Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 15:20:19 (3438)

2003-12-13 15:20:19# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til mín hefur verið beint nokkrum spurningum og gerðar athugasemdir við málflutning minn fyrr í dag. Fyrst aðeins varðandi það sem segir í nefndarálitinu, að meiri hlutinn telji eðlilegt í ljósi þess að Kjaradómur ákveði samkvæmt gildandi lögum þingfararkaup ákveði hann einnig kjör þingmanna í heild sinni. Með þessu orðalagi var fyrst og fremst átt við álagsgreiðslurnar, enda hafa þær komið sérstaklega til umfjöllunar. En ég tel að það sé ekkert ólíklegt, ef svo fer sem nefndin leggur til, að það verði tekið til athugunar hvort gera skuli breytingar á lögunum um Kjaradóm, að það verði tekið til athugunar um leið hvort Kjaradómur eigi með réttu að ákveða heildarlaunin. En nefndin var fyrst og fremst að vísa til álagsgreiðslnanna.

Varðandi forsrh. þá hefur ekki verið reiknað sérstaklega út hve stóran hlut hann á í þessum 211 millj. sem í versta falli geta fallið á sem aukinn eftirlaunaskuldbinding en mér skilst samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið munnlega að embætti forsrh. sé innan við helmingur af tölunni.