Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 16:30:28 (3465)

2003-12-13 16:30:28# 130. lþ. 50.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JBjarn (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[16:30]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er að koma til 2. umr. og atkvæðagreiðslu frv. um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sem lýtur fyrst og fremst að línuívilnun og skerðingu á heimildum um byggðakvóta.

Það kom fram í umræðunum hjá hv. formanni sjútvn. að hann samsinnti málflutningi mínum um að hér væri ein bótin enn á annars götótt og meingallað fiskveiðistjórnarkerfi. Þetta fiskveiðistjórnarkerfi er mjög ranglátt og þessar stöðugu tilfæringar, ein bót á aðra án þess að taka á meginþætti þess verður alltaf handahófskennt og marklítið.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill taka upp allt fiskveiðistjórnarkerfið og breyta því í grundvallaratriðum sem tryggir bæði rétt byggðanna, íbúanna, útgerðarinnar og einnig meðferð auðlindarinnar. Þetta vill Vinstri hreyfingin -- grænt framboð gera og hefur lagt fram ítarlegar tillögur í því sambandi.

Hér er verið að gera tillögur um ákveðna sýndarlínuívilnun sem þýðir tilfærslur á veiðiheimildum innan bátaflotans og skerðingu á heimildum til Byggðastofnunar til sérstakra ráðstafana fyrir einstakar byggðir sem lenda í vandræðum vegna fiskveiðistjórnarkerfisins og vegna náttúruhamfara og annars slíks. Verið er að skerða þessar heimildir þvert á gefin kosningaloforð sem hljóðuðu upp á það annars vegar að taka upp óskilyrta línuívilnun og hins vegar að auka byggðakvótana. Ríkisstjórnarflokkarnir eru því að svíkja bæði sín kosningaloforð með þessum bótasaumi.

Virðulegi forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð getur í sjálfu sér stutt línuívilnun sem lið í endurskoðun til vistvænni veiða en þá er líka mikilvægt að sú endurskoðun og þær veiðiheimildir verði byggðatengdar og verði til stuðnings atvinnulífinu í byggðunum, landverkafólki, fiskvinnslunum og einnig útgerðinni. Við hefðum viljað sjá þessar aðgerðir byggðatengdar. En framseljanlegur kvóti, þó að hann sé aukinn með línuívilnun, styrkir ekki atvinnu í byggðunum.

Virðulegi forseti. Þetta er bótasaumur á lélegt og mjög slæmt fiskveiðistjórnarkerfi og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sitjum hjá við þessa atkvæðagreiðslu.