Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 14:44:53 (3427)

2003-12-13 14:44:53# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, PM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Páll Magnússon (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er beinlínis fyndið að hlusta á hv. þm. Lúðvík Bergvinsson væla undan þingmönnum Framsfl. Hann er meðal stjórnarandstæðinga sem sitja í salnum daglangt, gjammandi fram í fyrir stjórnarþingmönnum þegar þeir flytja mál sitt. Á það hafa þingmenn horft í mörg ár. Svo þegar þingmenn stjórnarflokkanna leyfa sér að gagnrýna stjórnarandstöðuna þá er það fyrir neðan beltisstað, ómálefnalegt og ódrengilegt.

Auðvitað er það skelfilegt fyrir þingmenn Samf. að við, þingmenn Framsfl., skulum draga fram það ástand sem ríkir innan Samf. í dag. Það var ykkar vilji, hv. þm. í Samf., að halda þessu loki á pottinum svo ekki kæmi í ljós að það er allt kraumandi í honum. Enda hafið þið fram til þessa lítið tekið þátt í umræðunni og haft meiri áhuga á fjárlagafrv. sem afgreitt var.

(Forseti (HBl): Það á ekki að tala í 2. persónu til þingmanna heldur á að beina orðum sínum til hæstv. forseta.)

Þakka þér fyrir ábendingu þessa, hæstv. forseti. Ég skal reyna að halda mig við þingsköpin.

Það liggur fyrir að formenn allra stjórnmálaflokkanna stóðu að framlagningu þessa máls. Það liggur fyrir. Það liggur einnig fyrir að tveir hv. þingmenn Samf. sem hér hafa tekið til máls í umræðunni lýsa sig fylgjandi efni frv. í öllum meginatriðum. Þeir þora bara ekki að styðja það. Af hverju skyldu þessir hv. þingmenn ekki þora að styðja mál sem þeir eru efnislega sammála? Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hafa bæði farið yfir málið, lýst sig efnislega fylgjandi því, fylgjandi þeirri þróun sem hér er verið að marka en þora ekki að styðja það. (RG: Þetta er rangt.) Og það er auðvitað vegna þess að verkalýðsforingjarnir úti í bæ hræddu líftóruna úr hv. þingmönnum. Innkoma Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, varaformanns Samf., á fimmtudagskvöldið hafði þau áhrif að hv. þingmenn þora ekki að fylgja málinu eftir.