Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 12:46:54 (3284)

2003-12-12 12:46:54# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[12:46]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er einfaldlega ljóst að það var ekki vandinn hversu margir aðilar voru saman komnir, það var ekki vandinn að sex aðilar væru saman komnir, enda gengu þeir fjórir saman út. Það hefur því ekki verið fjöldinn sem setti þá út af sporinu. Þess vegna vil ég andmæla því að það hafi á einhvern hátt verið óeðlilegt að standa þannig að málum í sjútvn. að boða saman alla þá aðila sem tengdust útgerð til að gefa sitt álit á þessu máli. Fleira vil ég ekki segja um það mál.

Varðandi ummæli hv. þm. um að það væri mitt hlutskipti að leggja til að taka af Byggðastofnun þann 1.500 tonna kvóta sen hún hefur haft til úthlutunar, þá er það misskilningur. Það var lögfest í ákv. til brb. XXVI fyrir nærri tveimur árum að færa forræði þess kvóta yfir til sjútvrh. Það mun gerast í lok fiskveiðiársins 2005/2006 að óbreyttu ákvæði. Þannig að það var búið að taka þá pólitísku ákvörðun að færa forræði úthlutunarinnar til sjútvrh. á öllum þessum kvótum og það var gert með þeim rökum að hann væri ráðherra málaflokksins og eðlilegt væri að hann bæri ábyrgð á úthlutun og sæi um það, en til þess að tryggja þau sjónarmið sem þurfa að liggja að baki úthlutun til byggðarlaga, er kveðið á um það að haft verði samráð við Byggðastofnun um það mál.

Í þriðja lagi langar mig að vísa til þess sem fram kom í máli þingmannsins varðandi aflabrest. Það eru 12.000 tonn í 9. gr. sem eiga m.a. samkvæmt tillögu meiri hlutans að mæta aflabresti og vissulega getur hann stundum orðið mikill og við þekkjum það að fyrir löngu síðan var aflabrestur í loðnu sem var bættur upp með 12.000 tonnum af þorski, sem reyndar varð síðan varanlegt og var aldrei skilað aftur. En ég hygg að ef menn skoða lagaákvæðið sjái þeir að það er sniðið að minni háttar aflabresti og ef upp kemur síðar aflabrestur í uppsjávarfisktegundum eins og loðnu, þá þurfi sérstakar ráðstafanir til að bregðast við því.