Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 14:27:24 (3423)

2003-12-13 14:27:24# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, EOK
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[14:27]

Einar Oddur Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. sem við héldum allir, þegar það var lagt fram, að væri þverpólitískt, að allir fimm stjórnmálaflokkarnir stæðu að því. Því trúðum við og okkur var sagt það. Það er einhver meiningarmunur um það núna en það breytir ekki innihaldi frv. Ég leit þannig á að um samkomulagsmál væri að ræða og auðvitað styð ég frv. heils hugar. En ég vil geta þess, virðulegi forseti, að skoðun mín hefur mjög lengi verið sú að við ættum að ganga lengra en við gerum núna. Ég hef trúað því mjög lengi að rétt væri að forusta stjórnarandstöðunnar hefði að öllu leyti status ráðherra. Það væri mjög nauðsynlegt til að tryggja störf í þinginu og tryggja það að stjórnarandstaðan gæti gegnt því mikilvæga hlutverki sem hún hefur í þingræðisríki. Ég er því sannfærður um að með samþykkt frv. erum við að stíga skref í þá átt, en er líka sannfærður um að það er rétt hjá mér að forusta stjórnarandstöðunnar á að hafa sama status, sömu laun og sömu starfsaðstöðu og ráðherrar. Ég vona að þegar menn velta þessu fyrir sér og gera það af mikilli alvöru sjái þeir að það yrði til mikils gagns fyrir starf á Alþingi, fyrir lýðræðið á Íslandi.

Mér finnst mjög óviðeigandi, virðulegi forseti, að menn séu að persónugera þetta við þá þrjá hv. þingmenn sem gegna þessum störfum núna. Það er mjög ómaklegt. Þetta á að sjálfsögðu við alla stjórnmálaflokka og enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér með það, enginn veit hver gegnir þessu starfi í framtíðinni né heldur hvaða stjórnmálaflokkar eru í stjórnarandstöðu. Þetta er almennt ákvæði til að tryggja betri störf og að stjórnarandstaðan sé betur í stakk búin til að rækja sitt starf. En mér hefur fundist vanta mjög á það þann tíma sem ég hef setið á Alþingi.

Hér hefur líka verið rætt um stöðu ráðherra og sérstaklega um stöðu hæstv. forsrh. Ég tel því rétt að sú skoðun mín komi fram, virðulegi forseti, sem ég hef alltaf haft að forsætisráðherra Íslands eigi alltaf að hafa hæst laun allra þeirra sem eru á launaskrá lýðveldisins. Alltaf og undantekningarlaust. Ég er einnig þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að það sé fráleitt að sá aðili sem hefur gegnt störfum forsrh. hafi verri aðstöðu en t.d. hæstaréttardómarar sem ganga nú frá sínum störfum með 100% laun, sem mér finnst eðlilegt að forsrh. sem hefur gegnt því starfi lengi hafi. Mér finnst mjög eðlilegt og sjálfsagt að svo sé.

Það vakti vonbrigði hjá mér, virðulegi forseti, í umræðunni það litla smáupphlaup sem varð hér í fyrradag. Ég ræddi töluvert við það fólk sem var fyrir framan þinghúsið og komst að því að þetta voru hin elskulegustu ungmenni sem höfðu gaman af og voru fegin því þegar ég reyndi að upplýsa þau um hvað málið snerist, en þeim var ekki kunnugt um það áður en þau hófu mótmælin.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég tel ástæðu til að vekja athygli á því að í fjárlögum erum við að styrkja hagdeild Alþýðusambands Íslands með um 10 millj. kr. Ég tel brýnt að bæta verulega við það því það er náttúrlega alveg ófært að Alþýðusamband Íslands geri sig sekt um að koma með aðra eins vitleysu, aðra eins bullreikninga og þeir, því miður, gáfu blöðunum upp og sýndu almenningi fyrir nokkrum dögum. Það er nauðsynlegt að styrkja þetta, a.m.k. tvöfalda eða þrefalda framlagið til hagdeildarinnar svo við getum verið örugg um að svona gerist ekki aftur. Það má bara ekki gerast.

Ég vil segja, virðulegi forseti, að við fjöllum um mál sem er til þess að efla starfið á þinginu, tryggja betri vinnubrögð á Alþingi. Það má alls ekki og er ekki viðeigandi að vera að persónugera það á nokkurn hátt, hvort sem það eru stjórnarandstöðuþingmenn eða stjórnarþingmenn. Þetta er hugsað til þess að efla og bæta starfið á Alþingi. Og ég vil líka segja, virðulegi forseti, að þó að það sé nokkur tíska hér á landi að menn séu með kersknistal um alþingismenn og sumum þyki það dálítið gaman þá er það mín reynsla, og ég vona að það sé flestra, að þetta er bara í nösunum á mönnum. Ég hef t.d. aldrei, virðulegi forseti, kynnst nema sérstaklega mikilli elsku, hjálpsemi og vináttu frá öllum þeim fjölda fólks sem ég hef kynnst í starfi mínu sem alþingismaður og ég vona að reynsluheimur flestra sé þannig líka.