Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Mánudaginn 15. desember 2003, kl. 12:55:58 (3503)

2003-12-15 12:55:58# 130. lþ. 51.4 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, GÖrl (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 130. lþ.

[12:55]

Gunnar Örlygsson:

Virðulegi forseti. Ég hef frá fyrstu stundu verið andsnúinn því frv. sem hér er til umræðu. Afstaða mín hefur aldrei tekið breytingum í þeirri miklu umfjöllun sem hér hefur átt sér stað. Ég er á móti þeirri grundvallarhugsun að ráðamenn þjóðarinnar njóti sérstakra lífeyrisréttinda umfram annað fólk í landinu. Slík hugsun stríðir gegn grundvallarhugsun ólíkra trúarbragða þar sem án tvímæla er kveðið á um jafnrétti manna á milli. Ég er einnig alfarið á móti því að laun einstakra ráðamanna hækki samkvæmt frv. Hér er sérstaklega talað um hækkun til handa formönnum stjórnmálaflokka.

Virðulegi forseti. Til jöfnunar á fjárreiðum stjórnmálaflokka vil ég frekar sjá breytingar á lögum í þá áttina að stjórnmálaflokkar opni bækur sínar, að allir stjórnmálaflokkar sýni með afgerandi og heiðarlegum hætti hvernig fjárreiðum þeirra er háttað. Með því móti næst sú jafnaðarhugsun fram sem liggur að baki þessum tiltekna þætti frv. Nýverið voru fjárveitingar til stjórnmálaflokka auknar. Einmitt í ljósi slíkra breytinga er það álit mitt að auknar álögur til handa formönnum stjórnmálaflokka skuli ákveðnar innan hvers og eins þingflokks fyrir sig. Með þær hugsjónir að leiðarljósi mun ég ekki greiða atkvæði með frv.