Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 12:12:13 (3377)

2003-12-13 12:12:13# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, MS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[12:12]

Magnús Stefánsson:

Hæstv. forseti. Við ræðum frv. til laga um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara sem flutt er af hv. þingmönnum, fulltrúum allra þingflokka á Alþingi. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með framvindu þessa máls allt frá því að það kom fram á Alþingi fyrr í þessari viku og það má segja að að vissu leyti hafi atburðarásin verið sérkennileg svo ekki sé dýpra tekið í árinni.

Ljóst er að grundvöllur þess að þetta mál var flutt á Alþingi er samkomulag milli forustumanna stjórnmálaflokkanna sem eiga þingflokka á Alþingi. Annars hefði málið væntanlega aldrei komið fram með þeim hætti sem það liggur hér fyrir. Málið fór í gegnum alla þingflokka og flm. eru, eins og fram hefur komið, hv. þm. úr öllum þingflokkum.

Eftir að málið kom fram og frv. var dreift í þingsölum hefur verið athyglisvert að fylgjast með hvernig því hefur reitt af, bæði innan þingflokka og í þingnefnd. Það er ljóst að stjórnarandstaðan á Alþingi hefur algjörlega fallið á prófinu í þessu máli. Ef við förum aðeins yfir það í nokkrum atriðum er ljóst að hv. þm. Samf. hreinlega hrukku af hjörunum eins og maður segir stundum þegar fólk fer á taugum í einstökum málum. Það var mikið uppnám í þingflokki Samf., augljóslega. Það urðum við vör við sem vorum í þinghúsinu og fylgdumst með hvernig lífið gekk fyrir sig þessa daga. Mér virðist sem aðilar utan Alþingis hafi algjörlega tekið völdin í þingflokki Samf. og þar á ég við annars vegar forustu verkalýðshreyfingarinnar þar sem um er að ræða félaga í Samf. sem tjáðu sig opinberlega í fréttum og annars staðar og áttu greinilega samskipti við einstaka þingmenn um málið og eins virðist mér sem varaformaður flokksins sem hér gekk út og inn á tímabili og átti viðræður við þingmenn hafi hreinlega gripið í taumana og tekið völdin í þingflokknum.

Mér þykir leitt, virðulegur forseti, að upplifa það að eitt helsta vandamál sem mér virtist á tímabili hrjá Samf., þ.e. ákveðinn ótrúverðugleiki sem mér fannst blasa við í störfum þeirra, hefur þvegist illa af þeim, a.m.k. í þessu máli. Það verður að segja eins og er að það eru vonbrigði vegna þess að auðvitað er mikilvægt að einstakir stjórnmálaflokkar og þingflokkar starfi þannig að hægt sé að treysta störfum þeirra.

[12:15]

Ég vil hins vegar taka fram að mér virðist sem einn hv. þm. úr þingflokki Samf., þ.e. Guðmundur Árni Stefánsson, sem flytur málið ásamt fleirum, ætli að standa í fæturna og fylgja því eftir til enda eins og fram hefur komið í viðtölum við hann. Ég verð bara að segja eins og mér býr í brjósti að mér finnst hv. þm. maður að meiri að standa í fæturna og fylgja málinu eftir sem hann hefur hér flutt inn sem meðflutningsmaður að frv. til laga.

Það hefur einnig verið athyglisvert að fylgjast með Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, hvernig framganga þeirra hefur verið. Eins og fram hefur komið byggir tilvist frv. á samkomulagi milli formanna flokkanna og það hefur komið fram í fréttum og viðtölum að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, virðist vera að hlaupa frá samkomulaginu, eða það er mitt mat á þeim viðtölum sem hafa komið fram við hann. Hins vegar hefur hv. þm. Ögmundur Jónasson verið sjálfum sér samkvæmur. Hann hefur í hvert einasta skipti sem hér hefur komið til umræðu eitthvert mál er varðar þingmenn eða ráðherra eða aðra forustumenn þjóðarinnar snúist algjörlega öndverður og mælt mjög gegn öllum málum sem hafa komið fram á því sviði. Því má segja að hann hafi verið sjálfum sér samkvæmur í þessu efni.

Hv. þm. Þuríður Backman sem er meðflutningsmaður að þessu máli hefur gert grein fyrir afstöðu sinni til þess. Mér finnst hún koma fram með málefnalegum hætti. Mér finnst rétt að gefa henni þá einkunn og það verður athyglisvert að fylgjast með því hvort hún muni fylgja málinu þegar á reynir við afgreiðslu þess.

Ef við snúum okkur síðan að Frjálsl. hefur kannski athyglisverðasta framgangan verið hjá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni sem er búinn að lýsa því yfir að hann muni ekki styðja þetta mál sem hann sjálfur flytur. Hann hefur sem sagt komið alveg skýrt fram með það. Ég verð að segja að mér finnst framganga hv. þingmanns vera athyglisverð og ég hygg að það að lýsa því svona skýrt yfir að viðkomandi þingmaður muni ekki fylgja máli sínu eftir sem hann flytur sjálfur muni hanga sem myllusteinn um háls hans til framtíðar. Það er ekki mjög algengt hér á Alþingi að flm. mála lýsi því yfir áður en lokið hefur verið við umfjöllun um mál að þeir muni ekki styðja það. Þetta vildi ég rétt hlaupa yfir, hæstv. forseti. Mér finnst eðlilegt að gera það eftir þá atburðarás sem hér hefur verið í umfjöllun um þetta mál.

