Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. desember 2003, kl. 12:32:06 (3494)

2003-12-15 12:32:06# 130. lþ. 51.5 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 130. lþ.

[12:32]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg augljóst mál að hv. þm. tekur þetta til sín persónulega. Slíkt var alls ekki ætlun mín því að hér var ég að ræða vinnubrögð (KHG: Þú ert ítrekað búinn að vega að mér persónulega.) en ekki hv. þm. persónulega. Það er allt annar handleggur. Þegar við deilum og erum ekki sammála í máli og erum ekki sammála um vinnubrögð þá kemur það persónunni sem slíkri að sjálfsögðu ekkert við.

Það er auðvitað rétt hjá hv. þm. að ég hef setið fundi þar sem jafnvel fleiri en ein nefnd hefur komið saman þar sem fjöldi hagsmunaaðila hefur mætt og menn settu upp málfund. Það hefur hins vegar aldrei gerst á slíkum fundum að hagsmunaaðilar eða þeir sem kallaðir hafa verið til hafi gert athugasemdir við slíkt. Þarna virðist það hafa gerst að hagsmunaaðilar hafi gert athugasemdir við fundarformið og það gerist að minni hlutinn fer fram á að gert sé fundarhlé til þess að reyna að leysa málið. Við því er ekki orðið.

Mér finnst því sýnu alvarlegra hvernig komið er fram við minni hluta nefndarinnar. Að nefndin sem slík skuli ekki geta náð saman um hvernig þessum heimsóknum er háttað er auðvitað ekki til fyrirmyndar. (KHG: Minni hlutinn gerði enga athugasemd.) Ég er að lesa, hv. þm., úr nefndaráliti minni hluta sjútvn. Ég var að sjálfsögðu ekki á fundinum þannig að ég get ekki deilt við hv. þm. um hvað gerðist á honum því að hann sat á fundinum. Ég er að lesa úr nefndaráliti og það stendur í nefndarálitinu að ekki hafi verið orðið við ósk minni hlutans um fundarhlé. Ég hlýt að trúa því sem stendur í nefndarálitinu. Ég tók ekki eftir því og gat því miður ekki, eins og ég sagði áðan, verið við alla 2. umr. En ég hef ekki tekið eftir því að hv. þingmaður eða aðrir hv. þm. sem sitja í sjútvn. hafi gert athugasemdir við þessa setningu.

Ef þessi setning er röng, og ég hef byggt málflutning minn að stórum hluta til varðandi þessar athugasemdir sem ég hef gert við störf nefndarinnar á þeirri setningu, þá hefði ég talið að það ætti að vera búið að koma fram í umræðunni áður. Ég verð því að líta svo á að þessi setning sé rétt og þar af leiðandi sé gagnrýni mín á rökum reist. (Gripið fram í.)