Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 15:00:07 (3432)

2003-12-13 15:00:07# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[15:00]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að endurtaka það enn og aftur að samkomulag formanna flokkanna laut ekki bara að því að leggja málið fram. Það laut að efnisatriðum frv. sem ég fór yfir í ræðu minni. En þegar hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir getur haldið því fram að það hafi komið henni á óvart að málið skyldi ekki liggja þegar þau guggnuðu á því að fylgja málinu eftir kemur það mér óskaplega mikið á óvart vegna þess að hafi formenn flokkanna og þar á meðal formaður Samfylkingarinnar verið áfram um það að ná fram þessum breytingum sem frv. á að fylgja og ef flokksmenn hans voru ekki menn til að koma því út úr nefndinni og inn í þingið var þó hægt að treysta á okkur, meiri hlutann í allshn., til að klára málið. Ég veit ekki hvaðan sú hugsun kemur að ef minni hlutinn, í þessu tilviki eins og hann skipaðist í allshn., lætur sér detta í hug að málið eigi að daga þar uppi, að það eigi þá að gera það en meiri hlutinn hafi ekkert með það að segja. Við vorum að styðja m.a. það sem formaður hennar flokks, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hafði samþykkt að kæmi fram í frv. og lagabreytingu sem hann studdi.