Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 17:24:41 (3310)

2003-12-12 17:24:41# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[17:24]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur fyrir og þarf kannski ekki að fara yfir það í löngu máli að stuðningur við línuívilnun er mjög víðtækur í þjóðfélaginu. Hún er baráttumál hjá þeim samtökum sem hv. þm. nefndi til sögunnar eins og Landssambandi smábátaeigenda. Hún er baráttumál sveitarfélaga á Vestfjörðum og línuívilnun er samþykkt tveggja stjórnmálaflokka. Það þarf því enginn að velkjast í vafa um að það er verulegur stuðningur við þetta mál. Ég get verið sammála þeim sem benda á að sá málflutningur sem stjórnarflokkarnir höfðu uppi skiptir verulegu máli, einmitt vegna þess að þetta atriði nýtur stuðnings.

Það þýðir því lítið að reyna að breiða yfir þessa staðreynd með því að nefna það að einstakir umsagnaraðilar geri athugasemdir við einstök atriði málsins. Það breytir því ekki að stuðningurinn við málið í heild eða það að taka upp línuívilnun er mjög mikill.

Ég vil aðeins nefna það sem fram kom hjá hv. þm. vegna breytinga á fyrirkomulagi um byggðakvóta að lögin eru almennt heimildalög. Nánast allt í lögunum er þannig ákveðið að mælt er þannig fyrir um að ráðherra hafi heimild, eins og 10. gr. sem er aðalgrein laganna, hún er eingöngu heimild. Hún veitir heimild til þess að undanskilja hluta af aflamarki og undirmáli. Hún veitir heimild til að veiða umfram aflamark upp að 5% o.s.frv. En í 9. gr., sem verður sú grein sem ber uppi þessar sérstöku aðgerðir, er aftur á móti kveðið á um skyldu. Sú grein mun hefjast á því að á hverju fiskveiðiári skuli ráðherra hafa til ráðstöfunar, þannig að þar er hið gagnstæða upp á teningnum einmitt til að undirstrika alvöru málsins.