Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Mánudaginn 15. desember 2003, kl. 12:54:30 (3502)

2003-12-15 12:54:30# 130. lþ. 51.4 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, ÞBack (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 130. lþ.

[12:54]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég styð megininntak frv., þ.e. að samræma lífeyrisiðgjaldagreiðslur æðstu embættismanna þjóðarinnar og leggja niður sérdeildir alþingismanna og ráðherra innan sjóðsins. Við önnur ákvæði frv. hafði ég almennan fyrirvara. Það hefur valdið mér miklum vonbrigðum að ekki skyldi hafa náðst sátt um afgreiðslu frv. í meðförum þingsins og málinu gefinn sá tími sem stjórnarandstaðan hefur óskað eftir og hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Kolbrún Halldórsdóttir, lét bóka í hv. allshn.

Við 2. umr. flutti ég tvær brtt. sem lutu að álagsgreiðslum til formanna stjórnmálaflokka, þ.e. þeirra sem ekki eru jafnframt ráðherrar. Að þeim báðum felldum og þeirri sem ég flutti við 3. umr. tel ég mig ekki bundna af því að styðja frv. í heild og sit því hjá við afgreiðslu málsins.

Herra forseti. Ég tel að svo lengi sem einhver ákvæði um laun og kjör þingmanna eru á hendi Alþingis beri að vinna að þeim málum með skipan þverpólitískrar nefndar þingmanna en ekki með þeim hætti sem nú er gert til undirbúnings þessa frv.