Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 15:07:05 (3437)

2003-12-13 15:07:05# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, HHj
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[15:07]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Það hefur verið nokkuð fróðlegt að fylgjast með umræðunni í dag. Ég vil spyrja hvort formaður allshn. sé ekki örugglega viðstaddur. (Gripið fram í: Jú.) Já, ljómandi, þakka þér fyrir, hv. þm. Bjarni Benediktsson. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðunni í dag, hún hefur sumpart minnt mann á sandkassa eða róluvöll þar sem menn hafa verið að saka hverja aðra um að standa í lappirnar eða standa ekki í lappirnar. Ég held að það sé sama hvaða skoðanir menn hafa á efnisatriðum málsins og hvort menn eru fylgjandi frv. eða andstæðir því, megi mönnum nú vera ljóst eftir þau viðbrögð sem það hefur hlotið í samfélaginu að í því er að mörgu leyti verið að sigla gegn straumi tímans og verið að sigla gegn hinni almennu þróun í kjaramálum, á launamarkaði og í lífeyrismálum sem verið hefur á undanförnum árum og áratugum. Við höfum hvarvetna verið að leitast við að draga úr ýmiss konar sérreglum og sérréttindum, duldum launakjörum, flytja þau inn í hin almennu launakjör. Við höfum verið að reyna að komast frá uppsöfnuðum skuldum gegnumstreymissjóðanna inn í söfnunarsjóði til þess að mynda ekki með ákvörðunum okkar skuldir langt inn í framtíðina og sl. tíu ár hefur mönnum gefist kostur á því að leggja af launum sínum fé í séreignarsjóði, hin síðari ár með sérstökum skattfríðindum. Tekjuháu fólki eins og alþingismönnum og ráðherrum hefur auðvitað gefist kostur á því að leggja umtalsverðar fjárhæðir með þeim hætti til hliðar sem standa þeim síðan til ráðstöfunar þegar sextugsaldri er náð. Með þessum hætti held ég að allir hafi séð hina almennu þróun í kjaramálum og lífeyrismálum og sama, eins og ég sagði áður, hvort menn fylgja þessu frv. eða eru því andvígir hygg ég að menn hljóti að sjá að það frv. sem hér er lagt fram lýtur ekki í þessa átt heldur meira í þá átt sem snýst til fortíðar um það að safna upp frekari lífeyrisskuldbindingum í gegnumstreymissjóði og auka enn dulin réttindi manna og launakjör. Það ætti þess vegna ekki að koma mönnum neitt á óvart þó að viðbrögðin utan húss hafi verið harkaleg. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að þó að sumir kunni að vera stoltir af því að standa ölduna þegar siglt er gegn straumi tímans, þá kunni stundum að vera skynsamlegra að snúa skipi sínu í þá átt sem straumurinn liggur.

Ég vil þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir hans nefndarálit. Við 1. umr. málsins á fimmtudaginn voru þrjú atriði sem ég dró sérstaklega fram í þessu frv. og spurði forseta Alþingis eftir. Fyrsta atriðið var um það hvort hann teldi ekki að betur færi á því, hæstv. forseti, að Kjaradómur fjallaði um þessa þætti í kjaramálum alþingismanna eins og um þingfararkaupið sjálft, hvort ekki færi betur á því að Kjaradómur tæki þær ákvarðanir þannig að menn sætu ekki með þann kaleik í þessum sal að ákveða sjálfir sín eigin laun og réttindi.

(Forseti (HBl): Ég biðst afsökunar á að þurfa að grípa inn í ræðu hv. þm. en það var 2. þm. Norðaust. sem var 1. flm. málsins en ekki forseti Alþingis.)

Það er rétt en það er kannski ástæða til þess að benda þeim sem ekki þekkja til þingskapa á að hæstv. forseti Alþingis, Halldór Blöndal, og hv. 2. þm. Norðaust., Halldór Blöndal, eru einmitt sama persónan í augnablikinu.

Þegar ég nú sé nefndarálit meiri hluta allshn. vil ég fagna því að þar er tekið undir þessi sjónarmið sem hv. 2. þm. Norðaust. Halldór Blöndal deildi ekki með mér við 1. umr. en meiri hlutinn segir að Kjaradómur eigi eða ætti að fjalla um þá þætti sem lúta að álagsgreiðslum ef ég hef skilið nefndarálitið rétt. Ég vil spyrja hv. formann allshn. hvort hann telji ekki að sömu rök eigi í raun og veru við um lífeyrisþáttinn í kjörum alþingismanna og hvort það sé ekki einfaldlega hreinlegt og rétt að öll kjör alþingismanna séu ákvörðuð á einum stað en ekki á tveimur eins og nú er.

Í öðru lagi spurði ég eftir því, og það hefur verið eitt af helstu gagnrýnisatriðunum við þetta frv., hvort verið gæti, þrátt fyrir þá miklu umræðu sem verið hefur undanfarið í samfélaginu um starfslokasamninga og ýmsa aðra samninga, að hér væri verið að veita einstökum mönnum óhóflegar fjárhæðir í réttindum allt að 100 millj. kr. eins og mér sýndist þá vera og hv. 2. þm. Norðaust. staðfesti að svo kynni að vera ef ýtrustu réttindi væru tekin.

