Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. desember 2003, kl. 12:02:48 (3490)

2003-12-15 12:02:48# 130. lþ. 51.5 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, EMS
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 130. lþ.

[12:02]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Þar sem ég hafði ekki aðstæður til þess að taka þátt í 2. umr. um frv. sem hér er til umræðu þarf ég að koma nokkrum athugasemdum á framfæri og ræða nokkuð þetta mál.

Það er eðlilegt að taka undir það sem fram kemur í áliti minni hluta sjútvn. að ljóst er að tímaskortur hefur mjög háð störfum nefndarinnar. Það var m.a. ekki hægt að halda fundi með öllum þeim hagsmunaaðilum sem tengjast málinu, sumir hverjir býsna náið. Það er einnig vert að vekja athygli á því að svo var ýmsum hagsmunaaðilum misboðið á fundum nefndarinnar að þeir gengu af fundinum. Tel ég, herra forseti, að slíkt hafi ekki gerst mjög oft í þingsögunni að svo sé gengið fram af mönnum að áður en raunveruleg umræða hefst í nefnd um mál gangi menn af fundum nefndarinnar. En í störfum sjútvn. virtist það vera vilji meiri hluta nefndarinnar að hefja málfund á fundi nefndarinnar milli ýmissa hagsmunaaðila. Fulltrúar ýmissa samtaka sem þarna voru komnir í þeim göfuga tilgangi að eiga trúnaðarviðræður við nefndarmenn og upplýsa þá um það sem mikilvægast var í málinu, að þeirra mati, voru boðaðir með ýmsum öðrum hagsmunasamtökum á fundinn. Þar af leiðandi töldu þeir sig ekki geta flutt mál sitt við eðlilegar aðstæður og gengu af fundi. Þetta voru ekki eingöngu, getum við sagt, hagsmunaaðilar sem voru öðrum megin vegna þess að þarna voru annars vegar fulltrúar útgerðarmanna og hins vegar fulltrúar sjómanna sem var misboðið það fundarform sem upp á var boðið og svo hart þurfti að ganga fram í málinu að ekki var hægt að veita þeim svigrúm sem þess æsktu, eins og fram á var farið af minni hluta, að reyna að halda fund með viðkomandi aðilum og gefa örlítinn tíma í það. Það var ekki hægt, herra forseti, af þeirri einföldu ástæðu að hraðinn þurfti að vera svo mikill. Þrátt fyrir að unnist hafi tími frá því að þessi ósköp dundu yfir, sem hefði verið hægt að nýta til þess að koma þessum fundum á, var sá frestur ekki nýttur til þess.

Það er eðlilegt, herra forseti, að við þetta séu gerðar athugasemdir og ég vona að þetta sé ekki það fordæmi sem menn ætla að fara eftir í nefndastörfum, að ekki sé hægt að gefa sér tíma til að ræða við þá aðila sem þess æskja og boðaðir hafa verið á fund þingnefnda.

Það er víðar undir þetta tekið vegna þess að í fylgiskjali í bréfi til sjútvn. frá forstjóra Byggðastofnunar, sem farið var fram á að færi yfir þetta mál frá ýmsum hliðum, segir í lok bréfsins, með leyfi forseta:

,,Að lokum skal það enn og aftur áréttað að stofnunin hefur ekki haft ráðrúm til þess að gera faglega úttekt á þýðingu einstakra þátta frumvarpsins og ber að skoða þessar stuttorðu athugasemdir í því ljósi.``

