Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. desember 2003, kl. 12:40:13 (3496)

2003-12-15 12:40:13# 130. lþ. 51.5 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 130. lþ.

[12:40]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Um hvað á fiskveiðistjórn að snúast? Það er von að maður spyrji sig þegar maður les þetta frv. Það eru ýmis ákvæði í frv. sem eru beinlínis á móti ábyrgri fiskveiðistjórn.

Þar vil ég fyrst nefna tegundatilfærsluna. Við tölum um og menn rífast mikið yfir 1,5% af þorskstofninum. En þessi tegundatilfærsla er beinlínis andstæð ábyrgri fiskveiðistjórn. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna menn eru að auka tegundatilfærsluna. Snýst þessi fiskveiðistjórn ekki um vernd, fiskvernd? Um hvað snýst þetta ákvæði?

Það er von að maður spyrji vegna þess að þetta ákvæði er ekki í samræmi við nokkra fiskvernd. Ég skil það ekki og það væri mjög fróðlegt að heyra hæstv. sjútvrh. útskýra hvernig þessi tegundatilfærsla komi á nokkurn hátt fiskvernd við. Ég skil það ekki og ég efast um að nokkur maður geti skilið það ef hann setur sig inn í málin.

Hvað sem því líður er frv. sem hér er til umræðu meingallað, ekki bara að þessu leyti heldur að mörgu öðru leyti. Það er verið að taka af byggðakvóta. Hvað svo sem menn segja hérna má lesa það í frv. að verið er að taka þá af. Í öðru lagi er þetta enn ein skóbótin á handónýtt kerfi. Þetta er kerfi sem skilar okkur helmingi minni afla en fyrir daga kerfisins.

Hvað erum við að halda upp á þetta? Er ekki kominn tími til að velta öðrum leiðum fyrir sér? Ég mundi segja það. Menn verða að fara að nota skynsemina og leita annarra leiða. Mér er það bara óskiljanlegt að menn skuli standa í því að halda í kerfi sem hvetur til brottkasts og sóunar. Síðan koma inn ákvæði eins og tegundatilfærslan sem er algjörlega fráleit, meira að segja út frá forsendum sjálfs kerfisins.

Eitt verður að ítreka enn og aftur í umræðu um fiskvernd eða fiskveiðistjórn og kvótakerfi og allt þetta bull sem búið er að koma þjóðinni í og það er að brottkastið leiðir til þess að við vanmetum ákveðna hluta stofnsins. Við vanmetum það í stofninum sem er hent. Það sem gerist núna þegar smáfiski er hent er að við vanmetum magn smáfisks í stofninum sem þýðir að við erum alltaf að vanmeta nýliðunina.

Ég vil bara enn og aftur ítreka að þessi tegundatilfærsla er algjörlega fráleit. Það er stórundarlegt að menn sem vilja kenna sig við ábyrga fiskveiðistjórn skuli hafa þetta í frv. Þeir færa þetta úr 2% í 5% og flengjast síðan út um allan heim og segja: ,,Þetta er besta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi.`` Þetta er bara hrein og klár della.