Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 12:24:19 (3378)

2003-12-13 12:24:19# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[12:24]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Síðasti hv. ræðumaður hélt því fram að ekki hefði staðið til að hækka laun einstakra þingmanna. Þó gerði frv. við fyrstu gerð ráð fyrir að 22 af 51 sléttum þingmanni fengju hækkun með hækkun álags úr 15% í 20%. Það hefði t.d. þýtt að laun eins hv. þm. sem nú situr í forsetastóli hefðu hækkað um 45 þús., úr álagi sem var u.þ.b. 135 þús. kr. í álag sem er 180 þús. kr. Nú er búið að ákveða að benda Kjaradómi á að hækka þetta vegna þess að menn treysta sér ekki til þess að gera það hér í þinginu, og það er auðvitað hróss vert.

Erindi mitt í ræðustólinn var þó þetta fyrst og fremst: Skildi ég hv. þm., formann fjárln. og fleira, rétt að það væri sérstök aðfinnsla hjá honum að þingmenn Samf. hlustuðu og hefðu samráð við forustu verkalýðshreyfingarinnar?