Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 14:34:39 (3295)

2003-12-12 14:34:39# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JGunn
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[14:34]

Jón Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum frv. til laga um breytingar á lögum nr. 38 frá 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Þetta er í raun í annað skiptið á stuttum tíma sem lagt er fram frv. til breytinga á þeim lögum, en í gær samþykktum við einmitt breytingar á lögum um stjórn fiskveiða hvað varðaði hinn svokallaða hafróafla.

Ég er nýr á Alþingi og hef ekki vanist þeim störfum sem hér eru nema að litlu leyti enn þá, en það verður þó að segjast alveg eins og er að þegar við ræddum frv. til laga um breytingu á lögum hvað varðaði hafróaflann, þá leist mér ákaflega vel á hvernig sjútvn. starfaði. Það frv. og þau frumvörp sem við vorum að ræða þar saman fengu ákaflega vandaða málsmeðferð og við kölluðum til okkar fjölda aðila til að leita álits þeirra á því frv. sem fyrir lá og einnig sendum við frv. út til enn þá fleiri til að fá umsagnir þeirra um hvernig þeim litist á þær breytingar sem þar voru lagðar fram. Síðan ræddi nefndin þau frv. í þaula og komst að sameiginlegri niðurstöðu á nefndaráliti sem lagt var fyrir hér í gær og búið er að greiða atkvæði um núna og sú breyting verður að lögum.

Hvað það mál varðar sem við ræðum nú, svokallað línu\-ívilnunarfrumvarp, þá er allt annað mál uppi. Málið var lagt fram á Alþingi 6. desember fyrir rétt um sex dögum. 1. umr. fór fram 10. desember, ekki í gær, heldur daginn áður. Það var í fyrradag sem við byrjuðum að ræða þetta mikla mál sem fjallar um línuívilnun. Framsögumaður meiri hluta sjútvn. gerði grein fyrir nefndaráliti meiri hlutans og tók sérstaklega fram að málið hefði fengið mjög vandaða og ítarlega meðferð í nefndinni. En miðað við reynslu mína af nefndarstörfum og því að taka þátt í samstarfi hóps manna þá er ég algjörlega ósammála hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni um að málið hafi fengið vandaða umfjöllun í sjútvn.

Það hljóta allir að sjá að mál sem lagt er fyrir á þingi 6. desember, kemur til 1. umr. og er vísað til nefndar í fyrradag getur ekki undir neinum kringumstæðum hafa fengið vandaða umfjöllun í nefndinni. Enda urðum við minnihlutamenn fljótlega varir við það í sjútvn. að það stóð ekki til, hæstv. forseti, að ræða málið mikið vegna þess að eins og upplýstist í 1. umr. voru stjórnarflokkarnir búnir að semja um það sín í milli, þeir voru búnir að semja um það sem ég hef leyft mér að kalla drullumall sem þeir leggja hér fram, og því minna sem um það yrði rætt, þeim mun betra.

Við munum öll aðdraganda þessa máls. Línuívilnun er tiltölulega nýtt orð í íslensku. Það var ekki fyrr en einhvern tímann í kringum síðustu kosningar sem þetta orð kom upp og var mikið notað, línuívilnun. Maður heyrði þetta klingja síðustu dagana fyrir kosningar sí og æ og ég verð að viðurkenna að í fyrsta skipti sem ég heyrði þetta orð þá áttaði ég mig ekki almennilega á hvað það þýddi. En fljótlega gerði ég mér þó grein fyrir því vegna þess að þeir sem voru að bjóða sig fram í nafni Sjálfstfl. og Framsfl. gengu mjög digurbarkalega fram, sérstaklega í Norðvest., og lýstu því fjálglega hvað þetta orð þýddi, hvað línuívilnun þýddi. Hún þýddi það að þeir bátar sem væru með línu, reru á línu --- það talaði enginn um þá sem beittu í landi eða beitningatrektir eða eitthvað slíkt, heldur bara báta sem væru með línu, gerðu út á línu, að kvóti þeirra ætti að verða drýgri en kvóti annarra báta. Út á það gekk málið. Fljótlega fengum við skýringu á því að þorskur ætti ekki að vera alveg eins drjúgur og aðrar tegundir. Í raun ætti fimmti hver þorskur sem kæmi á línuna ekki að teljast til kvóta en í ýsu og steinbít var allt annað uppi. Þar var boðið til veislu, þar átti bara annar hver fiskur sem á línuna kæmi að teljast til kvóta, að því gefnu, svo við höldum öllu til haga og förum rétt með, að þeir væru jafnþungir og jafnstórir sem á krókana kæmu.

