Málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 10:11:25 (3321)

2003-12-13 10:11:25# 130. lþ. 50.92 fundur 243#B málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[10:11]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Fyrr í þessari viku voru formenn fimm stærstu verkalýðsfélaganna sem eiga félaga starfandi á Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi boðaðir á fund stjórnar spítalanna. Þetta voru SFR, sjúkraliðar, Efling, hjúkrunarfræðingar og læknar. Þeim var sagt að eftir afgreiðslu fjárlaga væri sýnt að segja þyrfti upp 200 manns á komandi ári og ég segi, herra forseti: Þessar uppsagnir eru á ábyrgð ráðherra ríkisstjórnarinnar og þess stjórnarmeirihluta sem hún styðst við.

Þegar fólk fær uppsagnarbréfið í hendur skulu menn hugsa til ríkisstjórnarinnar. Þegar fólk fær ekki aðhlynningu eða aðstoð á bráðamóttöku Landspítalans skulu menn hugsa til ríkisstjórnarinnar og þess stjórnarmeirihluta sem hún styðst við. Þegar fólk fær ekki sjúkraþjálfun skulu menn hugsa til ríkisstjórnarinnar. Þegar fólk verður fast á biðlistum og fær ekki bót meina sinna, missirum saman, skulu menn hugsa til ríkisstjórnarinnar.

Þetta er yfirveguð ákvörðun frá hennar hendi. Allir vita að Sjálfstfl. heldur um pyngjuna en sú spurning sem brennur á allra vörum er: Hversu lengi ætlar Framsfl. að láta bjóða sér þessa niðurlægingu?