Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 16:13:25 (3453)

2003-12-13 16:13:25# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[16:13]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef grun um að margir samflokksþingmenn hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar hafi haft svolítið gaman af þessari ræðu og fundist jafnvel koma úr hörðustu átt, þ.e. úr munni nákvæmlega þessa hv. þm., sú gagnrýni að það sé sérstaklega ámælisvert að fylgja ekki flokkssamþykktum og flokksaga. Það hefur nú ekki alltaf átt við um hv. þm. Kristin H. Gunnarsson.

Hins vegar vil ég leiðrétta eitt í máli hans. Hann fullyrðir að gert hafi verið samkomulag um þetta mál og hvernig það yrði afgreitt á þinginu. Þetta er rangt, þetta eru ósannindi. Ég spyr: Hvernig er hægt að gera samkomulag ef menn eru jafnframt bundnir trúnaði um að segja ekki frá innihaldi frv.? Er hægt að gera samkomulag fyrir hönd fólks sem ekki er sýnt málið? Er það þetta sem hv. þm. stærir sig af? Gerir þetta Framsfl. hæfan í stjórnarsamstarf við Sjálfstfl., að menn hlýði í blindni því sem þeim er skipað að gera?

Nú er ég farinn að skilja hvers vegna hægt er að brjóta á öryrkjum. Nú er ég farinn að skilja hvers vegna Framsfl. er góður samstarfsflokkur Sjálfstfl. Hann gerir allt sem honum er skipað að gera.