Síðan var kosið. Við munum öll þá miklu umræðu sem varð eftir kosningar um hvort ætti að standa nokkuð við þetta kosningaloforð frekar en önnur kosningaloforð stjórnarflokkanna. Efnt var til stórra og mikilla funda og aftur var það í Norðvest., og verður nú einhver hissa, að efnt var til stórs fundar á Ísafirði undir fororðinu ,,orð skulu standa`` og þar var gengið eftir því hvort eitthvað væri að marka þetta loforð stjórnarflokkanna fyrir kosningar. Eftir því sem maður heyrði í fréttum, af því ég komst nú ekki á þann fund sjálfur, var niðurstaða þess fundar að standa ætti við þetta.

Síðan þekkjum við öll sem erum hér í salnum þann hráskinnaleik sem hófst. Menn fóru að velta því fyrir sér hvort strax í haust þýddi þetta haust eða næsta haust og menn fóru að velta því fyrir sér hvort nokkur ástæða væri til að standa við þetta loforð nú á þessu ári eins og stjórnarflokkarnir höfðu þó lofað fyrir kosningar. Hæstv. sjútvrh. sagði það í mörgum viðtölum og var vitnað til þess ítrekað í 2. umr. að hann sagðist ekki ætla að leggja fram frv. á þessu þingi heldur yrði frv. lagt fram síðar og þessi ívilnun, sem hann reyndar hafði áður sjálfur lýst sig andvígan, tæki gildi 1. september á næsta ári. Það væri eiginlega ekki hægt að standa í því að vera breyta svona reglum á miðju fiskveiðiári.

Ekki voru allir stjórnarliðar mjög ánægðir með þær yfirlýsingar hæstv. sjútvrh. Og fljótlega kom upp orðrómur um að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson úr Norðvest. ætlaði sér að koma fram með eigið frv. um þetta ef hæstv. sjútvrh. hlýddi ekki og kæmi með frv. eins og hann hefði lofað. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson var það heppinn eða lánssamur að ráðherra lagði fram frv. um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, frumvarpið sem ég minntist áðan á í upphafi máls míns um hafróafla. Þar með var búið að opna leið fyrir hv. þm. til að viðra hugmyndir sínar um línuívilnun án þess þó að þurfa að leggja fram sérstakt frv. um það.

Í sjútvn. komu tillögur. Tillögur komu til breytinga á frv. sem lagt var fram um hafróafla. Þær brtt. snerust ekkert um hafróaflann. Þær snerust ekkert um verkefnasjóð sjávarútvegsins. Nei, tillögurnar sem komu frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni snerust um þrennt. Þær snerust um svokallaða línuívilnun, þær snerust um dagabátana og þær snerust um með hvaða hætti skyldi vigta óslægðan afla af dagabátum.

Ég held að rétt sé til að halda til haga hvað menn voru að ræða (KHG: Af öllum bátum.) --- af öllum bátum í sjútvn. þegar tillögurnar komu fram. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa fyrstu tillögu sem við nefndarmenn í sjútvn. sáum um línuívilnun. Þetta var lagt fram skriflega af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og hann vildi breyta 10. gr. í fiskveiðistjórnarlögunum. Hann vildi að á eftir 5. mgr. kæmu tvær nýjar mgr. sem orðuðust svo, með leyfi forseta:

,,Afli dagróðrabáta, sem veiða með fiskilínu, telst aðeins að hluta til aflamarks, enda er línan beitt eða stokkuð í landi.``

20% línuívilnun lagði hv. þm. til. Og einnig lagði hv. þm. til að allir bátar sem beittu línu í landi eða stokkuðu línu í landi og væru með trekt á sínu fiskiríi, fengju þessa ívilnun. Hann vildi líka bæta við, með leyfi forseta:

,,Þorskur telst að 80% til aflamarks eða krókaaflamarks en aðrar fisktegundir að hálfu.``

Þarna kemur kosningaloforðið sem við vorum að tala um áðan. 20% línuívilnun í þorski en allar aðrar tegundir sem á línuna kæmu 50% ívilnun.

