Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 17:31:17 (3313)

2003-12-12 17:31:17# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[17:31]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er bara gagnvart þessu síðasta, það er engu við það að bæta. Það var miður að Landssamband íslenskra útvegsmanna og verkalýðsfélögin sem komu á nefndarfund gengu á dyr og ekki var hægt að hlusta á málflutning þeirra og röksemdafærslu fyrir þessu frv. Þau voru náttúrlega á móti því. Ég ítreka það sem ég sagði að ég held að það sýni okkur að það mun ekki vera hægt að gera þetta svoleiðis, vegna þess að þannig hagsmunir eru í húfi gagnvart þessum aðilum, það ólíkir, að menn vilja stundum eiga samtöl í nefnd þar sem rætt er beint og í trúnaði við nefndina, ekki að öðrum viðstöddum.

Ég sagði áðan og ítreka það að þrátt fyrir góðan vilja hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um byggðakvóta, sem ég held að við eigum sameiginlegan, er hér stigið skref til baka þar sem farið er út úr þessu atriði, tekið út úr lögum eins og það er og hefur verið þó allt of lítið sé, það verður ekki hægt þannig. Við erum því háð ýmsum duttlungum hæstv. sjútvrh. hvernig þetta verður gert, skilgreiningunni, hvernig á að úthluta þessu o.s.frv. Mér finnst miður eins og kom fram í ræðu minni, að svo sé.

Hv. þm. sat í stjórn Byggðastofnunar, að mig minnir, þegar byggðastofnunarkvótanum var úthlutað sem var gert til fimm ára, en er nú samt sem áður úthlutað í hvert skipti, t.d. 387 tonnin sem hafa verið undanfarin fimm fiskveiðiár á Þingeyri, að menn þurfa ekki nema bara hugsa til þess staðar og þeirra erfiðleika sem þar voru á sínum tíma. Byggðakvótinn sem þar var settur niður var mjög mikilvægur og hefur algjörlega snúið málum þar til betri vegar. Við höfum enga tryggingu eftir það að hæstv. sjútvrh. úthluti slíkum kvótum í framtíðinni á staði eins og Þingeyri og aðra sem eiga við erfiðleika að etja í atvinnulífi.