Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 17:26:56 (3311)

2003-12-12 17:26:56# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[17:26]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég dreg ekki þá ályktun að þessi hugmynd stjórnarflokkanna hafi víðtækan stuðning. Þó svo að stjórnarflokkarnir hafi getað skóflað til sín eitthvað af atkvæðum út á þessi loforð sem voru fjölmörg í kosningabaráttunni og eins og ég hef áður sagt spilað ýmsu út til vinstri og hægri og fram fyrir sig og aftur fyrir sig í atkvæðakaupum, þá er ég ekki svo viss um að þetta sé eins víðtækur stuðningur og menn halda, þó svo víðtækur stuðningur hafi vafalaust orðið til þess að skila fleiri atkvæðum í kassann hjá sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum e.t.v. í Norðvesturkjördæmi.

Það er svo aftur alveg hárrétt, virðulegur forseti, ég vildi segja það hér vegna þess að ég gleymdi því áðan, að mér þótti það mjög merkilegt í kosningabaráttunni, af því að ég gerði hér að umtalsefni samtök, að Landssamtök íslenskra útvegsmanna og fleiri hjóluðu nú ekki mikið fyrir kosningar í gagnrýni á þessa hugmynd stjórnarflokkanna um línuívilnun, sem var náttúrlega mjög sérstakt mál. Ég dreg því í efa hvað áhuginn er mikill, e.t.v. er það rangt hjá mér, en ég er alveg viss um að það er ekki mikill áhugi í þeim sjávarbyggðum sem ég hef hér gert að umtalsefni og farið yfir, kvóta sem þar eru, hvort sem það er byggðakvóti Byggðastofnunar, ráðherrakvótinn eða krókaaflamarkskvótinn, ég er ekki svo viss um þegar allt kemur til alls að það sé eins mikill áhugi, á þeim stöðum sem missa mest, fyrir þessari línuívilnun eins og hún er hér sett upp með þeim takmörkunum sem þar eru. Og með byggðakvótann ætla ég að ítreka það sem ég sagði áðan, vegna þess að ég hygg að ég og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson höfum í gegnum tíðina haft töluverðan áhuga á byggðakvóta og þeim aðgerðum sem þar eru gerðar, sem hafa verið sérmerktar og ekki hægt að selja frá sér heldur nýttar á staðnum, að ég treysti ekki núv. hæstv. sjútvrh. til þess að úthluta byggðatengdum kvótum miðað við 9. gr. að þeir fari hér út, sama hvort það er heimildarákvæði eða hvað sem hefur verið nýtt undanfarin ár.