Það er því víðar en í störfum nefndarinnar sem skort hefur tíma til þess að fara yfir málið sem er í raun og veru með ólíkindum því að það er ekki eins og málið sé nýtt. Það er ekki eins og menn hafi verið að uppgötva þetta merkilega fyrirbæri, línuívilnun, á síðustu dögum. Það er búið að hanga yfir hæstv. sjútvrh. alveg frá því að hópur manna náði þessu í gegn á landsfundi Sjálfstfl. og síðan voru svipaðar samþykktir gerðar í systurflokknum skömmu síðar. Þessir systurflokkar hafa því legið með þetta á sér og staðfest þetta í stjórnarsáttmála að línuívilnun skyldi upp tekin. Það hefði því ekki átt að keyra þetta mál í gegnum þingið með slíku offorsi eins og í ljós hefur komið. Enda kemur það fram í áliti minni hluta sjútvn. að málið sé allt vanreifað og stórgallað og bent á ýmis atriði því til staðfestingar sem þarf auðvitað ekki að fara yfir. En það vekur sérstaka athygli að hinir miklu línuívilnunaráhugamenn hafa ekki einu sinni náð að skila frv. inn í þingið þannig að um raunverulega línuívilnun sé að ræða því að það er auðvitað farið í það, eins og ég sagði við 1. umr., að velja úr alfrumstæðasta þáttinn í línuútgerðinni og láta það eingöngu koma þeim til góða.

Herra forseti. Það er ekkert sérkennilegt að hæstv. sjútvrh. bregðist við þessu í Morgunblaðinu í morgun. Þar kemur hæstv. ráðherra líklega með einu skýringuna sem hægt er að bjóða upp á í þessu máli, af hverju þessi leið hafi verið valin. Hæstv. sjútvrh. áttar sig auðvitað á því að ef fara hefði átt aðra leið hefði hæstv. ráðherra þurft að koma upp slíku eftirlitskerfi að annað eins hefur líklega aldrei sést hér á landi. Hæstv. ráðherra velur þessa leið af þeirri einföldu ástæðu, og það eru einu rökin sem hafa komið fram í þessu máli af hverju þessi leið sé farin, að það þurfi ekki að setja upp sérstaka eftirlitsstofnun með kerfinu en eitthvert eftirlit verður að sjálfsögðu að vera á því. Ég er sammála hæstv. sjútvrh. að það eftirlit verður miklu einfaldara en ef farin hefði verið önnur leið. En þetta sýnir hversu vandmeðfarin þessi leið er að hæstv. ráðherra áttar sig á því að setja þarf upp eftirlitskerfi ef menn ætla að fara hana.

En skýring hæstv. ráðherra, herra forseti, er ekki síður athyglisverð á því af hverju þessi ósköp eru hér í þingsalnum. Það er ekki að sjá að það sé mikil sannfæring hjá hæstv. ráðherra í þessu viðtali frekar en fyrri daginn gagnvart þessu máli því að hæstv. ráðherra segir, sem legið hefur ljóst fyrir má segja í öllu þessu máli, að hæstv. ráðherra sé neyddur til að koma með málið inn í salinn. Það er auðvitað vegna þess að það hefur farið í gegnum flokkssamþykktir systurflokkanna og þess vegna verður hæstv. ráðherra að koma með það hingað inn. En ég trúi því að hæstv. ráðherra hafi valið þessa leið og látið semja frv. á þennan hátt, eins og það er nú allt saman sérkennilegt og undarlegt, því að hæstv. ráðherra hafi treyst á það að þingheimur léti ekki slíkt rugl fara hér í gegn. Hæstv. ráðherra hefur væntanlega treyst því að það væri nægjanleg þekking fyrir í sjútvn. til að þessi vitleysa yrði stoppuð. En því miður varð hæstv. ráðherra ekki að ósk sinni og sjútvn. hefur með meirihlutavaldi keyrt þetta í gegn á ofsahraða, m.a. með því að ryðja út af fundum sínum misgóðum mönnum með það sem þeir buðu upp á. Ég verð að segja að ... (KHG: Var mönnum rutt út? Ég bið þingmanninn að rökstyðja þetta.) Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, það er kannski fullsterkt til orða tekið að mönnum hafi verið rutt út en mönnum var misboðið af gjörningum meiri hlutans og hv. þm. sem starfandi formaður nefndarinnar hefur væntanlega haft hönd í bagga með að bjóða upp á slíkt málfundarform sem þarna var boðið upp á svo að ekki var hægt að láta þær umræður fara fram sem menn töldu að verið væri að bjóða upp á með því fyrirkomulagi sem þar var.

