Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 12:00:27 (3270)

2003-12-12 12:00:27# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[12:00]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú ekkert viss um það að lengra verði ekki gengið einhvern tímann síðar. Við skulum ekki útiloka það að menn haldi áfram að skoða hluti af þessu tagi. En í þessari lotu er þetta ágætur áfangi. Ég lýsti því strax og frv. kom fram að ég teldi það ásættanlegt hvað þann þátt frv. varðar sem lýtur að línuívilnun. Það er ekki svo mjög frábrugðið þeim tillögum sem ég hafði lagt fram í sjútvn. Fyrst og fremst eru það lægri prósentur, 16% í stað 20 sem er megintillagan í því.

Herra forseti. Ég vil segja að það er verulegur ávinningur af því að fá þetta fram. Það er ávinningur fyrir þann hóp útgerðarmanna og þá staði sem menn voru að hugsa um þegar þeir voru að berjast fyrir þessu máli í upphafi. Það á sér langan aðdraganda. Sveitarfélög á Vestfjörðum tóku þetta mál upp á sína arma og gerðu samþykkt um það í mars árið 2002. Þeirra samþykkt var að ívilnun yrði 20% á allar tegundir. Það verður að segjast eins og er að munurinn á þeirri tillögu og niðurstöðunni í frv. er ekkert ýkja mikill. Það er ekki slíkur munur að ástæða sé til að standa ekki að málinu.

Í öðru lagi hafa samtök smábátasjómanna barist fyrir þessu máli með 20% ívilnun á þorsk og 50% á aðrar tegundir. Þetta eru þau sjónarmið sem menn hafa haft í þessu máli og flokkarnir tóku upp sem standa að ríkisstjórninni. Ég vil því segja hvað þetta mál varðar að þetta er ásættanleg niðurstaða og það sagði ég strax.