Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 15:05:35 (3436)

2003-12-13 15:05:35# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[15:05]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrðist hv. þm. Mörður Árnason vera að bakka með einhver orð sem hann hafði eignað mér, orð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, svo að ég legg til að hann biðjist afsökunar á því. En varðandi það að fallið hafi verið fallið frá því að hækka álagið úr 15% í 20%, þá ætla ég bara að endurtaka það sem ég sagði áðan. Það var almenn samstaða um það í nefndinni hjá fulltrúum allra flokka að hækka þetta ekki úr 15% í 20%. Hins vegar, ég veit ekki, herra forseti, hvort það var viljandi eða óviljandi, lét hv. þm. Mörður Árnason að því liggja áðan að sumir þingmenn væru með þrefalt álag. Ég ætla að leiðrétta það. Það er undir engum kringumstæðum þannig og það sem ég ætla líka að árétta er að með greininni sem lýtur að breytingum á lögunum um þingfararkaup og þingfararkostnað er einungis verið að festa í lög þá framkvæmd sem hefur verið árum og áratugum saman, líka þegar fulltrúar þeirra flokka sem nú eru í stjórnarandstöðu voru í meiri hluta í þinginu og gegndu formennsku í nefndum. Það er því enginn munur á. Nú erum við bara að fá inn í lagabókstafinn það sem unnið hefur verið eftir í þinginu og kjör sem menn hafa starfað eftir árum saman.