Málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 10:13:18 (3322)

2003-12-13 10:13:18# 130. lþ. 50.92 fundur 243#B málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss# (aths. um störf þingsins), EMS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[10:13]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. heilbrrh. að nýlega voru samþykkt fjárlög fyrir næsta ár. Það er líka rétt hjá hæstv. ráðherra að stofnunin stendur frammi fyrir þeim vanda að mæta þeirri samþykkt sem þar var gerð. En það er einnig rétt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að ríkisstjórnarmeirihlutinn vissi nákvæmlega hvað hann var að gera þegar fjárlög voru samþykkt. Það var farið nákvæmlega yfir þau mál. Í fjárln. var hins vegar ekki farið nákvæmlega yfir það hvernig ætti að mæta þeim vanda. Það var lokað á allt eins og þingheimur man fyrir 3. umr. fjárlagafrv. þegar allar þessar upplýsingar lágu fyrir. Það vissu allir hvað þeir voru að gera. Það var hins vegar athyglisvert hjá hæstv. heilbrrh. þegar hann sagði áðan að hann hefði tjáð stofnuninni að hún ætti að laga sig að þessum fjárveitingum á tveimur árum. Hæstv. ráðherra er þar með að segja að stofnunina eigi að reka með halla á árinu 2004 og er nauðsynlegt, hæstv. heilbrrh., að það verði skýrt hversu mikill sá halli eigi að vera á árinu 2004 þannig að við höfum nákvæmlega þær heimildir sem stofnunin hefur fengið um hallarekstur. Það segir okkur, herra forseti, að búið er að ákveða nú þegar að það verði fjármunir á fjáraukalögum næsta árs og er þess vegna ekki skrýtið þó að spurt sé í leiðara Morgunblaðsins í morgun hvenær þessu eigi að linna. Þeir sem standa fyrir utan standa agndofa yfir því að ár eftir ár skuli þetta gerast, ár eftir ár, og þess vegna skulda þeir stjórnmálamenn sem að þessu standa þjóðinni skýringar á því hvernig á því stendur að stofnunin er sífellt sett í þennan vanda.

Viðtal við formann Læknafélagsins er fróðleg lesning þar sem hann varar við afleiðingum þess ef menn halda hráskinnaleiknum áfram. Ár eftir ár er stofnunin sett í sama vanda og það mun að sjálfsögðu ekki þýða neitt annað en að skorið verði af þjónustu stofnunarinnar. Það er líka athyglisvert í samhengi við það sem hæstv. heilbrrh. sagði við umræðurnar í gær; stofnunin er ekki eyland. Það sem skorið er niður hjá þessari stofnun mun bitna á öðrum stofnunum eða kalla á aukinn kostnað þeirra.