Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 12:14:58 (3277)

2003-12-12 12:14:58# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. minni hluta JÁ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[12:14]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Sjútvn. hefur lokið umfjöllun sinni um hið svokallaða línuívilnunarmál og afraksturinn af þeirri vinnu er hér lagður fram. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur farið yfir nál. meiri hlutans en ég fer yfir nál. minni hlutans í málinu.

Nefndin leitaði upplýsinga eftir föngum um áhrif þeirra breytinga sem felast í frumvarpinu á þeim stutta tíma sem gafst til umfjöllunar um málið. Rætt var við fulltrúa sjávarútvegsráðuneytisins og Hafrannsóknastofnunar. Nefndinni gafst ekki sá tími sem hefði þurft til að hafa samráð við hagsmunaaðila. Við umfjöllun í nefndinni kom þó mjög skýrt í ljós að málið er afar illa undirbúið af hendi sjávarútvegsráðuneytisins.

Þegar fulltrúar helstu hagsmunaaðila komu á fund nefndarinnar var þeim gert að tala fyrir máli sínu að viðstöddum öðrum hagsmunaaðilum sem hafa mjög andstæðar skoðanir á málinu. Þetta er nýjung í starfi sjávarútvegsnefndar sem féll í fremur grýttan jarðveg hjá fulltrúum Landssambands íslenskra útvegsmanna, Sjómannasambandsins, Farmanna- og fiskimannasambandsins og Vélstjórafélagsins sem allir gengu af fundinum í mótmælaskyni og mótmæltu því að vera settir í þá aðstöðu að þurfa að ræða þessi mál í stórum hópi, vildu fá að ræða beint við nefndina. Hv. formaður nefndarinnar vildi ekki fallast á að gert yrði fundarhlé til að reyna að lægja þær öldur sem þarna risu strax. Nefndin ræddi síðan við þá sem eftir sátu sem voru fulltrúar Landssambands smábátaeigenda og dagabáta. Þá komu á fund nefndarinnar fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Sambandi fiskvinnslustöðva og Landssambandi fiskvinnslu án útgerðar.

Allir hagsmunaaðilar sem nefndin ræddi við og fékk umsagnir frá lögðust gegn því að málið yrði afgreitt, að frátöldum fulltrúa ASÍ sem tók ekki afstöðu til þess en sagði skoðanir skiptar hjá sínu fólki.

Við umfjöllun nefndarinnar um einstakar greinar frumvarpsins kom í ljós að meiri hlutinn hugðist taka málið óbreytt út úr nefndinni að undanskilinni einni orðalagsbreytingu auk þeirrar breytingar að gera jafnsetta ráðstöfun 9. gr. vegna aflabrests og atvinnuvanda í byggðarlögum vegna skorts á veiðiheimildum.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór yfir sinn skilning á því hvað þarna hefði verið gert í ræðu sinni áðan. Ég held að full ástæða sé til að óska eftir því að hæstv. sjútvrh., sem ég vona að heyri mál mitt, fari yfir það á eftir hvort hann hafi nákvæmlega sama skilning á því hvernig fara eigi með aflaheimildir 1. gr. eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði grein fyrir í ræðu sinni.

Það er skoðun minni hlutans að málið sé allt vanreifað og stórgallað. Hleypa á af stað kapphlaupi vegna línuívilnunar í þorski fjórum sinnum á ári. Ráðherra á svo að ákveða hvort ástæða þykir til að hafa sama hátt á vegna annarra tegunda í ívilnuninni. Það er sem sagt allt saman óljóst, allt í óvissu um það hvernig verði farið með aðrar tegundir og menn gætu svo sem staðið frammi fyrir því að það yrði einhvers konar boðhlaup eða kapphlaup um þær tegundir með sama hætti og þorskinn. Þetta er allt sett í hendur ráðherra, eins og reyndar allt sem í frv. er, að þar er verið að setja alla hluti í hendur hæstv. sjútvrh.

Byggðakvóti yrði lagður af á tveim árum samkvæmt frumvarpinu. Í stað hans yrði öllum aðgerðum vegna vanda sjávarbyggða beint inn í 12.000 tonna pott skv. 9. gr. laganna um stjórn fiskveiða og öll framkvæmd sett undir yfirstjórn sjávarútvegsráðherra sem hefur reyndar lýst sig almennt andvígan byggðakvóta. Það sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann. Það er álit minni hlutans að veruleg hætta sé á því að aflaheimildir sem falla undir byggðakvóta nú glatist úr byggðarlögum sem hafa þurft sárlega á þeim að halda.

