Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 15:25:50 (3442)

2003-12-13 15:25:50# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. styður aukið gagnsæi og ég geri það sömuleiðis. Ég spyr hann: Telur hann óeðlilegt að horfast í augu við það að alþingismannadeild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er í reynd gegnumstreymi og í þessum hugmyndum er einmitt tekið mið af því? Þá vil ég spyrja hann hvort hann vilji hafa það kerfi sem haft hefur verið hingað til að þingmenn og ráðherrar séu gerðir að sendiherrum og forstjórum ríkisstofnana og þannig sé komið með eins konar atvinnuleysistryggingu fyrir þá. Hvort ekki sé miklu betra að horfast í augu við hvað menn eru að gera.

Þá vil ég spyrja hann að því hvort hann viti ekki að þessi skuldbinding er varanleg til lengri tíma, til 40 ára en ekki eins árs skuldbinding eins og meintur samningur við Öryrkjabandalagið, sem ég segi að hafi ekki átt sér stað eins og hv. þm. heldur fram, þar sem sá samningur kostar 300 millj. eða 600 millj. á einu ári, hvort ekki sé munur þar á. Og varðandi það að sigla með straumnum þá vil ég spyrja hv. þm. hvort hann eigi við sína eigin samflokksmenn sem sigldu með straumnum þegar verkalýðshreyfingin myndaði straum.