Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 13:59:29 (3406)

2003-12-13 13:59:29# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Máltækið segir: Margur heldur mig sig. Og hv. þm. er að ætla formanni Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hugsanir sem eru greinilega að kveikja í hans eigin kolli. Þetta er ómaklegt.

Ég hef sagt það skýrt og greinilega í ræðum mínum að ég tel það kjarabil sem verið er að búa þingmönnum og ráðherrum óeðlilegt og ég hef gagnrýnt það álag sem er greitt ofan á þingfararkaupið til hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni. Ég hefði viljað draga stórlega úr þessu ef það yfirleitt á að vera nokkur kjaramunur. Ég teldi eðlilegt að hér væru allir á sömu kjörum. Ég sagði hins vegar að í þessu samhengi þætti mér ekki óeðlilegt að litið væri til formanna stjórnarandstöðuflokkanna þannig að þeir fengju eitthvert hlutfall eða eitthvert brot af því sem ráðherrar fá í sinn hlut. (Landbrh.: Hvað hátt?) Er þetta ekki alveg skýr afstaða? (Landbrh.: Nei.) Þetta er ekki skýr afstaða? Ég skal þá taka til máls hér að nýju og ræða þetta frv. rækilega til að upplýsa hæstv. landbrh. um málið. Það væri fróðlegt að fá hann líka hingað í ræðustól. Ég man ekki eftir því að hann hafi tjáð sig um þetta. (Gripið fram í.) Eigum við ekki bara að fara í að skoða frv. með tilliti til þeirra lífeyriskjara sem verið er að búa hæstv. landbrh. Guðna Ágústssyni? (Gripið fram í: Það er búið ...) Hver veit nema þetta sé klæðskerasniðið af hálfu utanrrh. til að losna við Guðna Ágústsson, varaformann flokksins, úr embætti? Eigum við ekki bara að líta á þetta?