Ef ég held mig aðeins lengur við hv. stjórnarandstöðuna er ljóst að hlutskipti hennar hér á síðustu dögum þingsins fyrir jól er mjög sérkennilegt. Eftir alla umræðuna sem fór fram um hið svonefnda öryrkjamál var athyglisvert að fylgjast með því í gær þegar það var tekið til lokaafgreiðslu að stjórnarandstaðan treysti sér ekki til þess að standa að því að kjör öryrkja yrðu bætt sem nemur einum milljarði króna og gerðar ákveðnar kerfisbreytingar á lögunum sem fyrst og fremst koma til hagsbóta þeim öryrkjum sem verða öryrkjar á unga aldri. Mér fannst mjög athyglisvert að upplifa það að stjórnarandstaðan treysti sér ekki til að standa að því að bæta kjör öryrkja með þessum hætti.

Það þarf ekki að eyða lengri tíma í að fara yfir þetta mál sem hér er til umræðu. Ef maður setur þetta í myndlíkingu má segja að stjórnarandstaðan minni á hóp af fiðurfé sem tvístrast í allar áttir þegar áreiti verður. Það er sú mynd sem stendur í mínum huga og ég ætla að leyfa henni að vera þannig, það kannski léttir manni í sinni.

Síðan varð umræða fyrr í morgun um heilbrigðismál. Þar gagnrýndi Samf. harðlega að ekki skyldi veitt meira fjármagn til heilbrigðismála eftir að flokkurinn hafði tekið þá afstöðu á landsfundi sínum að nægt fé væri veitt til heilbrigðismála, það þyrfti einungis að nýta það betur. Það er margt athyglisvert, virðulegur forseti, sem hefur fram komið í umræðu hér á Alþingi á síðustu dögum fyrir þinghlé. Það er kannski eins og oft vill verða en ég hef farið yfir nokkur atriði sem það snertir.

Ef ég sný mér síðan að frv. efnislega sem hér er til umræðu er ljóst að það felur í sér ýmis ákvæði sem ég tel mjög eðlilegt að lögfesta og ég tel eðlilegt að ljúka afgreiðslu á því máli núna fyrir jólahlé. Eitt sérstakt efni frv. hefur verið hér til umræðu, þ.e. greiðslur til formanna stjórnmálaflokka sem eru ekki ráðherrar, þ.e. eins og staðan er í dag formanna stjórnarandstöðuflokkanna. Afstaða mín er sú að það sé sanngjarnt og eðlilegt að þessir aðilar njóti betri kjara en almennir þingmenn. Mér finnst það bara eðlilegt. Við höfum fylgst með þeim ágætu félögum okkar, formönnum stjórnarandstöðuflokkanna, og upplifað það að þeir hafa lagt af mörkum mjög mikla vinnu. Á þeim er mikið álag í allri þeirri umræðu sem á sér stað um stjórnmál og ýmis þau störf sem fylgja. Mér finnst mjög eðlilegt að þessir aðilar njóti álags á laun sín og ég mun styðja að það verði með þeim hætti sem fyrir liggur í því frv. sem hér er til umræðu. Ég tel líka að þau ákvæði sem fjalla um eftirlaun í frv. séu til bóta og ég tel eðlilegt líka að frv. verði afgreitt með þeim hætti sem fyrir liggur.

Miðað við umræðuna eins og hún hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu og af hálfu ýmissa aðila í þjóðfélaginu held ég að við þurfum að halda því til haga, sem við auðvitað vitum, að með þessu frv. er ekki verið að hækka laun almennra þingmanna. Ég tel að við hv. þm. sem erum hér að störfum á Alþingi eigum að sameinast um að halda því til haga og leiðrétta þann misskilning sem greinilega hefur verið uppi í þjóðfélaginu að verið sé að hækka laun almennra þingmanna. Það er ekki svo. Það er mál sem við ættum að geta staðið saman um að halda til haga og sjá til þess að réttar upplýsingar komi fram í umræðunni (Gripið fram í.) með þeim brtt. sem hér liggja fyrir og eins og málið er rætt í þessari umræðu. Ég lýsi mig reiðubúinn til að ræða við hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur eftir að ég hef lokið ræðu minni en óska eftir því að fá frið til að flytja ræðu mína núna. Við skulum bara ræða saman á eftir. Ég ítreka að ekki er verið að hækka laun almennra þingmanna en þarna er um að ræða formenn þessara stjórnarandstöðuflokka.

Ég vil síðan í lokin taka undir það sem kemur fram í nál. meiri hluta allshn., þ.e. að Kjaradómi verði falið að ákvarða greiðslur til þeirra þingmanna sem gegna sérstökum trúnaðar- og ábyrgðarstörfum á Alþingi. Ég tel það eðlilegt og styð þá breytingu sem meiri hlutinn leggur til í nál. sínu og vil enda mál mitt á því að segja að ég tel engin rök til þess að fresta afgreiðslu þessa máls. Ég tel að það liggi mjög ljóst fyrir. Það er búið að vinna það vel í allshn. og þess vegna styð ég að málið verði tekið til lokaafgreiðslu áður en hv. Alþingi lýkur störfum fyrir jól.