Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 12:42:23 (3394)

2003-12-13 12:42:23# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, KolH
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[12:42]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Ég vil taka fram varðandi það mál sem við nú ræðum að ég sit sem áheyrnarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í allshn. Fyrsta verk mitt á fundi nefndarinnar þegar þetta var tekið til umræðu var að óska formlega eftir því að afgreiðslu málsins yrði frestað, það yrði kostnaðarmetið og yrði síðan unnið í janúar og febrúar og tekið þá til endanlegrar afgreiðslu þingsins þegar menn teldu málið hafa fengið fullnaðarmeðferð í nefndinni. Þessari formlegu tillögu minni í nefndinni var hafnað af formanni nefndarinnar.

Í afgreiðslu málsins og vinnslu þess í nefndinni var afstaða mín til þess alveg ljós. Hún kom fram í ræðu minni við 1. umr. málsins. Í ljósi þess hélt ég mig talsvert til hlés í umræðum um málið í nefndinni og tók ekki beinan þátt í gerð brtt. á sama hátt og hv. þingmenn Samf. gerðu eins og komið hefur fram við umræðuna. Ég taldi ekki ástæðu til þess þar sem afstaða mín lægi ljós fyrir.

Hver var þessi afstaða mín sem ég gerði grein fyrir við 1. umr. málsins? Hún var í nokkrum þáttum. Í fyrsta lagi tímasetningin. Ég gagnrýndi tímasetningu framlagningarinnar því ég tel það ekki forsvaranlegt að á meðan 1.400 milljónir vantar til að halda óbreyttum rekstri eða óbreyttu þjónustustigi á Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi og ríkisstjórnin ætlar að horfa upp á það að hundruðum starfsmanna þar verði sagt upp, þá leggi menn fram frv. á Alþingi sem hækkar til muna eftirlaunarétt ráðherra í ríkisstjórninni.

Ég tel heldur ekki forsvaranlegt að þegar ríkisstjórnin hefur nýverið gengið á bak orða sinna varðandi samkomulag það sem gert var við öryrkja fyrir kosningar og neitar að greiða þær 500 milljónir sem á vantar til að samkomulagið verði efnt að fullu, þá sé lagt fram frv. af því tagi sem hér um ræðir.

Ég tel einnig í ljósi þess hlálega leiðangurs sem Framsfl. er nýkominn úr, sneypulegur með skottið á milli lappanna eftir að hafa ætlað að gera aðför að atvinnulausu fólki, að ekki sé forsvaranlegt að leggja fram frv. af því tagi sem hér um ræðir. Að ekki sé talað um yfirlýsingar hæstv. forsrh. í garð þeirra sem hafa verið að skammta sér ofurlaun í atvinnulífinu í nafni mikils hagnaðar banka og fjármálastofnana. Af þessum sökum tel ég ekki forsvaranlegt að lagt sé fram frv. á Alþingi af þessu tagi.

[12:45]

Ég orðaði það svo við 1. umr. að það væri auðvitað alltaf erfitt að leggja fram frv. af þessu tagi sem fjallaði um kaup og kjör þingmanna, en kannski sýnu erfiðast að gera það í upphafi nýs kjörtímabils þegar menn eru að véla um eigin kjör, en ekki þess þings sem enn er ekki kosið. Ég teldi því heppilegra, og ítreka það hér, að mál af þessu tagi væru rædd í lok kjörtímabils þannig að menn séu ekki sýnilega að véla um eigin kjör, heldur kjör þeirra þingmanna sem fyrirsjáanlega yrðu kosnir í næstu kosningum.

Ég tel þann örstutta tíma sem þinginu hefur verið ætlað að fjalla um þetta mál vera ámælisverð vinnubrögð. Ég lýsi því yfir að ef menn geta staðið heilir á bak við mál af því tagi sem hér er lagt fram, skipti ekki máli hversu lengi þeir ákveða að standa að baki því eða verja það í augum almennings. Maður sem getur varið þetta mál með ræðum sínum og framgöngu sinni í einn sólarhring eða tvo, getur staðið á bak við svona mál í einn mánuð eða tvo, eða eitt ár, eða svo lengi sem hann sjálfur kýs að standa á bak við málið og verja það. Þess vegna er það fullkomlega óábyrgt að heimila ekki eðlilega umfjöllun um þetta mál og gefa því þann eðlilega tímaramma sem stærð þess útheimtir.

Varðandi efnisatriði málsins er afstaða mín til þeirra misjöfn, mér eru þau ekki öll að skapi. Ég hef lýst því yfir að ég geti stutt það sem horfi til betri vegar, það varðar fyrst og fremst breytingar á ávinnslu lífeyrisréttinda. Að öðru leyti hef ég lýst mig ósamþykka þeirri stéttaskiptingu sem mér finnst vera fólgin í frumvarpinu að mörgu leyti, bæði hvað varðar kjör almennt og ekki síður eftirlaunakjör.