[14:45]

Síðan heldur tillagan áfram: ,,Ráðherra er heimilt að hækka hlutfallið í einstakri tegund, ef nauðsynlegt er talið með ákvörðun skv. 3. gr. að lækka heildarafla í viðkomandi tegund eða að draga úr heildarveiði á línu, en þó verði hlutfallið aldrei hærra en 80%.``

Ég hef þurft að lesa þessa setningu nokkrum sinnum til að skilja hana, en í stuttu máli snýst hún um það að ef hæstv. sjútvrh. litist þannig á að 50% línuívilnun væri of mikil í hinum tegundunum, þá gæti hann lyft þessu hlutfalli upp í 80% eins og í þorskinum, að það væri ekki nema 20% ívilnun. Þarna var hv. þm. að efna kosningaloforð. Þarna var hv. þm. að leggja fram tillögu um línuívilnun akkúrat eins og hún var rædd í kosningabaráttunni og akkúrat eins og hún var skýrð eftir kosningar af þeim sem höfðu farið fram með það loforð.

En það var fleira sem hafði verið lofað í kosningabaráttunni. Svokölluðum dagabátum hafði verið lofað að það kæmi gólf í lágmarksfjölda daga. Þeir þyrftu ekki að una við það ástand sem þeir væru í nú. Þannig að þingmaðurinn leggur fram tillögu um breytingu við 6. gr. sem ég les, með leyfi forseta:

,,a. í stað 1.--5. málsliða 2. mgr. komi: Leyfilegir sóknardagar skulu vera 23. Ráðherra er heimilt að takmarka vélarafl handfærabáta í því skyni að heildarsóknarmáttur vaxi ekki frá því sem nú er.

b. við 4. mgr. bætist nýr málsliður svohljóðandi: Heimilt er að flytja allt að 20% af sóknardögum báts frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta.``

Þarna kemur fram tillaga um að sett verði gólf í dagabátana og þeir fái að róa 23 daga á ári. Það vill svo til að hv. þm. Grétar Mar Jónsson og hv. þm. Jón Bjarnason eru með brtt. við frv. við þessa umræðu um akkúrat það sama, þ.e. að sett verði gólf í dagabátana, að þeir megi róa í 23 daga, og ég mun, hæstv. forseti, fylgjast með því með mikilli athygli hvernig hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson greiðir atkvæði þegar sú tillaga kemur til atkvæðagreiðslu.

Til að eyða ekki tíma þingmanna ætla ég að sleppa því að lesa tillöguna sem hv. þm. var með um vigtun á óslægðum afla en það gæti að einhverju leyti snúist um ísprósentu eða slíka hluti og kem ég að því síðar í ræðu minni.

Hvað varðar frv. sem liggur fyrir eins og það var lagt fram til umræðunnar, þá vita allir sem hér eru og tóku þátt í umræðunni um hvað það snýst og er kannski óþarfi að fara yfir það í neinum smáatriðum. En það sem er öðruvísi í frv. sem hæstv. sjútvrh. lagði fram er það að áður en kemur til úthlutunar á afla til báta í aflamarkskerfinu, þá dregur hann frá væntanlegan afla í línuívilnun. Í tillögum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar var gert ráð fyrir því að þessi afli bættist við og yrði, eins og oft hefur verið sagt og margoft haldið fram, þar af leiðandi ekki tekinn frá neinum öðrum.

En hvað birtist svo í frv. hæstv. sjútvrh. til laga um breytingar á stjórn fiskveiða með það í huga að koma á línuívilnun? Það eru stórkostlegar breytingar á byggðakvótanum. Farið er að blanda saman loforði stjórnarflokkanna um línuívilnun við ákvæðin um byggðakvótann. Og, hv. þingmenn, þetta er ekkert lítil breyting sem verið er að leggja til. Það er í raun verið að leggja það til og staðfesta það að allir svokallaðir byggðapottar færist frá Byggðastofnun og sjútvrh., það sem hann hafði þar og úthlutaði í samráði við Byggðastofnun, það færist í raun allt undir sjútvrh. og verði hluti af þeim 12.000 tonnum sem 9. gr. hefur kveðið á um að hann mætti ráðstafa til báta sem verða fyrir sérstöku áfalli vegna skerts aflamarks í einhverri tegund. Hingað til hefur ráðherrann haft samkvæmt þessari grein 12.000 tonn til þessara nota. Þar hafa líka verið eyrnamerkt 1.500 tonn sem nota ætti sem byggðakvóta.

