Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 16:20:08 (3299)

2003-12-12 16:20:08# 130. lþ. 49.96 fundur 241#B sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[16:20]

Drífa Hjartardóttir:

Virðulegi forseti. Við ræðum hér utan dagskrár sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík.

Eftir árið 1991 var farið að ræða ýmsar leiðir til að auka skilvirkni sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu. Var þá velt upp ýmsum möguleikum og rætt um hvað ætti að sameina og hvernig. Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að undirbúningur hafi ekki verið nægilega markviss. Hvorki var gerð tímasett framkvæmdar- né kostnaðaráætlun og ekki voru sett markmið um hverju ætti að ná fram með sameiningunni. En viljinn var fyrir hendi og í verkið var ráðist.

Með sameiningu spítalanna varð til stærsti vinnustaður landsins, með um 5 þúsund starfsmenn, starfsmenn sem hafa það að markmiði að þjóna sjúklingum á sem skilvirkastan hátt. Spítalinn er á heimsmælikvarða hvað gæði þjónustu snertir.

Ljóst er að ýmsar aðgerðir sem tengdust sameiningunni voru til þess fallnar að lækka kostnað. Lagðar hafa verið af vaktir, störfum fækkað með sameiningu deilda og dregið úr yfirvinnu. En þrátt fyrir þetta þá kemur fram í skýrslunni að gæði þjónustunnar eru meiri en í Bretlandi. Sjúkrahús í Bretlandi voru til samanburðar.

Þess var vænst að sameiningin leiddi til sparnaðar. Það hefur enn ekki tekist en sameiningin gefur sjálfsagt ýmis sóknarfæri til sparnaðar. Það eru aðeins þrjú ár síðan þetta verkefni hófst.

Virðulegi forseti. Meginhugmyndin um sameiningu var að færa á einn stað sambærilegar deildir sem nytu góðs af því að kraftar þeirra væru sameinaðir. Hins vegar má spyrja hvort öll sú starfsemi sem nú fer fram innan sjúkrahússins eigi heima á hátækni- og bráðasjúkrahúsi eins og spítalinn skilgreinir sig.