Herra forseti. Það er eðlilegt að víkja einnig að því að það er ekki einlitur hópur sem hefur gert athugasemdir við frv. Ég var að tala um að hæstv. ráðherra hafi trúlega átt þá ósk heitasta að sjútvn. áttaði sig á því hvað hér væri á ferðinni og mundi þess vegna stoppa málið eða a.m.k. gefa sér nægan tíma til þess að fara yfir alla efnisþætti og gera á því verulegar breytingar. Það liggur t.d. ljóst fyrir að trillukarlarnir, sá hópur sem þetta átti allt saman að vera fyrir, hafna frv. Sú breyting hefur orðið hjá Landssambandi smábátaeigenda að þeir hafna alfarið frv. Það er merkilegt, eins og kom fram í fjölmiðlum, að þegar forvígismenn Landssambands smábátaeigenda sem höfðu fagnað því að frv. væri fram komið og töldu að hér væri á ferðinni línuívilnun eins og systurflokkarnir höfðu boðað í kosningabaráttunni, fóru að lesa frv. sem hæstv. ráðherra gerði ráð fyrir og væntanlega hv. þm. sem sitja í sjútvn., komst Landssamband smábátaeigenda auðvitað að þeirri niðurstöðu að þetta frv. væri svo gallað að þeir höfnuðu því.

Maðurinn sem hefur verið stimplaður sem upphafsmaður málsins, Guðmundur Halldórsson formaður Eldingar, félags smábátaeigenda á norðanverðum Vestfjörðum, hefur einnig ýmislegt um þetta frv. að segja og segir í Morgunblaðinu, laugardaginn 13. desember, með leyfi forseta:

,,Það var aldrei mín stefna að útiloka stærri báta eða þá sem nota beitningatrektir.``

Hann hafði aldrei ætlast til þess. Það er því spurning, hæstv. sjútvrh., hvort hér sé raunverulega verið að standa við landsfundarsamþykktir systurflokkanna, hvort hér sé ekki um svo gallað frv. að ræða að það nái því ekki einu sinni.

Herra forseti. Það er eðlilegt að vitna sérstaklega til þess sem kemur við það byggðarlag sem er líklega hvað mest háð smábátum. Ég taldi að það ágæta byggðarlag ætti nokkra vini í þingsalnum, en ég á auðvitað við Grímsey. Hvað kemur í ljós þegar rætt er við menn í Grímsey? Það hefur ekki verið beitt línu í Grímsey í tíu ár. Þar nota allir beitningatrektir. Þróunin í línuveiðum í Grímsey er komin lengra en frv. gerir ráð fyrir. Frv. er sem sagt eingöngu að hygla þeim sem ekki hafa tekið neinni þróun í línuveiðum og því eru Grímseyingar skildir eftir úti í kuldanum. Töldu ýmsir að nægur væri kuldinn samt í eynni þannig að ekki þyrfti að auka á hann með þessu háttalagi. Ýmsir hafa bent á að það séu allt að 100 tonn sem tekin eru frá Grímseyingum með þessu frv. Þess vegna er eðlilegt að hæstv. sjútvrh. sé oft og tíðum að taka undir með þeim sem eru að gagnrýna frv. vegna þess að ljóst er að það er verið að taka af ýmsum það sem verið er að bæta á aðra. Það er sérkennilegt að þrátt fyrir að málið hafi farið í gegnum nefnd liggja ekki enn svör fyrir um það hvað verið er að taka af hverjum, hvernig þetta komi niður á einstökum byggðarlögum. Það er alveg sérstakt að áhugamenn um að bæta og efla sjávarbyggðir á landinu skuli styðja þetta frv. án þess að slíkt liggi fyrir. Það skyldi þó ekki vera, eins og einn ágætur maður benti mér á, að þeir sem væru líklega helst styrktir með þessu frv. væru flutningaaðilar, þeir sem væru að flytja fiskinn sem ýmsir af þessum ágætu bátum koma með að landi, sem eru að keyra hann þvers og kruss um landið vegna þess að því miður eru líkur á því að allt of lítið af þeim afla sem þessir bátar munu koma með að landi verði unninn í þeim byggðarlögum sem honum verður landað í. Því miður, vegna þess að ég taldi og hæstv. ráðherra taldi í viðtölum að einn meginrökstuðningurinn fyrir því að bera fram slíkt frv. um línuívilnun væri að auka almennt vinnu í sjávarbyggðum landsins. En það virðast vera líkur á því að verið sé að minnka hana ef eitthvað er og væri hægt að nefna mýmörg dæmi um það.

