Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 12:04:21 (3272)

2003-12-12 12:04:21# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[12:04]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Enginn getur sagt með vissu hvar þessi aukning lendir nákvæmlega eftir stöðum. Menn geta stuðst við fortíðina og reynt að gera sér grein fyrir því hvernig aflinn hefur dreifst samkvæmt sóknarmunstrinu sem þá var og spáð síðan um hvað líklegt er að verði. Miðað við fortíðina er ljóst að tillagan hefur aldrei verið bundin við staði. Hún hefur verið bundin við veiðarfæri og það er eina afmörkunin sem menn hafa haft í málinu að afmarka ívilnunina við veiðarfæri, ekki við staði og ekki við stærð báta og ekki við veiðislóðir. Menn vita hins vegar hvar línuveiði er öflug á landinu og geta því áætlað að líklegra sé að ávinningurinn lendi þar en annars staðar.

Það landsvæði sem líklega mun njóta mest góðs af þessari breytingu eru Suðurnes. Það getur hv. þm. kynnt sér. (Gripið fram í.)

Í öðru lagi er líklegt að Vestfirðir njóti mjög góðs af þessu.

Í þriðja lagi eru það Snæfellsnes og Eyjafjörður. Þessi fjögur svæði standa upp úr þegar maður skoðar dreifingu á línuafla hjá þeim sem ekki hafa róið með beitningavélar.

Mér finnst líklegt að þessi ávinningur lendi á þessum stöðum. En auðvitað geta menn breytt sínu útgerðarmunstri. Menn sem hafa til þessa gert út á önnur veiðarfæri geta ákveðið að fara að róa á línu vegna þessarar breytingar. Við getum engu spáð um hvernig sú þróun verður.