Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 16:38:13 (3307)

2003-12-12 16:38:13# 130. lþ. 49.96 fundur 241#B sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[16:38]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Fyrst af öllu vil ég þakka ágæta umræðu og málefnalega um þetta stóra mál.

Í öðru lagi vil ég taka fram að sameiningin er langt komin. Afköst spítalans hafa aukist á þessu ári og ég er viss um að sameiningin fer að skila sér í sparnaði, sem hún hefur ekki gert enn. Hún hefur fram að þessu haft í för með sér kostnað en hún mun skila sér í sparnaði.

Varðandi fjárhagsstöðu spítalans um þessar mundir vil ég leiðrétta þann misskilning að verið sé að skera niður til spítalans. Við bættum 1.100 millj. kr. til spítalans á yfirstandandi ári, umfram verðlagsþróun, við bættum 500 millj. kr. inn í grunninn fyrir næsta ár. Við lögðum til 2.330 millj. kr. aukafjárveitingu til spítalans 2002 og erum með 1.900 millj. kr. aukafjárveitingu til spítalans á þessu ári. Þetta gera 5.800 millj. kr. síðan 2002. Ef þetta er niðurskurður þá veit ég ekki hvað niðurskurður er.

Hitt er annað mál að það er við vandamál að glíma. Menn skyldu hafa í huga það sem ég og fjmrh. höfum sagt um þessi mál þessa dagana, að það er misskilningur að við stimplum tillögur. Við höfum sagt: Þið verðið að laga ykkur að þessari fjárveitingu á tveimur árum. Þess vegna er stjórn og framkvæmdastjórn spítalans að leita leiða til að hagræða án þess að stefna þjónustu spítalans í voða, til að laga sig að þessum fjárveitingum á tveimur árum. Það er kjarni málsins.

Spítalinn er fimm þúsund manna vinnustaður með útgjöld upp á 25 milljarða kr. Menn verða að hafa þessar stærðir í huga þegar talað er um málefni spítalans.