En greinilegt er að byggðarlag eins og Grímsey á ekki upp á pallborðið lengur m.a. hjá mörgum hv. stjórnarþingmönnum miðað við þetta frv. sem allar líkur eru á, að því er virðist, að svo sterk séu handjárnin í þessu máli í stjórnarliðinu að það muni keyra frv. í gegn, þrátt fyrir að ljóst sé að fjöldi stjórnarþingmanna fylgir ekki sannfæringu sinni í málinu. Það er grafalvarlegur hlutur ef það mun gerast. (Gripið fram í.: ... Vestmannaeyjar?) Við gætum auðvitað líka farið í Vestmannaeyjar ef á þyrfti að halda vegna þess að við gætum tekið hverja sjávarbyggð á fætur annarri hringinn í kringum landið. En ég tók Grímsey sem dæmi, hv. þm., vegna þess að það er sláandi hvernig frv. kemur við byggðina þar. Maður hefði ætlað að ef á annað borð væri verið að fara með sértækar aðgerðir fyrir hinar smærri sjávarbyggðir sem byggja sitt á smábátaútgerð, væri a.m.k. horft til byggðarlags eins og Grímseyjar. Það verður að segjast eins og er að það er eiginlega lágmarkskrafa að þannig sé að málum staðið en því miður virðist það ekki vera þegar horft er á frv. sem hér er til umræðu.

[12:15]

Herra forseti. Það er með ólíkindum, eins og ég fór yfir við 1. umr., að þrír hv. þm. af einum landshluta skuli geta náð slíkum árangri. Auðvitað er rétt að óska þeim hv. þingmönnum sérstaklega til hamingju. Þeir hafa náð ótrúlegum árangri. Það er umhugsunarefni fyrir þingmenn annarra landshluta að það virðist ætíð svo, þegar krukkað er í skipulagið á stjórn fiskveiða, að fara þurfi í sértækar aðgerðir vegna Vestfjarða. Það er mjög sérstakt. Ég býst við að Vestfirðingar fari að velta því fyrir sér hvort það sé verið að gera þeim gott með þessum sífelldu sértæku aðgerðum.

Ég ber a.m.k. þá von í brjósti að hv. þingmenn í stjórnarliðinu fari fljótlega að segja stopp og sjái að það sé ekki hægt að ganga mikið lengra fyrir lítinn hluta landsins. Menn hljóta að þurfa að horfa heildstætt á málið og velta fyrir sér hvað er best fyrir þjóðarbúið. Ég er sannfærður um að fyrir Vestfirði er miklu betra að standa öðruvísi að málum en að nota plástra sem þennan. Nú held ég að hægt sé að segja að gripið sé til sértækustu aðgerðarinnar, fyrir hvað minnstan hóp, í sögu laga um stjórn fiskveiða hér á landi. Þetta er líklega minnsti hópurinn sem fengið hefur sértæka aðstoð.

Herra forseti. Ég spurði, þegar 1. umr. fór fram, hver væri staða Framsfl. í málinu. Ég hef verið að leita eftir því. Ég hef fengið nokkrar blaðaúrklippur sem skýra það að einhverju leyti en benda til þess, sérstaklega eftir að sjútvn. hefur afgreitt málið með tilstuðlan hv. framsóknarþingmanna þar, að klofningur sé í Framsfl. um málið. Eins og þingheimur veit hefur orðið breyting á því hver situr þar í formannsstól en það virðist ekki breytast í þeim ágæta flokki að formaður þingflokksins virðist ekki alltaf hafa sömu skoðanir í sjávarútvegsmálum og meginhluti þingflokksins. Formaður þingflokks Framsfl., hv. þm. Hjálmar Árnason, hefur í fjölmiðlum sagt að hann sé alfarið á móti línuívilnun.