Með þeim tillögum sem hér liggja fyrir er lagt til að hætta að eyrnamerkja byggðakvóta. Á tveimur árum verður hætt að eyrnamerkja sérstaklega einhvern ákveðinn fjölda tonna í byggðakvóta. Og ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, miðað við þær umræður sem ég hlustaði á fyrir kosningar og miðað við þær umræður sem ég hef hlustað á eftir kosningar, milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna, um að ekki kæmi til greina af hálfu framsóknarmanna að draga úr eða minnka að einhverju leyti hinn svokallað byggðakvóta, þá er maður algjörlega kjaftstopp þegar maður sér í þessu frv. lagt til að byggðakvótanum eins og við höfum þekkt hann sé nánast eytt með öllu.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði í framsögu sinni fyrir nál. að þessu væri öfugt farið, verið væri að auka við byggðakvótann. Það væri í raun með því frv. sem hér er verið að auka við byggðakvótann. Í nál. sem hv. þm. talaði fyrir segir, með leyfi forseta:

,,Samhliða upptöku línuívilnunar til dagróðrabáta er lagt til að aflaheimildir sem ráðherra hefur haft til úthlutunar til krókaaflamarksbáta sem gerðir eru út frá sjávarbyggðum sem að verulegu leyti eru háðar veiðum krókaaflamarksbáta, skv. 3. mgr. 9. gr., verði skertar í tveimur áföngum og loks aflagðar í lok fiskveiðiársins 2005/2006. Með sama hætti er lagt til að aflaheimildir sem Byggðastofnun hefur haft til ráðstöfunar til að styðja byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi verði aflagður í tveimur áföngum.``

Þarna stendur þetta á skýrri íslensku að skerða skuli byggðakvótann sem ráðherrann hefur haft og leggja skuli af byggðakvótann sem Byggðastofnun hefur haft, enda vitnaði hv. þm. Jóhann Ársælsson í ágætri ræðu áðan einmitt í umsögn Byggðastofnunar þar sem þeir lýstu yfir áhyggjum sínum af því að þetta væri að færast í það horf sem hér segir.

Þegar maður las yfir nál. meiri hlutans varð maður svolítið hissa og, virðulegi forseti, hissari og hissari, eins og krakkarnir segja stundum, eftir því sem leið á lesturinn. Því sumt af því sem þarna kemur fram eru hrein öfugmæli og annað eru orðalagsbreytingar sem í raun innihalda engar breytingar. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Verði ákvæði frumvarpsins samþykkt óbreytt getur sú staða komið upp að engar eða litlar aflaheimildir verði til ráðstöfunar til að mæta vanda byggðarlaga af öðrum orsökum. Meiri hluti nefndar innar leggur því til breytingartillögu sem ætlað er að treysta stöðu minni byggðarlaga sem lenda í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háðar eru veiðum og vinnslu á bolfiski. Breytingartillögunni er enn fremur ætlað að styrkja byggðarlög sem orðið hafa fyrir skyndilegum skerðingum á aflaheimildum sínum.``

Hverju er meiri hluti sjútvn. að breyta þarna? Jú, í 9. gr. sagði samkvæmt því frv. til laga sem lagt var fram hér að ráðherra hefði þessi 12.000 tonn sem hefur verið margrætt um hér og þar var talað um að ráðherra hefði heimild til að ákveða að ráðstafa eftirstöðvum af aflaheimildunum þegar hann væri búinn að úthluta til bátanna sem lent hefðu í sérstökum vandræðum vegna skerðingar á aflamarki, þá hefði hann heimild til að ráðstafa í samráði við Byggðastofnun hluta af þessum heimildum til stuðnings byggðarlögum og síðan var það skilgreint með hvaða hætti það ætti að vera. Það sem meiri hluti sjútvn. er í raun að leggja til varðandi þessi 12.000 tonn sem eiga að innihalda allan byggðakvótann líka, og ég margspurði einmitt út í þetta atriði á fundum sjútvn., ég spurði hv. þm. Kristin H. Gunnarsson að því hvort það væri réttur skilningur hjá þeim sem hér stendur að sjútvrh. hefði 12.000 tonn og hann mundi nýta hluta af þessum 12.000 tonnum eða þau öll til þess að bæta bátum aflamarksskerðingar vegna sérstakra áfalla, og þá gæti sú staða komið upp að það yrði ekkert eftir í byggðakvótanum. Það var nú frekar fátt um svör en þó, eins og þetta lá þá, gat sú staða komið upp. En með þessari breytingartillögu sem meiri hlutinn er með hér, þá stillir hann upp, jafnsettu, heimild sjútvrh. til þess að bæta mönnum skerðingu á aflamarki vegna sérstakra áfalla og heimild sjútvrh. til að bæta byggðunum áföll sem byggðirnar hefðu orðið fyrir, en það er ekkert sem segir hve stór hluti fer í hvort verkefni.