Við fengum umsögn frá forstjóra Byggðastofnunar um málið. Ég sé ástæðu til þess, með leyfi hæstv. forseta, að fara yfir hana ef ég finn hana í gögnum mínum. Ég ætla ekki að lesa hana alla, en með leyfi forseta, að vitna í hana þar sem stendur:

,,Byggðastofnun hefur haft til ráðstöfunar svokallaðan byggðakvóta frá árinu 1999. Í samræmi við heimild í lögunum um stjórn fiskveiða hefur Byggðastofnun úthlutað byggðakvóta á rekstraraðila í 11 byggðarlögum víðsvegar um landið. Þrjú þessara byggðarlaga eru á Vestfjörðum, tvö á Norðurlandi og sex á Austurlandi. Samdar voru sérstakar reglur um val á þeim byggðarlögum sem til greina komu við úthlutunina. Reglurnar voru þannig úr garði gerðar að þær tryggðu sem best að þau byggðarlög sem lent höfðu í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi fengju byggðakvóta til samræmis við vanda þeirra. Það er mat Byggðastofnunar að áhrif þess byggðakvóta sem stofnunin hefur haft til ráðstöfunar séu almennt séð jákvæð. Einkum á þetta við í þeim sveitarfélögum þar sem náðst hefur bærileg samstaða um úthlutun heimildanna. Það má þó vissulega finna dæmi þar sem ekki hefur tekist jafn vel til. Það er þó ljóst að þar sem hér er einungis um að ræða 1.500 þorskígildistonn þá vega þau ekki þungt í heildaratvinnusköpun á landsbyggðinni. Áætluð margfeldisáhrif þessarar úthlutunar eru þre- til fjórföld ef miðað er við þá samninga sem gerðir voru og reynsluna af þeim. Umboðsmaður Alþingis hefur gert nokkrar athugasemdir við aðferðir við úthlutunina en það er álit Byggðastofnunar að þær séu smávægilegar og auðvelt að laga úthlutun að þeim.``

Og svo segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Að svo miklu leyti sem úthlutun byggðakvóta er hugsuð sem byggðaaðgerð er það álit undirritaðs [þ.e. forstjóra Byggðastofnunar] að eðlilegt sé að stofnunin hafi hana með höndum. Til þess á hún að hafa öll verkfæri og upplýsingar undir höndum, auk reynslu af framkvæmdinni. Það er einnig álit undirritaðs að eftirsjá verði að þeim heimildum til úthlutunar byggðakvóta sem stofnunin hefur haft í ljósi dæma um augljós jákvæð áhrif af úthlutun hans.

Að lokum skal það enn og aftur áréttað að stofnunin hefur ekki haft ráðrúm til þess að gera faglega úttekt á þýðingu einstakra þátta frumvarpsins ...``

Ég verð að segja alveg eins og er að það er ekki gaman fyrir hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, fyrrverandi formann stjórnar Byggðastofnunar, að þurfa að bera það hér inn í hv. Alþingi að taka byggðakvótann af Byggðastofnun og fela hann í hendur þeim manni sem hæst hefur haft gegn byggðakvóta og gera hann að aðalpáfanum í því hvernig farið verður með þau mál í framtíðinni, þ.e. hæstv. sjútvrh.

Afnám byggðakvótans og skerðing, ég kalla þetta afnám byggðakvótans vegna þess að eðlisbreyting 9. gr., sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lýsti hérna áðan, er öll undir þeim formerkjum hversu mikið verði til ráðstöfunar þegar saman eru lögð þau vandamál sem steðja að byggðarlögunum vegna kvótaskorts og þess vanda sem verður vegna aflabrests og sá vandi getur orðið býsna stór. Það hafa menn séð í gegnum tíðina. Þess vegna var potturinn 12.000 tonn og ekki minna, vegna þess að menn reiknuðu með því að það þyrfti á verulegum aflaheimildum að halda. Og þó að hv. þm. sé að gera sér vonir um að einhver afgangur verði til staðar, þá veit það enginn maður í dag. Sú óvissa sem verður til með þeim breytingum sem hér er lagt í er greinilega verulega mikil.