Þá komum við að þriðja atriðinu sem ég gerði athugasemdir við strax á fimmtudag. Það var að kostnaðarmat lá ekki fyrir og ég spurði hv. 2. þm. Norðaust. Halldór Blöndal að því hvort hann teldi að boðlegt væri að afgreiða frv. án þess að kostnaðarmatið lægi fyrir og taldi hv. 2. þm. Norðaust. Halldór Blöndal að svo væri. En ég fagna því að hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður allshn., hefur ekki talið að það sé boðlegt að afgreiða frv. um kjör okkar sjálfra sem ekki lægi fyrir kostnaðarmat og hafi líka í þessu breytt út frá þeim yfirlýsingum sem komu frá hv. 2. þm. Norðaust. Halldóri Blöndal við 1. umr. Þetta kostnaðarmat sýnir okkur að kostnaðurinn er ekki um það bil núll eða 0% eins og margir stjórnarliðar hafa verið að halda fram í umræðunni síðustu daga. Það sýnir að kostnaðurinn hleypur einhvers staðar frá því að vera í rauninni aðeins í fræðilegu tilfelli 0 en síðan á fimmta hundrað millj. kr. í versta tilfelli sem er auðvitað líka fræðilegt tilfelli. Ef gera má ráð fyrir að menn nýti sér réttindi sín fremur en ekki er sanngjarnt að ætla, miðað við það grófa mat sem hér liggur fyrir, að kostnaðurinn við þetta verði 300 millj. kr. Það eru engar smáar fjárhæðir, það eru ekki 1 eða 2 millj. kr., það eru ekki 6 millj. kr. eins og hæstv. forsrh. hefur verið að tala um, 300 millj. kr. er hvorki meira né minna en nettókostnaðurinn af því að uppfylla öryrkjasamkomulagið á næsta ári. Það er bara nákvæmlega nettókostnaðurinn við það að standa við samkomulagið við Öryrkjabandalag Íslands á næsta ári. 300 millj. kr. Það eru verulegir fjármunir. Það er vert að halda því til haga að þetta kostnaðarmat á auðvitað aðeins við um þá þingmenn og ráðherra sem nú sitja en frv. hefur líka í för með sér skuldbindingar vegna þeirra sem síðar koma inn.

[15:15]

Ég hygg hins vegar að skuldbindingar vegna alþingismanna séu óverulegar og vil spyrja hv. formann allshn. hvort ekki sé hægt að fá upplýsingar um það hve stóran hluta af auknum skuldbindingum vegna alþingismanna megi rekja til embættis forseta Alþingis, og ég legg áherslu á að það er til embættis forseta Alþingis en ekki persónunnar sem því gegnir, og tek undir með þeim sem hér hafa talað um að menn persónugeri ekki málið með neinum hætti. Hvort hægt er að verða við þessu veit ég ekki en ég óska hér með eftir því.

Hitt er svo alveg ljóst að frv. og 6. gr. þess felur í sér alveg sérstakar ívilnanir til embættis forsrh. og verið er að segja með frv. að það eigi að hafa svipaða stöðu og embætti forseta Íslands. Embætti forseta Íslands er í því kostnaðarmati sem hv. þm. Bjarni Benediktsson kynnti áðan sérgreint. Það er sérgreint og það liggur fyrir hver kostnaðurinn við embætti forseta Íslands er. Það er alveg augljóst og það veit hver maður að Talnakönnun hefur, samkvæmt því sem hv. þm. Bjarni Benediktsson las upp, reiknað nákvæmlega út hver kostnaðurinn er, hver skuldbindingin er vegna frv., við embætti forsrh. Og vegna þess að það hafa verið miklar deilur um hver kostnaðurinn við embætti forsrh. verði vegna þessa frv. tel ég að það sé algerlega nauðsynlegt að kallað verði eftir þeim upplýsingum og Talnakönnun láti hv. þm. Bjarna Benediktssyni þær í té því að þær liggja klárlega fyrir.

Ég vil þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir hve skörulega hann gekk fram í því að ná í þetta kostnaðarmat en ég varð sannarlega fyrir vonbrigðum þegar hann í andsvörum við annan hv. þm. reyndi að snúa sig út úr því að leggja fram kostnaðarmatið hvað varðar embætti forsrh. því að hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði að það væri ekki hægt vegna þess að þá yrði að upplýsa um hver væri áætlaður lífaldur þeirra sem því embætti hefðu gegnt eða gegndu, en það er aldeilis alveg fráleitur útúrsnúningur og hv. þm. Bjarni Benediktsson veit betur. Í þeim forsendum sem hann sjálfur las upp í þeirri sömu ræðu eru forsendur þessara útreikninga meðallífslíkur fólks á árabilinu 1996--2000 og það er ekkert persónulegt við það. Þegar Talnakönnun hefur reiknað út mögulegan kostnað við embætti forsrh. þá hefur hún stuðst við meðallífslíkur fólks á árunum 1996--2000. Ég tel einfaldlega allra hluta vegna mikilvægt að þessar upplýsingar liggi fyrir í umræðunni vegna þess að annars staðar í samfélaginu hefur tölum upp í 240 millj. kr. verið flaggað í tengslum við embætti forsrh. og ef þær eru eitthvað lægri, sem virðist, kannski nær 100 millj. eins og ég giskaði á við 1. umr. eða jafnvel enn lægri, hlýtur það að skipta máli við umfjöllun um frv. að það liggi fyrir. Og ég trúi því og treysti að hv. þm. Bjarni Benediktsson beiti sér jafnskörulega fyrir því að koma fram með þennan þátt kostnaðarmatsins eins og hann gerði í því að ná fram kostnaðarmatinu sjálfu og trúi ekki öðru en hæstv. forsrh. stuðli að því og leggi áherslu á að upplýsingum um kostnað vegna embættis forsrh. verði ekki leynt.