Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 11:11:26 (3347)

2003-12-13 11:11:26# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[11:11]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja það eftir þessa ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með Samf. í málinu. Samf. er búin að funda kvölds og morgna og jafnvel næturlangt um málið og um það hvort hún muni styðja frv. Síðan kemur hv. þm. hingað upp og gerir okkur grein fyrir þeim athugasemdum sem hún hefur við frv. og niðurstaðan er sú að hún hefur engar athugasemdir við frv. Hún hefur einungis athugasemdir við verklagið.

Þetta var dæmalaus ræða og rýr í roðinu. Ég hlýt að gera athugasemdir við það að hv. þingmaður haldi því fram að formenn stjórnmálaflokkanna hafi fallist á það að málið kæmi til skoðunar. Þetta er bara rangt. Formenn stjórnmálaflokkanna gerðu með sér samkomulag um það að leggja málið fram með þessum hætti, ekki að það kæmi til skoðunar. Ef það er brotið blað í þingsögunni lýtur það að því að formenn einstakra stjórnmálaflokka ætli sér að hlaupa undan máli sem þeir höfðu samþykkt að yrði lagt fram, og einstakir þingmenn sömuleiðis.