Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 13:43:08 (3397)

2003-12-13 13:43:08# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[13:43]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna ummæla sem hv. þm. Steinunn Pétursdóttir lét falla um þetta frv. Hv. þm. sagði að hér væri um að ræða kjarabætur fyrir þingmenn og ráðherra sem þingmenn væru að skammta sér, eins og fram kom í ræðunni. Ég vil bara taka það fram þannig að því sé haldið til haga að þetta frv. gerir ekki ráð fyrir kjarabótum fyrir alla þingmenn, eins og það er fram sett. Verði það að lögum munu meira að segja útgreidd laun til einstakra þingmanna lækka lítillega.

Ég vil líka benda á að í meðförum allshn. var gerð sú breyting á frv. að álag til varaforseta og formanna nefnda verður ekki hækkað. Þetta hefur þá raunhæfu þýðingu að þær kjarabætur sem samkvæmt frv. eins og það var lagt fram hefði náð til 22 alþingismanna ná nú einungis til þriggja alþingismanna. Ég tel mjög mikilvægt að þetta komi fram í þessari umræðu (Gripið fram í.) og því sé haldið til haga þegar menn eru að tala um að hér sé um að ræða verulegar kjarabætur fyrir alla þingmenn. (Gripið fram í: ... hvernig stendur á því ... formenn flokkanna ...?) Svo er ekki.