Málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 10:05:18 (3318)

2003-12-13 10:05:18# 130. lþ. 50.92 fundur 243#B málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss# (aths. um störf þingsins), MF
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[10:05]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum dögum voru fjárlög næsta árs afgreidd frá Alþingi. Í umræðunni um þau bentu þingmenn Samf. ítrekað á afleiðingar þess að fjárveitingar til Landspítala -- háskólasjúkrahúss væru allt of lágar miðað við þá þjónustu sem spítalinn veitir. Stjórnarandstaðan sagði að þessi niðurstaða þýddi að grípa þyrfti til fjöldauppsagna og að draga þyrfti verulega úr þjónustunni, þar á meðal bráðaþjónustu og mikilvægum þáttum eins og allri endurhæfingarstarfsemi spítalans. Meiri hlutinn samþykkti engu að síður niðurskurð á fjárveitingum til spítalans miðað við það sem er í ár og ákvað meðvitað að skerða þjónustuna og stefna á fjöldauppsagnir starfsfólks.

Nú blasir við að tæplega 200 manns verður sagt upp störfum og að þjónusta spítalans, þessarar lykilstofnunar heilbrigðiskerfisins, verður verulega skert, jafnvel að um óbætanlegt tjón á starfsemi hennar verði að ræða. Nefnd er að störfum sem hæstv. heilbrrh. skipaði og á hún að gera tillögur um starfsemi spítalans. Það hefði verið eðlilegt að fjárveitingar til hans hefðu verið miðaðar við áætlanir stjórnenda spítalans þar til pólitískar ákvarðanir liggja fyrir um það hvert hlutverk og starf þessarar mikilvægu stofnunar er. En það var ekki gert, heldur stuðst við einhliða ákvörðun meiri hluta Alþingis um að skerða framlögin án tillits til þeirrar þjónustu sem þar er veitt. Ábyrgðin á því að verið er að segja upp tæplega 200 manns og skerða þjónustuna liggur ekki hjá stjórnarnefnd Ríkisspítala. Hún liggur hér, hjá fulltrúum meiri hluta Alþingis.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hver var ástæða þess að ekki var farið að tillögum stjórnenda spítalans þar til nefnd um hlutverk hans hefði lokið störfum og hægt væri að taka pólitíska ábyrgð á starfsemi og verksviði spítalans?