Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. desember 2003, kl. 12:25:37 (3491)

2003-12-15 12:25:37# 130. lþ. 51.5 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 130. lþ.

[12:25]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér er eiginlega hálfmisboðið með þessari ræðu hv. þm. Aðra eins þvælu hef ég ekki heyrt lengi úr ræðustól.

Ég vil fyrst spyrja: Hvaða hagsmunaaðilar óskuðu eftir fundi sjútvn. og fengu ekki að koma á fund hennar? Hv. þm. sagði að það hefði ekki verið hægt að halda fundi með hagsmunaaðilum sem tengdust málinu býsna náið. Hvaða aðilar voru það sem vildu koma sjálfir eða einstakir nefndarmenn vildu að kæmu og fengu ekki að koma? Ég kannast ekki við það. Ég bið hv. þm. að færa rök fyrir þessari fullyrðingu sinni.

Í öðru lagi kom ræðumaður inn á að hagsmunaaðilum sem komu á fundinn hefði verið misboðið og gengið af fundi. Þeim var væntanlega misboðið vegna ákvarðana formanns nefndarinnar. Ég vísa þessu á bug. Ég er búinn að svara þessu ítrekað við 2. umr. um málið. Mér er dálítið misboðið að hv. þm. Einar Már Sigurðarson skuli áfram fara með sömu fullyrðingar og búið er að reka til baka í 2. umr. um málið.

Þeir fulltrúar sem gengu á dyr gerðu það, eftir því sem skilja mátti á umræðu um málið í fjölmiðlum eftir á, vegna þess að þeim líkaði ekki við einhvern úr hópi annarra umsagnaraðila og hagsmunaaðila sem voru samtímis á fundinum. Það lá fyrir þegar boðað var til fundarins um morguninn hverjir væru boðaðir saman og enginn fulltrúi úr sjútvn. gerði athugasemd við það. Enda er alsiða að menn boði marga skylda aðila saman til að veita umsögn um mál, sérstaklega þegar mál eru umdeild þannig að þeir geti komið skoðunum sínum á framfæri við nefndina og aðrir hagsmunaaðilar brugðist við þeim skoðunum á sama fundi. Þess eru mörg dæmi og hv. þm. Einar Már Sigurðarson hefur sjálfur tekið þátt í slíkum fundum.