þeim heimilt að landa 16% umfram þann afla í þorski, ýsu og steinbít sem reiknast til aflamarks þeirra.``

Þarna les maður út úr þessu að 16% séu ekki eingöngu í þorski heldur líka ýsu og steinbít. Annars staðar segir hins vegar í nefndarálitinu:

,,Ekki eru hins vegar sett takmörk á afla í ýsu og steinbít en þó mælt fyrir um heimild ráðherra`` o.s.frv.

Hvort atriðið er það í nál. meiri hlutans sem fara á eftir gagnvart lögskýringum seinni tíma?