Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 12:41:21 (3281)

2003-12-12 12:41:21# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[12:41]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það geti ekki komið hæstv. sjútvrh. á óvart þó Samf. sé á móti þeirri stefnu sem er rekin í sjávarútvegsmálum. Það höfum við verið alla tíð. Hæstv. ráðherra vísar til þess að ég sagði á einhverri stundu að ég reiknaði með því að það gæri verið að Samf. mundi styðja þingmál frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. Ég hef útskýrt það. Kristinn H. Gunnarsson var með því frv. greinilega að leita stuðnings hjá stjórnarandstöðunni við hugmyndir um einhverjar breytingar í þessa áttina. Ég reiknaði alltaf með því að við fengjum tækifæri til þess að fjalla um málið og hafa áhrif á það við umfjöllun þess ef við ættum að styðja það. Það kom aldrei til þess, því hæstv. ráðherra óttaðist það mjög og kom inn í þingið með sitt frv. eftir að hitt hafði verið lagt fram. Allir vita framhaldið. Þegar við förum að fara yfir frv. í nefndinni og hlusta á hagsmunaaðila og heyrum hvernig þetta er allt saman. Það týnast mál út úr þessu frv. Það bólar ekkert á dagabátum í þessu frv. Það bólar ekkert á því að menn sem nota beitningatrekt fái að vera með í þessari línuívilnun. Það kemur bara í ljós að byggðakvótinn er lagður niður og Framsfl. gleypir það. Hæstv. sjútvrh. er orðinn byggðakvótamálaráðherra Framsfl. og situr uppi með það. Það á eftir að koma í ljós eftir yfirlýsingar hæstv. ráðherra hversu vel hann reynist í því hlutverki. En það er sannarlega hlutverk sem maður hélt ekki að hann hefði mjög mikinn áhuga á eða ánægju af að taka að sér, miðað við yfirlýsingar hans um þau mál á undanförnum árum. En við bíðum og sjáum.