Ég innti sérstaklega eftir því á fundum nefndarinnar hvort ekki væri verið að ræða um að setja í þetta einhvers konar gólf eða þak á hvora ráðstöfun fyrir sig en því var svarað að það stæði ekki til. Það stæði ekki til að eyrnamerkja hluta af þessum 12.000 tonnum sem byggðakvóta.

Því er mér það algjörlega óskiljanlegt að meiri hluti sjútvn. haldi því fram að þær tillögur sem hér eru fram settar styrki byggðakvótann eins og við þekkjum hann.

Öfugmælin sem koma fram í nál. meiri hlutans, með leyfi forseta, en þar segir:

,,Markmið línuívilnunar með þessu frumvarpi og með breyttu fyrirkomulagi byggðakvótans er að styrkja og efla útgerð og fiskvinnslu í sjávarbyggðum, þ.m.t. þeim byggðum sem hafa fengið sérstaka úthlutun í formi byggðakvóta.`` --- Með því að taka af þeim byggðakvótann, með því að skerða byggðakvótann og taka hann af þeim er verið að styrkja sérstaklega stöðu þeirra með því að gefa þeim séns á því að taka þátt í kapphlaupi um línuívilnun. --- ,,Með breytingartillögunni vill meiri hlutinn styrkja grundvöll byggðakvótans og gera hann markvissari.`` --- Hvernig leggur meiri hlutinn til að byggðakvótinn verði styrktur? Jú, með því að skerða hann og með því að leggja hann niður. Hvernig leggur meiri hlutinn til að byggðakvótinn verði markvissari? Með því að færa hann alfarið undir sjútvrh. sem hefur heimild til að ráðstafa honum til byggða. Vegna þess að í breytingartillögu meiri hlutans segir:

,,Á hverju fiskveiðiári skal ráðherra hafa til ráðstöfunar aflaheimildir sem nema allt að 12.000 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið sem hann getur ráðstafað þannig:`` --- Og síðan kemur að hann geti ráðstafað þessu til báta sem orðið hafa fyrir breytingu á aflamarki og byggðarlaga. Það stendur að hann geti ráðstafað þessum kvóta, það segir ekkert um að hann skuli ráðstafa þessum kvóta. Og ef hv. meirihlutamenn í sjútvn. meina eitthvað með því sem þeir eru að segja, þá hlyti að standa þarna í breytingartillögunni að sjútvrh. skuli nota þessar 12.000 lestir til þess að bæta bátum upp verulegar breytingar á aflamarki, eða til að bæta byggðum upp þær breytingar sem þær verða fyrir vegna samdráttar í aflaheimildum.

Ég fór í upphafi máls míns yfir málsmeðferðina eins og hún var í nefndinni. Hv. þm. Jóhann Ársælsson fór yfir það þegar fulltrúar frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sjómannasambandinu, Vélstjórafélaginu, Farmanna- og fiskimannasambandinu, Landssambandi smábátaeigenda og Landssambandi dagabáta, komu allir til okkar í einum hóp, var öllum boðið að borðinu til okkar í einum hóp, og þar áttu þessir aðilar, sem hafa í flestum málum hvað þetta varðar kannski misjafnar skoðanir á því sem fram var lagt, að fara að lýsa fyrir nefndinni og hver öðrum áliti sínu á því frv. sem fyrir lá.

Ég held þó miðað við þær umsagnir sem okkur bárust í gærkvöldi og í morgun og miðað við þau orð sem við höfum heyrt höfð eftir forsvarsmönnum þessara samtaka, eigi þau þó það sameiginlegt að þau eru öll á móti frv. eins og það liggur fyrir.