Afnám byggðakvótans og skerðingar á aflaheimildum krókabáta sem felast í frumvarpinu virðast á ýmsum stöðum geta orðið umtalsvert meiri en hugsanleg línuívilnun miðað við veiðar á síðustu árum. Við höfum tölur sem sanna þetta. Það er t.d. um að ræða 360 tonn í krókaaflamarkspottinum til Bolungarvíkur á síðustu árum. Það eru 400 tonn til Tálknafjarðar á síðustu árum. Ef þessir staðir mundu veiða svipað á línu núna í framhaldinu eins og þeir hafa gert á síðustu árum, þá munu þeir ekki fá upp í þá skerðingu sem verður vegna bara þessa potts. Ekki er með nokkru móti hægt að átta sig á því hvernig áhrifin verða af þeim potti, því það getur enginn séð fyrr en farið verður yfir málin í heild, fyrr en fyrir liggur hvað verður mikið sem þarf að nota út af aflabresti, hvað það verður mikið sem hægt verður að nota vegna byggðavandamálanna og hvernig það dreifist. Það getur enginn svarað því núna að sú skerðing sem kemur á Bolungarvík eða Tálknafjörð verði bætt nokkurn skapaðan hlut. Hver treystir sér til að fullyrða það á grundvelli þeirra gagna sem liggja hér fyrir? Ég er alveg sannfærður um að það getur enginn.

Á meðan málið hefur ekki verið skýrt betur virðist staða byggðarlaga sem hafa haft byggðakvóta eða umtalsverðar veiðiheimildir í byggðapotti krókaaflamarksbáta í algeru uppnámi. Það er sérstök ástæða til að gagnrýna að ekki skuli liggja fyrir upplýsingar um hvaða heimildir verða til ráðstöfunar fyrir einstök byggðarlög sem hafa þurft að treysta á úrræðin sem nú á að leggja af.

Þá bendir minni hlutinn á að bátar sem nota beitningatrektir fá ekki ívilnun þótt slíkar veiðar séu í raun mjög sambærilegar við aðrar línuveiðar og mikil spurning er hvort jafnræðis sé gætt með því að sniðganga þann flokk báta fyrst línuívilnun er á annað borð komið á.

Ástæða er til að minna á að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lagði til í þeirri tillögu sem hann lagði fram í sjútvn. að þeir bátar yrðu með í þessu. Það er eitt af því sem hv. þm. hefur orðið að gefast upp við, að koma því á. Því er nú verr og miður.

Ekki er tekið á málefnum dagabáta í frumvarpinu en skerðing á veiðirétti þeirra er nú þegar mikil. Bátarnir höfðu 23 daga áður en 19 nú og stefnir hratt í að útgerð margra þeirra leggist af á næstu árum. Slíkt hefði mikil byggðaleg áhrif vegna þeirrar staðreyndar að engin nýliðun er í útgerð fiskiskipa við Ísland.

Samkvæmt frumvarpinu yrði ráðherra gefin heimild til verulegrar aukningar á svokallaðri tegundatilfærslu sem felst í því að útgerðarmenn mega breyta einni fisktegund í aðra. Þetta er afar umdeilt fyrirkomulag. Auk þess hafa úrræði til að koma með aukaafla að landi verið rýmkuð nýlega með svokölluðum hafróafla. Nýting tegundatilfærslu hefur stundum orðið til þess að ákveðin tegund hefur ekki verið fullnýtt og einnig hefur hún leitt til þess að meira hefur verið veitt af einstökum tegundum en Hafrannsóknastofnunin hefur ráðlagt. Þarna virðist sem LÍÚ-forustan hafi fengið eitthvað smávegis fyrir sinn snúð eins og venjulega þegar eitthvað er gert hér á vegum hæstv. ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum.

Ég veit ekki betur en að í nefndinni hafi verið mikil samstaða um það á sínum tíma að draga úr þessum hundakúnstum og sjónhverfingum að breyta einni fisktegund í aðra með þeim hætti sem þarna er verið að gera. Og svo eru verulegir möguleikar til staðar og sveigjanleiki í kerfinu, fyrir utan viðskiptin með aflaheimildir sem eru galopin.

Ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu línuívilnun í aðdraganda síðustu kosninga. Sjávarútvegsráðherra lýsti því margsinnis yfir í sumar að hann þyrfti drjúgan tíma til að undirbúa málið. Þrýstingur frá starfandi formanni sjávarútvegsnefndar Alþingis virðist hafa valdið því að ráðherrann kastar nú algerlega vanbúnu máli fram til umfjöllunar á Alþingi.

Minni hlutinn átelur harðlega þessi vinnubrögð við undirbúning málsins og leggst gegn samþykkt þess.

Það var í raun og veru enginn annar kostur fyrir okkur í minni hlutanum eftir að hafa farið yfir málið í nefndinni en að leggjast gegn því. Það kom enginn á fund nefndarinnar, ekki einn einasti aðili sem var ekki á móti málinu, nema aðilinn frá ASÍ sem lýsti því að skiptar skoðanir væru þar hjá þeirra fólki. Allir sem hafa sent okkur umsagnir hafa lagst gegn málinu. Og meira að segja þeir sem hafa barist fyrir línuívilnun, þ.e. Landssamband smábátaeigenda, leggjast gegn málinu í þeirri mynd sem það liggur hér fyrir. Þarf meira til þess að sanna fyrir mönnum að hér hafi ekki verið starfað nógu vel að því sem á að gera? Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst ýmislegt benda til að þessi ákvörðun um línuívilnun geti farið illa, að þeim sem á að hygla með þessu, úr því verði miklu minna en menn ætla.

Sú knappa úthlutun í þorski til línuívilnunar sem liggur fyrir að verði mun örugglega þýða að mikið kapphlaup verður um veiðar á línu undir þessum ákvæðum. Þar mun tapast mikið fjármagn í raun og veru. Það verður tap af því að hafa þá samkeppni með þeim hætti sem þarna er verið að efna til. Síðan eigum við alveg eftir að sjá hvernig hæstv. sjútvrh. muni útfæra þetta, því það er allt í hendi hans gagnvart öðrum tegundum. Hann getur tekið ákvörðun um að setja eitthvert hámark á hinar tegundirnar líka og búa þess vegna til einhverja aðra startdaga til að stoppa veiðar af þar.

Þetta er allt saman í hinu mesta skötulíki og ég óttast að við sitjum uppi með það í þeim byggðarlögum sem menn hafa verið að bjarga á undanförnum árum með þessu byggðabixi öllu saman, þessum pottum og því sem hefur verið í gangi, að fara þurfi í nýjar björgunaraðgerðir, niðurstaðan verði bara þannig. Línuívilnunin fari eitthvert allt annað. Skerðingin, það vita allir hvar hún lendir. Hún lendir hjá þeim sem eru með pottana, það vita menn þó alveg. En hvert línuívilnunin fer, það veit enginn. Og þó svo að menn hafi veitt mikið á línu sums staðar, þá getur vel verið að einhverjir aðrir blandi sér í leikinn þegar kvóti er kominn í spilið og stórir og afkastamiklir bátar geta komið þar við sögu. Og sá pottur yrði fljótur að fjúka.

Mér finnst, hæstv. forseti, að hér hafi menn ákveðið að standa við orð sín með nokkuð sérkennilegum hætti. Ég held að það hafi ekki verið þetta sem menn voru að biðja um sem börðust fyrir línuívilnun. Ég held að Hvatarkonur í Reykjavík hafi ekki áttað sig á því að þetta væri það sem þær voru að berjast fyrir þegar þær studdu tillögu á fundi Sjálfstfl. í vor eða vetur leið, þegar Guðmundur Halldórsson bar fram tillögu sína og fékk við hana stuðning. Ég held að Guðmundur, sem væri nú fróðlegt að fá umsögn hjá um þetta mál, hljóti a.m.k. að verða fyrir vonbrigðum með þennan afkomanda sinn sem lítur dagsins ljós hér á Alþingi í dag.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri, hæstv. forseti. Sú línuívilnun sem hér er til umræðu er því miður með því bragði að mjög erfitt er að átta sig á hverjum hún mun koma til góða, en það eru verulegir váboðar á lofti gagnvart þeim sem hafa þurft á aðstoð að halda á undanförnum árum.