Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. desember 2003, kl. 11:51:17 (3485)

2003-12-15 11:51:17# 130. lþ. 51.5 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 130. lþ.

[11:51]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst að samkvæmt gildandi lögum og þessu frv. ætla menn að styðjast við einkum þrjú úrræði til að bregðast við vanda sem upp kann að koma í einstökum byggðarlögum vegna tilfærslu á aflaheimildum. Það er í fyrsta lagi með byggðakvótum --- frv. eins og það lítur nú út, eftir 2. umr., tryggir þá stöðu sem byggðakvótar hafa haft og mælir reyndar nákvæmar fyrir um það hvernig þeim skuli úthlutað þannig að við teljum þá breytingu vera til bóta. Í öðru lagi að tekin verði upp línuívilnun sem er með þeim hætti sem fram kemur í frv. Og í þriðja lagi að handfærabátakerfið verði áfram við lýði. Unnið er að því að ná niðurstöðu um framtíðarfyrirkomulag þess þannig að þegar allt þetta er komið í höfn teljum við að við búum við sæmileg úrræði til þess að bregðast við vanda sem upp kann að koma í einstökum byggðarlögum.