[15:00]

Öll, hvert einasta samband, hver einasti hópur sem hefur vit og þekkingu á því sem hér er lagt fram, er á móti þessu. (KHG: Ekki ASÍ. Ekki starfsmenn ...) Fulltrúi ASÍ kom á fundinn til okkar. Það kom kippa til okkar, fulltrúi frá ASÍ, Samtökum fiskvinnslustöðva og Samtökum fiskvinnslu án útgerðar, þessir þrír komu til okkar í einu. Samtök fiskvinnslu án útgerðar voru algjörlega andvíg þessu. Samtök fiskvinnslustöðva vöruðu okkur eindregið við að leggja út í þetta forað og Arnar Sigurmundsson sem kom til nefndarinnar sagði: ,,Í guðanna bænum, hv. þm., hafið vit á því að afgreiða þetta ekki fyrir jól, andið djúpt, takið ykkur tíma og skoðið þetta í alvöru hvaða áhrif þetta hefur.`` (KHG: ... talar sem Eyjamaður.) Full trúi ASÍ, Ólafur Darri, sagði við okkur á fundinum að hann gæti í raun og veru ekki lýst einni skoðun vegna þess að þetta hefði ekki verið tekið fyrir. Aftur á móti vissi hann að öll sjómannafélög innan ASÍ væru á móti þessu. Hann sagði að sérsamböndin og landverkafólkið hefðu verið að funda og niðurstaða þar hefði engin orðið, það hefði ekki verið ákveðið að álykta eitt eða neitt, væntanlega vegna þess að skoðanir hefðu verið mjög skiptar. Það gæti vel verið, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, að þú fyndir eitt eða tvö samtök landverkafólks á Vestfjörðum sem teldu enn að verið væri að bæta hag byggðanna á Vestfjörðum, en ég held, að ef menn mundu gefa sér tíma, sem hv. sjútvn. hefur ekki gert, til að kynna sér innihald frv. eins og það er, kæmust þeir kannski á einhverja aðra skoðun.

(Forseti (HBl): Ég vil minna hv. þm. á að ræðumaður skal jafnan víkja ræðu sinni til forseta eða fundarins, en eigi ávarpa nokkurn einstakan þingmann. Kenna skal þingmann við kjördæmi hans eða nefna hann fullu nafni.)

Hæstv. forseti. Ég biðst velvirðingar á því að hafa ávarpað hv. þm. beint, en okkur sem komum ný til alþingisstarfa er ekki orðið tamt enn þá að rífast við mann sem situr úti í sal á móti manni í gegnum mann sem situr fyrir aftan mann eða tala beint til fundarins þegar viðkomandi þingmaður er beint fyrir framan mann. En ég skal reyna eins og ég mögulega get að fylgja þessum þingsköpum.

(Forseti (HBl): Hér má læra háttvísi.)

Í andsvari áðan þegar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kynnti okkur nál. meiri hluta sjútvn., lýsti hv. þm. því yfir að hann væri ánægður með drögin að frv. sem lægju fyrir eða frv. til laga með þeim breytingum sem sjútvn. hefði gert og lagði til að þingheimur samþykkti frv. eins og það lægi fyrir án þess að á því yrðu gerðar nokkrar breytingar.

Nú vil ég, með leyfi forseta, fá að vitna í og lesa upp úr viðtali við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, sem birtist í Fréttablaðinu í gær, 11. desember, og lái mér hver sem vill þó ég átti mig ekki alveg á hvernig hlutirnir liggja, þegar ég fer yfir og les það sem haft er eftir þingmanninum í Fréttablaðinu í gær og hlusta svo á hv. þm. daginn eftir leggja til í þingsal Alþingis í raun allt aðra hluti en hann talaði um í gær. Með leyfi forseta, fyrirsögn og millifyrirsögn er:

Framsóknarmenn standa vörð um byggðakvótann. Kristinn H. Gunnarsson með nokkra fyrirvara við frumvarp um línuívilnun. Óvíst að sjávarútvegsráðherra nái málinu í gegn vegna andstöðu í báðum stjórnarflokkunum.