Varðandi það sem hér hefur komið fram um vinnubrögðin, vil ég lýsa því að ég er sammála hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur sem lýsti í sinni ræðu heilbrigðum vinnubrögðum við mál af því tagi sem hér er til umfjöllunar. Hún lýsti heilbrigðum vinnubrögðum fyrri ára varðandi svona mál. Hún lýsti vinnubrögðum sem ég tel til fyrirmyndar sem litast af samvinnu og samstöðu, sem litast af vilja manna til þess að ná samstöðu um mál og hafa um þau einingu. Hér hefur ekki verið slíku til að dreifa, menn hafa hreinlega ekki gefið sér þann tíma sem til hefði þurft í slíkt.

Mér hefur virst bera á því á seinni árum að ný og verri vinnubrögð séu viðhöfð af þeirri ríkisstjórn sem nú situr, vinnubrögð sem lituð eru af hroka þess eða þeirra sem hafa farið með valdið of lengi. Hér er um prýðisdæmi að ræða, skólabókardæmi nánast um það hvernig menn geta látið valdið spilla sér, því hér sýnist mér að um hafi vélað hrokafullir karlar sem hafa ekki gætt sanngirni í því hvernig málið er orðið til, hvernig það er lagt fram, hafa ekki lagt á sig neitt varðandi það að hér verði samvinna eða eindrægni eða samstaða um málið. Ég tek undir það sem hefur verið gagnrýnt í þessum vinnubrögðum.

Því hefur verið haldið fram af formanni allsherjarnefndar, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, að málið hafi notið stuðnings formanna allra flokka. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og reyndar líka hv. þm. Magnús Stefánsson hafa talað um að samkomulag hafi verið gert við formenn stjórnmálaflokkanna um málið. Virðulegur forseti. Í mínum huga er þetta ekki svona. Samkomulag var það ekki og stuðningi var ekki heitið umfram það sem hver og einn einstaklingur getur lofað fyrir sig, raunar lá ljóst fyrir strax á fyrstu stigum að andstaða væri við málið í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Sú andstaða var skýrð á yfirvegaðan og málefnalegan hátt af þeirri sem hér stendur og af hv. þm. Ögmundi Jónassyni við 1. umr. þessa máls. Á þeim tíma sem rætt var við formenn stjórnmálaflokkanna um málið lá ekkert fyrir um þá flýtimeðferð sem hér hefur verið viðhöfð, eða að ekki yrði lagt kostnaðarmat á málið. Ekkert lá fyrir um hvaða breytingar meiri hlutinn yrði tilbúinn til að gera á málinu við þessa þinglegu meðferð sem nú hefur staðið allt of stutt og ekkert lá fyrir um stuðning þingflokkanna við málið. Ég leyfi mér að halda því fram að því sé ranglega haldið fram að um samkomulag hafi verið að ræða, þó því hafi aldrei verið neitað að formaður flokksins, Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, hafi fengið vitneskju um að málið væri í vinnslu.

Virðulegur forseti. Ég lít svo á að það eigi eftir að upplýsa hverjir sömdu þetta frumvarp. Óskað var eftir vitneskju um það í allsherjarnefndinni, en um það barst engin vitneskja. Það var eingöngu sagt að málið hafi ekki verið samið í fjármálaráðuneytinu. Mér finnst óeðlilegt, virðulegur forseti, að þingmenn fái ekki að vita hver stendur á bak við samningu þessa frumvarps. Hver upphugsaði það? Hver er hönnuður þeirrar hugmyndafræði sem kemur fram í því? Og hverjum datt í hug að kynna þetta mál fullbúið meðflutningsmönnum sínum án þess að þeir fengju að gera nokkrar breytingar eða lagfæringar á málinu, nánast einu andartaki áður en því var dreift á þinginu?

Virðulegur forseti. Það þarf enginn að furða sig á því sem hér hefur gerst á síðustu dögum varðandi þetta mál, í ljósi þess hvernig málið er orðið til, í ljósi þess hvernig það er kynnt og í ljósi þess hvernig þrýst hefur verið á um afgreiðslu þess.

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir ályktun sem gerð var á útifundi á Austurvelli 11. desember 2003 og send hefur verið þingmönnum og ég vil mótmæla ummælum hæstv. forsrh. sem gerði lítið úr því fólki sem safnaðist saman, nokkrum hundruðum saman, og hélt því fram að hér væri ekki einu sinni starfslið einhverrar skrifstofu úti í bæ. Ummæli af því tagi sem hæstv. forsrh. viðhafði í sjónvarpsfréttum um þetta fólk sem þar stóð og tjáði okkur þingmönnum tilfinningar sínar eru ekki sæmandi.

Ályktun sú sem samþykkt var á þessum útifundi, þar sem mótmælt var harðlega þessu frv., á fullan rétt á sér. Ég tek undir þá kröfu sem fundurinn samþykkti, að þetta mál eigi að draga til baka og við eigum að falla frá þessum áformum, setja málið í annan farveg, vinna það á öðrum nótum og reyna að ná samstöðu um þau mál sem hægt er að ná samstöðu um.