Herra forseti. Það eru á margan hátt skemmtilegt sjónarmið sem hv. þm. setur fram gagnvart því frv. sem hæstv. sjútvrh. lagði fram. Í Fréttablaðinu sagði m.a.:

,,,,Þökk sé Kínverjum að línuívilnun til styrktar byggð er óþörf. Eftir að markaðir fyrir sjófrystan fisk hrundu fáum við 70 þús. tonn af fiski til vinnslu í landi,`` sagði Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsfl.``

,,Hv. þm. hefur lýst sig andsnúinn línuívilnun og talað gegn henni á þingflokksfundi Framsfl. á föstudag,`` segir í Eyjafréttum. Nú ber alveg nýtt við, að fjölmiðill skuli hafa svo góðar heimildir um það sem sagt er á þingflokksfundum Framsfl. Ég trúi því að hv. þm., sem hefur sem betur fer risið upp af veikindum og er hér hraustur mjög að sjá í þingsölum, muni að sjálfsögðu sýna það í atkvæðagreiðslu á eftir. Það væri ekki verra ef hv. þm. tæki þátt í umræðunum og lýsti fyrir okkur skoðunum sínum varðandi línuívilnun.

Ég held að það sjónarhorn sem hann hefur bent á í þessu máli eigi fullt erindi í þingsal þó að hv. þm. hafi miklar áhyggjur af því, eins og mér barst á minnisblaði, að ýsan kólni, sem væntanlega hefur verið veidd á línu og komi hugsanlega til með að telja í línuívilnun. Ég get lofað hv. þm. því að ég mun ekki hafa af honum þessa ágætu línuýsu. Ég hugsa mér að næra mig á henni sjálfur. Samkvæmt þeim upplýsingum sem mér voru bornar í ræðustólinn er alveg ljóst að ýsan er ætíð góð, hvort sem hún er veidd á færi eða á línu og hvort sem um er að ræða línuívilnun eður ei.

Herra forseti. Mér hefur verið nokkuð tíðrætt um vandræðaganginn á hæstv. sjútvrh. í þessu máli. Menn hafa tekið eftir því að hæstv. ráðherra hefur átt í miklum vanda. Víða hefur verið fjallað um það, m.a. í fjölmiðlum.

Hæstv. ráðherra er kominn í salinn og er mun skemmtilegra að sjá hann í eigin persónu. Ég hef meginhluta ræðu minnar þurft að horfa á hann á svarthvítri mynd, sem er að vísu býsna góð. Ég sé það þegar ég ber hana saman við andlitið á hæstv. ráðherra að myndin nær nokkuð andlitsfallinu og má vart á milli sjá hvort fegurra er þegar maður ber þá saman.

Herra forseti. Rétt að lokum. Þetta vandræðamál hefur því miður ratað inn í þingsal í gegnum sjútvn. með miklum hraða og bægslagangi án þess að málið fengi þá meðferð sem það þurfti. Ekki hefur verið rætt við þá aðila sem talið var nauðsynlegt að ræða við til að kanna mætti allar hliðar málsins. Ljóst er að hæstv. ráðherra hefur ekki orðið að ósk sinni. Sjútvn. gaf sér ekki tíma til að kynna sér málið svo vel að nefndarmenn sæju að málið væri það gallað að það væri ekki hæft til afgreiðslu á þingi. Allar líkur virðast því á því, herra forseti, að handjárnaðir stjórnarliðar muni keyra þetta mál í gegn. Við verðum að vona að það hafi sem minnst skaðleg áhrif.

Því miður, herra forseti, er ég hræddur um að áhrifin verði ekki til góðs og við þurfum enn einu sinni að krukka í fiskveiðistjórnina. Það er ekki tilviljun, herra forseti, að ég tala um að krukka í hana. Það væri miklu frekar þörf á að skoða þetta heildstætt og reyna að ná sem mestri sátt um málið. Með svona krukki er að sjálfsögðu farin þveröfug leið og ókyrrð og óánægja þeirra sem vinna innan kerfisins og hafa verið að laga sig að því verður auðvitað stöðugt meiri.

Herra forseti. Ég læt máli mínu lokið og vonast til að hv. þingmenn fái að njóta ýsu í hádeginu.