Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 17:59:36 (3316)

2003-12-12 17:59:36# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[17:59]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að dagabátarnir eru ekki hluti af þessu frv. enda sagði ég líka einmitt að svo væri. Hins vegar lagði ég áherslu á að við erum að fjalla um strandveiðiflotann í þessu frv. og möguleika hans og dagabátarnir eru mikilvægur hluti af honum. Og fari fram sem horfir, óbreytt ástand eða óbreytt ákvæði hvað viðvíkur dagabátunum, er verið að gera þeim nánast mjög örðugt með að halda úti sínum rekstri áfram, því stöðugur niðurskurður á dögum þýðir náttúrlega bara aukið rekstraróöryggi og minni hagkvæmni. Þannig að ég tel það skylt að við hefðum átt að taka á þeim líka og þess vegna flyt ég ásamt hv. þm. Grétari Mar Jónssyni brtt. við þetta frv. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Leyfilegir sóknardagar hvers fiskveiðiárs verði aldrei færri en 23, og skal þeim fjölgað um einn fyrir hver 20 þúsund tonn leyfðs heildarþorskafla á fiskveiðiárinu umfram 230 þúsund tonn.``

Þannig tryggjum við áfram hlut dagabátanna og að verði aukning í fiskveiðiheimildum þá eigi þeir þar líka möguleika á að styrkja sinn hlut sem er réttlætismál. Ég tel því, virðulegi forseti, að það sé mjög mikilvægt þegar við vinnum að málum sem snerta strandveiðiflotann í heild, að við eigum og okkur beri skylda til að taka á málum hans ekki hvað síst hvað varðar dagabátana. Þess vegna legg ég áherslu á að þessi tillaga komi hér inn og verði samþykkt.