Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 11:08:17 (3344)

2003-12-13 11:08:17# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[11:08]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Oft höfum við þingmenn rætt um það að gera úrbætur. Sumt af því sem var í frv. er meðal þess sem við höfum rætt. Það vissi formaður minn. Hann hefur heyrt mig segja það, sumt af því, ekki allt sem var þarna.

Ég hef verið talsmaður þess undanfarin 2--3 ár að það yrði farið í að skoða ýmis mál þessu tengd, ekki endilega það sem kom í frv. stjórnarflokkanna en ýmislegt því tengt. (Gripið fram í: Stjórnarflokkanna?) (Gripið fram í: Er þetta stjórnarfrv.?) Stjórnarflokkanna, þeir sömdu frv. (Gripið fram í: Síðan hvenær?) (Gripið fram í: Hverjir sömdu frv.?) Stjórnarflokkarnir.

Virðulegur forseti. Tekur þetta tíma af mínum tíma? (Gripið fram í: Hverjir sömdu frv.?) (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Á ekki að svara andsvörum?) Jú, jú, ef ég fæ tækifæri til þess. Ég hef verið talsmaður fyrir því að við færum saman í svona vinnu og það var meira að segja rætt manna á meðal fyrir síðustu kosningar að reynt yrði að skoða það að semja frv. af þeim sem sátu á þingi þar sem allir kæmu að því fyrir kosningar, síðan yrði vinnu við frv. haldið áfram eftir kosningar. Hér erum við að tala um mál sem dettur inn á borð og á að afgreiða á tveimur dögum.