Í greininni segir, með leyfi forseta:

,,,,Ég mun standa vörð um byggðakvótann,`` segir Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður Framsóknarflokks um boðað frumvarp sjávarútvegsráðherra um að tekin verði upp 16% línuívilnun á afla dagróðrabóta.``

Ég mun standa vörð um byggðakvótann. Ég minni hv. þm. á það sem ég sagði áðan um byggðakvóta. Áfram með tilvitnun, með leyfi forseta:

,,Kristinn segir að skerðing byggðakvóta gangi ekki upp, því eins og komi fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eigi að auka byggðakvótann samhliða því að taka upp línuívilnun. Þá vitnar hann til þeirra orða Halldórs Ásgrímssonar formanns Framsóknarflokksins, í Fréttablaðinu í sumar, að það væri brot á stjórnarsáttmála að fella niður byggðakvóta.``

Hæstv. forseti. Ég var að lesa upp úr nál. þar sem segir með hvaða hætti skuli skerða byggðakvótann og með hvaða hætti skuli leggja niður byggðakvótann. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson segir akkúrat öfugt við það í viðtali í Fréttablaðinu í gær.

Áfram með tilvitnun úr grein Fréttablaðsins, með leyfi forseta:

,,Þingflokkur framsóknarmanna var með fyrirvara um byggðakvótann. Þá tel ég að línubátar sem róa með beitningartrekt verði einnig að fá línuívilnun.``

Í gær taldi hv. þm. að línubátar sem reru með beitningartrekt þyrftu líka að fá línuívilnun. Í dag stendur hv. þm. í ræðustól Alþingis og leggur til að menn samþykki frv. sem hann talar fyrir og segist vera ánægður með að öllu leyti og ekki sé að vænta neinna breytinga milli umræðna á því frv. sem hér liggur fyrir. En í gær var ekki hægt að samþykkja svona frv. ef trektarbátarnir eða bátarnir sem nota beitningartrekt væru ekki inni í þessu. Lái mér hver sem vill þó ég sé hálfringlaður í því hverju skal trúa.

Áfram úr grein Fréttablaðsins, með leyfi forseta:

,,,,Loks verður að leysa vanda dagabátanna sem hafa verið skertir svo mjög að grundvöllur til reksturs þeirra er brostinn,`` segir Kristinn sem segist að því gefnu`` --- þ.e. að það sé staðið vörð um trektarbátana, dagabátana og byggðakvótann --- ,,muni styðja frumvarp sjávarútvegsráðherra.``

Því er ekki undarlegt, hæstv. forseti, þó spurt sé: Megum við vænta þess að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson styðji frv. sjútvrh. þegar það kemur til atkvæða væntanlega síðar í dag, þar sem ekkert af þeim atriðum sem hann talar um í Fréttablaðinu í gær koma fram í frumvarpinu.

Annar hv. þm. Framsfl., Hjálmar Árnason, hefur einnig tjáð sig í blöðunum um línuívilnun. (Gripið fram í.) Hv. þm. Hjálmar Árnason segir í Fréttablaðinu þann 9. desember, þremur dögum eftir að frv. hæstv. sjútvrh. kom fram og daginn áður en 1. umr. var um frv. í þinginu, með leyfi forseta:

Kínverjar gerðu línuívilnun óþarfa, er fyrirsögnin á grein hv. þm. Áfram, með leyfi forseta:

,,,,Þökk sé Kínverjum að línuívilnun til styrktar byggð er óþörf. Eftir að markaðir fyrir sjófrystan fisk hrundu fáum við 70 þús. tonn af fiski til vinnslu í landi,`` segir Hjálmar Árnason þingflokksformaður Framsóknarflokks um þá breyttu stöðu í sjávarútvegi sem er vegna þess að Kínverjar hafa valdið verðfalli á freðfiskmörkuðum. Afleiðingin hefur orðið sú að útgerð frystitogara hefur orðið harkalega úti og fjölda togara hefur verið snúið til ísfiskveiða.

Hjálmar hefur lýst sig andsnúinn línuívilnun og talaði gegn henni á þingflokksfundi Framsóknarflokks á föstudag þegar kynnt var samkomulag forsætisráðherra og Vestfjarðaþingmannanna Einars Odds Kristjánssonar og Einars Kristins Guðfinnssonar um að tekin verði upp 16% línuívilnun.``

Þetta segir hv. þm. í samtali við Fréttablaðið þann 9. desember, fyrir örfáum dögum, að hann styðji ekki línuívilnun og telji hana óþarfa. En það er annað sem kemur fram í viðtalinu við hv. þm. Hjálmar Árnason. Ég spurði einmitt um það atriði í 1. umr. og fékk engin svör, hvorki frá hæstv. sjútvrh. né hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. En hér segir í viðtalinu við hv. þm. Hjálmar Árnason, með leyfi forseta:

,,Baksamningur þeirra félaga`` --- þ.e. Vestfjarðaþingmanna og hæstv. forsrh. --- ,,var ekki kynntur en hann gerir ráð fyrir að 4% til viðbótar náist með því að auka úr 3% í 7% það hlutfall sem draga má frá lönduðum afla vegna íss.``

Þarna, hæstv. forseti, dúkka allt í einu upp þessi 4% sem vantar upp á 16%. Þarna dúkka allt í einu upp uppbætur í einhvers konar baksamkomulagi til þess að ívilnunin geti orðið 20% fyrir línubáta hvar sem er á landinu ef þeir beita í landi.

Hv. þm. heldur áfram, með leyfi forseta:

,,Ég vil sjá hver samfélagsleg áhrif af þessu verða,`` segir Hjálmar.

Undir mynd af hv. þm. stendur: ,,Er andvígur línuívilnun og telur hana ekki hafa neina sérstaka þýðingu fyrir landsbyggðina.``

Svo mörg voru þau orð.

Það eru fleiri hv. stjórnarþingmenn sem lýst hafa afstöðu sinni opinberlega í þessu máli. Hv. þm. Guðjón Hjörleifsson úr Suðurk. talaði á bæjarstjórnarfundi í Vestmannaeyjum ekkert alls fyrir löngu og ræða hans var birt í Fréttum, netmiðli í Vestmannaeyjum, þar sem hann eggjar félaga sína í bæjarstjórn lögeggjan að berjast fyrir því að ekki verði tekin upp línuívilnun. Hann lýsir sig algjörlega andvígan því að tekin verði upp svona ívilnun. Á þessum netmiðli er meira að segja hægt að hlusta á ræðu hv. þm. eins og hún var flutt á bæjarstjórnarfundinum, því þeir taka upp ræðurnar þar og var hún spiluð í Útvarpi Vestmannaeyja. Ég verð að segja alveg eins og er að þegar ég hlustaði á hv. þm. leist mér vel á það sem ég heyrði. Þarna talaði maður af sannfæringu. Þarna talaði maður af tilfinningahita. Og þarna talaði maður af sannfæringarkrafti við félaga sína um að nú skyldu þeir allir standa saman og verjast þessari vá sem verið væri að kokka með þessari línuívilnun. Það verður jafnframt fróðlegt, hæstv. forseti, að fylgjast með því hvort hv. þm. Guðjón Hjörleifsson tekur þátt í umræðum um þetta mál á hinu háa Alþingi, eða með hvaða hætti ...

(Forseti (HBl): Ég vil spyrja hv. þm. hvort komið sé að lokum ræðu hans?)

Virðulegi forseti. Ég get lokið ræðu minni á tveimur til þremur mínútum.

Ég var kominn þar í ræðu minni að ég sagði að það yrði fróðlegt að fylgjast með því hvernig stjórnarþingmenn sem hafa tjáð sig opinberlega í blöðum og öðrum miðlum greiða svo atkvæði þegar þeir koma hingað og setjast í stólana sem alþingismenn. Með því verður fylgst.

Ég fór yfir það í upphafi máls míns að allir þeir sem sendu okkur skriflegar umsagnir um þetta frv. voru á móti því. Nánast allir sem töluðu við nefndina voru líka á móti því. Hæstv. forseti, ég minni á að frv. kemur fram 6. desember, fyrir tæpum sex dögum, og fór til 1. umr. þann 10. desember, því skil ég ekki þennan flumbrugang og á hverju liggur, því við höfum óskað eftir því í nefndinni að farið væri yfir og reiknað út hvaða áhrif þessi breyting hefði á einmitt þessar byggðir á Vestfjörðum sem hv. þm. segjast sérstaklega vera að gæta hagsmuna fyrir, hvaða áhrif frv. sem hér liggur fyrir hefði á þær. En það má ekki gefa því tíma að skoða það og reikna það út og reyna að komast að því svo að menn taki ákvörðun með opin augun um hvort þetta sé það sem þeir vilja eða ekki.

Hæstv. forseti. Ég hef möguleika á að koma hér aftur síðar í umræðunni og mun væntanlega nýta mér þann rétt.