Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 11:46:29 (3367)

2003-12-13 11:46:29# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[11:46]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þessi umræða og ræða hv. þingmanns undirstriki það að þetta er flókið. Við verðum að taka meiri tíma í að skoða málið. Þessar greiðslur eru mjög umdeildar, einnig í Sjálfstfl., og ég held að það færi miklu betur á því að við tækjum þann tíma sem þarf í málið og reyndum að skapa betri sátt um það í þjóðfélaginu, fara m.a. yfir kostnaðinn. Það er furðulegt að standa í þessum sporum hér nú og fjalla um frv. án þess að vita nokkuð hvað það kostar.

Í fyrrakvöld var af valdamesta manni þjóðarinnar slegið á að þetta kostaði 6 millj., svo er það hrokkið niður í 1--2. Ég veit ekki hver kostnaðurinn verður en það væri mjög fróðlegt að bera þessar tölur saman við endanlega útkomu sem við eigum von á í útreikningum hér í dag eða næstu daga. Ég tel að okkur liggi ekkert á að afgreiða þetta mál, það eigi að fara í góða umræðu og aftur inn í nefndina og skoðast mun betur.